Eftir smá pásu snýr UFC aftur núna um helgina með lítið en mjög gott bardagakvöld. Það eru ansi margar ástæður til að kíkja í átthyrninginn, lítum yfir þær helstu.
Stóra tækifæri James Vick
Almennt þarf engan aukahvata til að horfa á Justin Gaethje bardaga. Maðurinn er gott sjónvarpsefni þó hann taki á sig óþægilega mikið af höggum. Að þessu sinni er það James Vick sem fær þann heiður að mæta honum búrinu. Vick hefur lengi verið í bakgrunninum í þrælsterkum þyngdarflokki í UFC. Hann hefur unnið níu bardaga í UFC og aðeins tapað einum gegn Beneil Dariush. Þessi bardagi er hans stærsti á ferlinum og nái hann að sigra ætti hann að skjótast upp í toppbaráttuna. Til að sigra Geathje þarf yfirleitt fyrst að ganga í gegnum eld og brennistein svo það verður áhugavert að sjá hvað gerist.
Ögurstund Michael Johnson
Það er ekki langt síðan Michael Johnson var talinn einn af þeim bestu í léttvigt. Eftir slæmt gengi í léttvigt ákvað kallinn að létta sig niður í fjaðurvigt en þurfti að sætta sig við tap gegn Darren Elkins í janúar. Nú má Johnson hreinlega ekki tapa ef hann vill halda vinnunni. Andstæðingurinn er hinn 28 ára Team Alpha Male foli Andre Fili sem er á góðri siglingu eftir sigur gegn Artem Lobov og Dennis Bermudez. Verður þetta síðasti bardagi Michael Johnson í UFC?
Átök í fluguvigt
Lítið hefur verið um ný andlit í toppbáráttunni í fluguvigt undanfarið en það gæti breyst með innkomu Deiveson Figueiredo frá Brasilíu. Figueiredo er ósigraður í 14 bardögum og hefur klárað alla nema tvo. Hann hefur unnið þrjá bardaga í UFC og er nú farinn að pota í þá bestu. Hér mætir hann John Moraga sem ætti að reynast mjög erfið prófraun. Moraga er reynslubolti sem hefur skorað á meistarann og virðist alltaf vera að bæta sig. Moraga hefur unnið þrjá í röð og er miklu meira en hliðarvörður. Þetta ætti því að verða hörku bardagi.
Hrúga af kunnuglegum nöfnum
Þetta bardagakvöld ætti að verða mjög skemmtilegt en það er fullt af bardagamönnum frá upphafi til enda sem aðdáendur ættu að kannast við. Strax í fyrsta bardaga kvöldsins fáum við Rani Yahya sem er magnaður á gólfinu. Svo er það Íslandsvinkonan Jo-Jo Calderwood sem mætir til leiks í aðal Fight Pass upphitunarbardaganum. Því næst er röðin komin að Mickey Gall og svo nokkru síðar mætir James Krause til leiks í bardaga gegn Warlley Alves sem ætti að verða fjörugur. Enn síðar fáum við Eryk Anders sem var nálægt því að sigra Lyoto Machida í febrúar. Rúsínan í pylsuendanum er svo kannski Jake Ellenberger gegn Bryan Barberena – það er bardagi sem skiptir í raun engu máli en ætti að verða góð skemmtun. Alls ekki slæmt fyrir lítið Fight Night kvöld í Nebraska.