0

Neil Magny um bardagann gegn Gunnari: Stór prófraun fyrir mig

Neil Magny mætir Gunnar Nelson á UFC bardagakvöldinu í Liverpool í maí. Magny veit að maí mánuður verður mikilvægur fyrir veltivigtina og ætlar hann að stela athyglinni með frábærum sigri á Gunnari.

Það verður nóg um að vera í veltivigtinni í maí en á rúmri viku fara þrír mikilvægir bardagar fram í veltivigtinni og gæti staðan á styrkleikalistanum gjörbreyst. Sama kvöld og Gunnar mætir Magny mætast þeir Darren Till og Stephen Thompson í aðalbardaga kvöldsins í Liverpool. Viku áður mætast þeir Kamaru Usman og Santiago Ponzinibbio í aðalbardaga kvöldsins í Síle. Augu bardagaaðdáenda munu því beinast að veltivigtinni í maí.

„Það eru sex toppgæjar í veltivigtinni að berjast á einni viku. Markmiðið mitt er að eiga bestu frammistöðuna af þessum sex bardagamönnum. Það eina sem ég get stjórnað er að fara í búrið og eiga frábæra frammistöðu. Það mun marka næstu skref ferilsins og ég hef stjórn á því. Ég fæ risa tækifæri á að berjast við Gunnar Nelson þar sem öll augun beinast að veltivigtinni. Ég þarf bara að eiga góða frammistöðu. Ég má ekki fara þarna inn og vera varkár eða sjá eftir einhverju. Ég þarf að skilja allt eftir í búrinu,“ sagði Magny við MMA Junkie.

Magny er með nokkur töp á ferilskránni eftir uppgjafartök. Hann er spenntur fyrir að mæta Gunnari til að sýna þær framfarir sem hafa átt sér stað í gólfglímunni hans. „Ég veit að menn efast um að ég geti hangið með heimsklassa glímumönnum á gólfinu. Ég er með sex töp á ferlinum og fjögur þeirra eru eftir uppgjafartök. Þetta er því frábært tækifæri fyrir mig að sýna að framfarirnar mínar í gólfglímunni og ég er mun betri þar en ég hef sýnt í undanförnum bardögum. Flestir sigrarnir hans Gunnars eru eftir uppgjafartök og það er það sem gerir mig svo spenntan fyrir þessum bardaga. Þetta er stór prófraun fyrir mig og neyðir mig til að rísa upp og grípa tækifærið.“

Neil Magny hefur alltaf verið duglegur að berjast og tók til að mynda tíu bardaga á tveimur árum í UFC. Á síðasta ári glímdi hann við meiðsli og barðist „aðeins“ tvisvar sinnum. „Þegar ég horfi til baka á síðasta ár þá tókst mér ekki að hrista upp í veltivigtinni eins og ég ætlaði mér. Ég eyddi níu mánuðum á hliðarlínunni vegna meiðsla og endaði árið með einum sigri og einu tapi. Það er ekki of slæmt en ég get notað það sem hvatningu fyrir bardagann gegn Gunnari Nelson.“

„Mig langar að eiga bardaga gegn Gunnari sem allir munu tala um. Þannig frammistöðu er ég að leitast eftir og allt umstangið í kringum það hvetur mig áfram. Ég vil ekki bara vinna, ég vil vinna sannfærandi þannig að fólk vilji sjá mig gegn stóru nafni næst.“

Pétur Marinó Jónsson

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is

-Æft bardagaíþróttir í 6 ár (fjólublátt belti í BJJ)
-BS í sálfræði
-Lýsi UFC á Stöð 2 Sport
-MMA fíkill
Pétur Marinó Jónsson

Latest posts by Pétur Marinó Jónsson (see all)

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í 6 ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.