Nick Diaz virðist vera á leið aftur í búrið á næsta ári eftir ansi langa fjarveru. Samkvæmt heimildum ESPN mun Diaz mæta Jorge Masvidal í mars.
Hinn 35 ára gamli Nick Diaz hefur ekki barist síðan hann barðist við Anderson Silva í janúar 2015. Silva vann bardagann en bardaginn var dæmdur ógildur eftir að báðir féllu á lyfjaprófi – Silva fyrir frammistöðubætandi efni og Diaz eftir að leyfar af marijúana fundust í lyfjaprófinu.
Samkvæmt ESPN hefur Diaz samþykkt að mæta Jorge Masvidal í veltivigt á UFC 235 þann 2. mars á næsta ári. Samningar hafa ekki verið undirritaður en samkomulag er nánast í höfn. Nick Diaz hefur ekki unnið bardaga síðan árið 2011 en nýtur gríðarlegra vinsælda hjá bardagaaðdáendum rétt eins og bróður hans, Nate Diaz.
Jorge Masvidal hefur tapað tveimur bardögum í röð og ekki barist síðan í nóvember 2017. Masvidal var boðið að berjast við Gunnar Nelson í desember hafnaði því. Masvidal lýsti því yfir að hann ætli sér að fara aftur niður í léttvigt en er greinilega tilbúinn að vera áfram í veltivigt ef hann fær Nick Diaz. Masvidal hefur verið að glíma við meiðsli en einnig verið upptekinn í upptökum á spænskum raunveruleikaþætti.