spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentNær Dominick Cruz enn einni glæstri endurkomu?

Nær Dominick Cruz enn einni glæstri endurkomu?

1.226 dagar eru liðnir síðan Dominick Cruz barðist síðast. Þetta er lengsta fjarvera ferilsins hjá þessum meiðslahrjáða bardagamanni og gæti hann náð magnaðri endurkomu með sigri í kvöld.

Dominick Cruz barðist síðast þann 30. desember 2016. Þá tapaði hann fyrir Cody Garbrandt og hefur enn einu sinni glímt við meiðsli síðan þá. Tvisvar hefur Cruz verið bókaður í bardaga en þurft að hætta við báða bardagana vegna meiðsla.

Þegar Cruz barðist síðast var millivigtarmeistarinn Israel Adesanya ekki kominn í UFC og strávigtarmeistarinn Weili Zhang var bara 9-1 og ekki komin í UFC heldur. Síðan Cruz barðist síðast hefur Cody Garbrandt látið rota sig þrisvar eftir ótrúlega frammistöðu hans gegn Cruz.

Þetta verður ekki fyrsta endurkoma Cruz eftir meiðsli. Cruz var bantamvigarmeistari UFC árið 2011 en barðist ekkert í 1.092 daga eftir krossbandaslit. Á þessum tíma þurfti Cruz að fara í tvær aðgerðir á krossbandinu í vinstra hnénu þar sem fyrri aðgerðin misheppnaðist. Cruz mæti Takeya Mizugaki í endurkomu sinni á UFC 178 í september 2014 og sýndi að hann hafði engu gleymt þegar hann kláraði Mizugaki á 61 sekúndu.

Eftir þessa mögnuðu endurkomu sleit hann aftur krossband en í þetta sinn á hægra hnénu. Cruz snéri aftur 477 dögum eftir Mizugaki bardagann og mætti T.J. Dillashaw um bantamvigtartitilinn. Æfingabúðirnar fyrir bardagann voru erfiðar fyrir Cruz enda var hann ekkert búinn að æfa MMA þegar hann fékk bardagann heldur einungis unnið að því að styrkja sig eftir aðgerð.

Cruz var 20 kg of þungur þegar æfingabúðirnar byrjuðu og vann aðeins 10% af þeim 50-60 lotum sem hann tók fyrir bardagann. Þrátt fyrir þessar skelfilegu æfingabúðir tókst Cruz samt að vinna T.J. Dillashaw og endurheimti beltið í janúar 2016. Cruz var aftur orðinn meistari fimm árum eftir að hann varði beltið síðast. Ótrúleg endurkoma og ein sú magnaðasta í sögu MMA.

Nú er Cruz enn einu sinni að koma til baka en í þetta sinn er fjarvera hans úr búrinu sú lengsta á ferlinum. Hann er auk þess orðinn 35 ára gamall og að mæta meistara sem er með fáa veikleika.

Cruz hefur áður átt magnaðar endurkomur en sigri hann Henry Cejudo í kvöld yrði það magnaðasta endurkoma í sögu MMA. Ef Cruz tekst að endurheimta beltið 1.226 dögum eftir að hann tapaði beltinu væri auðvelt að setja endurkomuna á lista yfir þær bestu í íþróttasögunni.

Það kemur í ljós í kvöld þegar UFC 249 fer fram en bardagi Cruz og Cejudo er næstsíðasti bardagi kvöldsins.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular