spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Hunt vs. Oleinik

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Hunt vs. Oleinik

UFC heldur sitt fyrsta bardagakvöld í Rússlandi núna um helgina. Kvöldið er ekki beint hlaðið stórstjörnum en það er engu að síður troðfullt af grjóthörðum nöglum frá einu harðasta horni heims.

Þungir kallar

Síðustu þrír bardagar kvöldsins eru í þungavigt og léttþungavigt. Í aðalbardaga kvöldsins mætir Mark Hunt Rússanum Aleksei Oleinik (stundum skrifað Oleksiy Oliynyk) sem er til alls líklegur en er sennilega þekktastur fyrir „Ezekiel choke“ uppgjafartökin sín. Hunt þarf ekki að kynna en það er áhugavert að skoða feril Oleinik. Í sjö UFC bardögum eru einu töpin naumt tap á stigum gegn Daniel Omielańczuk og furðulegt tap gegn Curtis Blaydes þar sem Blaydes kom inn að því er virtist ólöglegu hné. Bardaginn var stöðvaður en svo kom í ljós að hnéð var ekki svo alvarlegt og Blaydes var úrskurðaður sigurvegari. Spurningin er því hvort Hunt geti sigrað Oleinik á afgerandi hátt.

Nikita Krylov

Endurkoma Nikita Krylov

Nikita Krylov er aðeins 26 ára en hefur þegar átt langan og viðburðaríkan MMA feril sem spannar sex ár og 29 bardaga. Það sem er líka magnað er að Krylov hefur aldrei unnið á stigum og hefur aðeins einu sinni farið í þriðju lotu. Krylov barðist í UFC frá 2013 til 2016. Honum var ekki sparkað heldur valdi hann að berjast annars staðar, nær sínum heimkynnum í Úkraínu. Í síðustu tíu bardögum er aðeins eitt tap á ferli Krylov (gegn Misha Cirkunov). Krylov verður kærkomin innspýting í léttþungavigt UFC en hann fær ekki auðveldan andstæðing. Jan Blachowicz er nr. 4 á styrkleikalista UFC og hefur nú unnið þrjá bardaga í röð. Nái Krylov að sigra skýst hann beint á toppinn í þyngdarflokknum.

Arlovski lestin heldur áfram

Andrei Arlovski berst einnnig þetta kvöld gegn Rússanum Shamil Abdurakhimov. Eftir að hafa verið afskrifaður af mörgum eftir fimm töp í röð hefur Arlovski aðeins náð að snúa við blaðinu. Hann sigraði Júnior Albini og Stefan Struve í nóvember og mars en tapaði svo naumlega á stigum gegn hinum efnilega Tai Tuivasa í sumar. Fáum við að sjá Arlovski steinrotaðan eða heldur gamli meistarinn áfram að koma á óvart?

Frábær tími

Eins og venjulega þegar UFC heimsækir Evrópu er bardagakvöldið á frábærum tíma hérlendis. Fyrsti bardagi dagsins hefst kl. 14:30 en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl. 18. Aðalhluti bardagakvöldsins verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3 en alla bardagana er svo hægt að sjá á Fight Pass rás UFC.

Mairbek Taisumov

Rosalegir Rússar

Eins og við mátti búast eru fullt af rússneskum bardagamönnum á þessu fyrsta bardagakvöldi UFC í Rússlandi. Tveir af þeim standa þó sérstaklega upp úr og það eru þeir Petr Yan og Mairbek Taisumov. Petr Yan var bantamvigtarmeistari ACB og leit rosalega vel út í frumraun sinni í UFC fyrr á árinu. Miklar væntingar eru bornar til Yan en búist er við að hann blandi sér í toppbaráttuna í bantamvigtinni á komandi árum. Mairbek Taisumov er rosalegur rotari en er því miður fastur í sömu hjólförunum. Taisumov hefur unnið fimm bardaga í röð í UFC, alla með rothöggi, en undir öllum eðlilegum kringumstæðum væri hann kominn hærra upp metorðastigann í UFC. Þess í stað er hann fastur í upphitunarbardögum UFC í Evrópu þar sem hann á í vandræðum með að fá vegabréfsáritun í Bandaríkjunum. Taisumov gerði sér svo enga greiða með því að vera langt frá vigt í morgun (6 pundum yfir) en hann mætir mætir Desmond Green annað kvöld og má búast við enn einu rothögginu þar.

Fleiri harðir kallar

Þetta kvöld er fullt af hörðum köllum sem ekki væri gaman að mæta í dimmu húsasundi. Það eru engar konur hér á ferð, sem er óheppilegt og hefur ekki gerst í langan tíma. Þetta kvöld fáum við Alexey Kunchenko sem mætir Thiago Alves. Svo er það Rússinn Khalid Murtazaliev sem er með hvorki meira né minna en 12 rothögg í 13 sigrum en hann spreytir sig gegn C.B. Dollaway. Við þetta bætast Magomed Ankalaev, Adam Yandiev, Ramazan Emeev, Stefan Sekulić og Mereab Dvalishvili. Ætlum ekki að þykjast vita allt um þessa karla en getum fullvissað ykkur um að flestir eiga þeir það sameiginlegt að vera aggressívir, frekar villtir, fullir af testósteróni og standa undir staðalímyndinni um hinn týpíska rússneska bardagamann. Það er alltaf áskrift á fjör!

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular