Á morgun fer fram áhugavert bardagakvöld í Suður-Kóreu. Það er í raun villandi að tala um bardagakvöld enda fara bardagarnir fram um miðjan dag hér heima. Hér eru nokkrar ástæður til að horfa á bardagana á morgun.
- Gríðarlega mikilvægur bardagi fyrir Ben Henderson: Fyrrum léttvigtarmeistarinn Ben Henderson hefur barist 13 bardaga í UFC síðan hann kom yfir úr WEC. Bardaginn á morgun verður hins vegar síðasti bardaginn hans á núverandi samningi samkvæmt háværum orðrómi. Talið er að Ben Henderson ætli að sjá hvers virði hann er og hlusta á tilboð frá öðrum bardagasamtökum eftir bardagann sem UFC getur svo alltaf jafnað eða boðið betur. Hann getur því styrkt samningsstöðu sína verulega á morgun með sannfærandi sigri á Jorge Masvidal.
- Masvidal er sjaldan í leiðinlegum bardaga: Jorge Masvidal mætir Ben Henderson á morgun en hann kemur í stað Thiago Alves sem meiddist fyrir skömmu. Bæði Henderson og Masvidal eru að koma upp í veltivigt eftir langa veru í léttvigt. Masvidal er afskaplega vanmetinn bardagamaður og nánast aldrei í leiðinlegum bardögum.
- Löðrandi kynþokki: Einn kynþokkafyllsti bardagamaður heims, Yoshihiro Akiyama, betur þekktur sem Sexyama, mætir Alberto Mina á morgun. Akiyama er orðinn fertugur og spurning hversu mikið hann á eftir af ferlinum. Akiyama er japanskur en er af kóreskum ættum og því hálfpartinn á heimavelli á morgun. Þetta verður aðeins í annað sinn á ferlinum sem hann berst í Suður-Kóreu og er hann eflaust staðráðinn í að ná í sigur á morgun. Sexyama grínið er eitt það besta í MMA og vonandi munum við sjá sigur hjá þessum kynþokkafulla manni.
- Kóreski ofurstrákurinn: Doo Ho ‘The Korean Superboy’ Choi, er 24 ára Suður-Kóreskur bardagamaður sem þykir afar spennandi í UFC. Af 12 sigrum hans hafa níu komið eftir rothögg og er hann gríðarlega spennandi bardagamaður. Hann leitast alltaf eftir rothögginu eins og við sáum í hans eina UFC bardaga hingað til. Meiðsli hafa sett strik í reikninginn hjá honum en loksins fáum við að sjá hann aftur á morgun. Þá mætir hann Sam Sicilia sem er sjálfur ófeiminn við að hlaða í neglur líkt og Choi. Þessi bardagi gæti auðveldlega orðið besti bardagi morgundagsins.
- Tvöfaldur Dong Hyun Kim: Dong Hyun Kim er einn vinsælasti og sigursælasti bardagamaðurinn í Kóreu. Hann er svo vinsæll að hann berst tvisvar á morgun! Það er reyndar ekki alveg satt heldur mun alnafni hans, Dong Hyun Kim, berjast fyrr um kvöldið. Það verða því tveir Dong Hyun Kim sem berjast á morgun.
- Frábær tími: Þar sem bardagakvöldið fer fram í Asíu eru bardagarnir á góðum tíma hér á Íslandi. Fyrsti bardagi dagsins hefst kl 10 um morguninn og aðalhluti bardagakvöldsins kl 13. Bardagaaðdáendur hér heima þurfa því ekki að vaka langt fram eftir til að horfa á UFC í beinni líkt og flest kvöld.