Þórður Bjarkar Árelíusson náði frábærum sigri í Muay Thai um helgina. Þórður kláraði þá bardagann með tæknilegu rothöggi í 2. lotu.
Þórður mætti Johan ‘Woody’ Nörgaard frá South Side Muay Thai í Stokkhólmi. Bardaginn fór fram á West Coast Battle 10 sem er eitt sterkasta Muay Thai mót Skandinavíu. Bardaginn fór fram í semi-pro þar sem olnbogar og hné í höfuð eru leyfð.
Þórður tók stjórn á bardaganum frá fyrstu sekúndu. Í byrjun 2. lotu náði Þórður svo góðum olnboga sem hann fylgdi svo eftir með skrokkhöggi og lágsparki. Svíinn féll niður og var talið yfir honum. Nokkrum sekúndum seinna kláraði svo Þórður andstæðinginn með snúningsolnboga.
Glæsileg frammistaða hjá Þórði og setur hann nú stefnuna á atvinnubardaga í Muay Thai í ársbyrjun 2019.
Þórður setti myndband af bardaganum á Instagram síðu sína þar sem má sjá hann klára bardagann.