Pörupilturinn Nate Diaz mun snúa aftur í desember eftir árs fjarveru þegar hann mætir Michael Johnson. Bardaginn fer fram á UFC on Fox 17 bardagakvöldinu í Orlando þann 19. desember.
Nate Diaz hefur ekkert barist síðan hann tapaði fyrir núverandi léttvigtarmeistara, Rafael dos Anjos, í desember í fyrra. Talið var að Diaz myndi mæta Matt Brown í veltivigt á UFC 189 en ekkert varð úr bardaganum þar sem Diaz sagðist aldrei hafa samþykkt bardagann. Diaz hefur tapað þremur af síðustu fjórum bardögum og lítið barist undanfarin ár. Tapi hann gegn Michael Johnson á hann í hættu á að vera rekinn úr UFC.
Diaz var til mikilla vandræða í aðdraganda síðasta bardaga. Diaz náði ekki vigt, mætti ekki á opna æfingu og gekk út úr miðju viðtali sem sýna átti í Fox útsendingunni rétt fyrir bardagann. Diaz komst einnig í fréttirnar nýlega er hann og bróðir hans (Nick Diaz) lenti í handalögmálum við Khabib Nurmagomedov.
Michael Johnson barðist fyrr í mánuðinum er hann mætti Beneil Dariush. Johnson tapaði eftir afar umdeilda dómaraákvörðun en hann hafði sigrað fjóra bardaga í röð þar áður. Bardagakvöldið verður það síðasta í UFC á árinu en í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Rafael dos Anjos og Donald Cerrone um léttvigtartitilinn.