spot_img
Saturday, December 21, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentNeil Magny mætti á námskeið hjá Demian Maia nokkrum mánuðum eftir að...

Neil Magny mætti á námskeið hjá Demian Maia nokkrum mánuðum eftir að hafa tapað fyrir honum

neil magny demian maiaNeil Magny tapaði fyrir Demian Maia þann 1. ágúst síðastliðinn. Á dögunum mætti Neil Magny á námskeið hjá Maia aðeins nokkrum mánuðum eftir að hafa tapað fyrir honum.

Demian Maia hafði mikla yfirburði gegn Many er þeir mættust á UFC 190. Hann stjórnaði Magny nánast frá fyrstu sekúndu og kláraði hann svo með „rear naked choke“ í 2. lotu.

Fram að þessum bardaga hafði Magny unnið sjö bardaga í röð og taldi sig vera vel undirbúinn að mæta glímusnillingnum Maia. Annað kom þó á daginn og átti Magny einfaldlega ekki möguleika.

Neil Magny var staðsettur í Las Vegas um síðustu helgi þar sem hann var viðstaddur UFC 195. Á Twitter sá hann að Demian Maia yrði með jiu-jitsu námskeið í borginni og spurði hann Maia hvort það væri í lagi ef hann myndi vera með.

Maia tók að sjálfsögðu vel í það og mætti Magny á námskeiðið daginn eftir. Maia var meira að segja svo góður að sníða námskeiðið eftir þörfum Magny og eftir því sem honum fannst Magny gera rangt í bardaga þeirra.

Maia sýndi honum einnig hvernig hann hefði getað gert betur í hans síðasta bardaga gegn Kelvin Gastelum. „Hérna er Maia, enn að berjast í mínum þyngdarflokki og hann hélt ekkert aftur af sér og deildi allri sinni þekkingu með mér. Hann bara gaf mér þetta, sýndi mér hvað ég gerði rangt svo ég gæti lært af því og notað það til að komast lengra á ferlinum. Það að hann skyldi hafa gert þetta sýndi mér hvers konar mann hann hefur að geyma,“ sagði Magny.

Maia hélt áfram að hjálpa Magny eftir námskeiðið. Þeir deildu fari aftur á hótelið þar sem Maia deildi því sem hann hefur lært á átta ára ferli sínum í UFC. „Það var frábært af honum að deila allri sinni þekkingu. Hann deildi með mér nokkrum mistökum sínum utan og innan búrsins svo ég myndi ekki gera þau sömu. Það hefðu ekki allir gert það.“

Þetta sýndi Magny enn betur hversu mikill bardagalistamaður Maia er. Það sama væri hægt að segja um Neil Magny. Ekki allir hefðu haft egóið í að mæta á námskeið hjá manni sem sigraði þig fyrir aðeins nokkrum mánuðum.

Demian Maia hefur lýst yfir áhuga á að koma til Íslands og æfa hér með Gunnari. Ekkert er enn staðfest í þeim efnum en það væri gríðarlega fallegt að sjá. Það kemur alltaf betur og betur í ljós hversu mikill topp bardagalistamaður Maia er.

demian maia ufc 194
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular