UFC 229 fer fram annað kvöld í Las Vegas þar sem risabardagi Conor McGregor og Khabib Nurmagomedov verður á dagskrá. Bardagakvöldið er einfaldlega geggjað en hér eru nokkrar ástæður til að horfa á bardagana.
Stærsti MMA bardagi allra tíma?
Það þarf ekki að segja mikið meira um bardaga Khabib og Conor McGregor. Bardaginn er einfaldlega risastór og mögulega er þetta einn stærsti MMA bardagi allra tíma. Dana White spáði því á blaðamannafundinum fyrr í vikunni að bardagakvöldið gæti jafnvel náð yfir þremur milljónum í Pay per view sölu. Það væri nánast tvöföldun á stærsta Pay per view kvöldi í sögu UFC þegar Conor mætti Nate Diaz í annað sinn. Það er alltaf stór viðburður þegar Conor berst og er þetta bardagi sem enginn bardagaaðdáandi má missa af.
Pirraður Ferguson reynir að ná 11. sigrinum í röð
Það hefur farið fremur lítið fyrir bardaga Tony Ferguson og Anthony Pettis enda fallið í skuggann á bardaga Conor og Khabib. Þetta er engu að síður geggjaður bardagi milli tveggja frábærra bardagamanna. Ferguson hefur unnið 10 bardaga í röð í UFC og var bráðabirgðarmeistari UFC eftir sigur á Kevin Lee í október 2017. Hann var hins vegar sviptur titlinum þegar hann meiddist í apríl en hefur samt mætt með beltið á viðburði UFC í vikunni. Ferguson var ekki sáttur með að vera sviptur titlinum en hann snýr aftur í búrið á morgun eftir hnéaðgerð í apríl. Bardaginn gegn Pettis gæti verið frábær skemmtun enda tveir frábærir bardagamenn sem taka sénsa. Pettis leit mjög vel út í sínum síðasta bardaga og ef hann heldur áfram á sömu braut gæti þetta verið talsvert erfiðari bardagi heldur en margir telja. Hvernig sem fer má samt búast við virkilega skemmtilegum bardaga!
Stórt próf fyrir Reyes
Dominick Reyes hefur litið virkilega vel út í öllum þremur bardögum sínum í UFC. Alla bardagana hefur hann klárað í 1. lotu og gæti hann orðið eitt af stóru nöfnunum í léttþungavigt enda er hann bara 28 ára gamall sem er enginn aldur í 205 pundunum. Léttþungavigtin er hægt og rólega að ganga í gegnum smá endurnýjun og gæti Reyes verið eitt af nýju nöfnunum á toppnum. Reyes stendur frammi fyrir erfiðri prófraun á morgun en hann mætir Ovince St. Preux sem er með mikla reynslu á stóra sviðinu.
Mikilvægur bardagi í þungavigtinni
Í þungavigtinni mætast þeir Alexander Volkov og Derrick Lewis. Sigurvegarinn hér gæti verið kominn ansi nálægt titilbardaga en Brock Lesnar gæti svo sem staðið í vegi fyrir því. Lewis átti samt drepleiðinlegan bardaga síðast og vonandi býður hann upp á eitthvað miklu betra núna. Volkov átti aftur á móti frábæra frammistöðu síðast og ætlar væntanlega að byggja ofan á það.
Ekki gleyma
Auk fyrrnefndra bardaga má nefna nokkra skemmtilega bardaga. Vicente Luque hefur unnið sex af átta bardögum sínum í UFC en í öllum sex sigrunum kláraði hann andstæðinginn. Luque mætir nýliðanum Jalin Turner sem berst að öllu jöfnu einum flokki neðar. Michelle Waterson mætir Felice Herrig í bardaga á milli tveggja topp 10 kvenna í strávigtinni. Yngri Pettis bróðirinn, Sergio Pettis, mætir svo Jussier Formiga í fluguvigt en sá bardagi verður örugglega áhugaverður.
Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl. 22:15 á Fight Pass rás UFC en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl. 2.