Saturday, May 18, 2024
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Moicano vs. Korean...

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Moicano vs. Korean Zombie

UFC er með lítið bardagakvöld í Greenville í kvöld þar sem skemmtilegur bardagi í fjaðurvigtinni fer fram. Hér eru nokkrar ástæður til að horfa á bardagakvöldið í kvöld.

Ávísun á fjör

Chan Sung Jung eða ‘The Korean Zombie’ eins og hann er oftast kallaður hefur lítið barist undanfarin ár. Jung barðist ekkert í fjögur ár vegna meiðsla og tveggja ára herskyldu í Suður-Kóreu. Síðast sáum við hann tapa fyrir Yair Rodriguez með rothöggi á síðustu sekúndunni í fimm lotu bardaga. Hann er þó alltaf skemmtilegur og alltaf í skemmtilegum bardögum. Í kvöld mætir hann Renato Moicano sem er ekki síður skemmtilegur bardagamaður svo þetta ætti að verða fjörugur bardagi.

Mikilvægur bardagi í fluguvigt kvenna

Þær Andrea Lee og Montana De La Rosa mætast í mikilvægum bardaga í fluguvigt kvenna. Meistarinn Valentina Shevchenko virðist hafa mikla yfirburði í fluguvigtinni og mætir Liz Carmouche í næstu titilvörn sinni. Lee eða De La Rosa gæti fengið næsta titilbardaga með sigri. Báðar eru þær ósigraðar í UFC og munu báðar mæta hungraðar til leiks enda mikið í húfi. Það ætti að gefa okkur góðan bardaga.

Stúfurinn í millivigt

Deron Winn berst sinn fyrsta bardaga í UFC í kvöld þegar hann tekur á móti Eric Spicely í millivigt. Winn er bara 5-0 í MMA og er með frábæra ferilskrá í ólympískri glímu. Það sem vekur helst athygli við Winn er að hann er aðeins 165 cm á hæð. Hann mun alltaf vera minni bardagamaðurinn en andstæðingur hans í kvöld er 188 cm á hæð. Winn æfir hjá AKA og er í góðum tengslum við Daniel Cormier.

Endurkoma Matt Wiman

Matt Wiman mætir Luis ‘Violent Bob Ross’ Pena í kvöld. Þetta verður fyrsti bardagi Wiman í fimm ár og áhugavert að sjá hvernig hann kemur til leiks. Þetta verður 16. bardagi Wiman í UFC en á sama tíma er Pena aðeins 6-1 sem atvinnumaður í MMA. Það gæti reynst erfitt fyrir Wiman að koma til baka eftir fimm ára fjarveru gegn ungum og ferskum andstæðingi.

Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl. 20:00 en aðalhluti bardagakvöldsins kl. 23:00.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular