spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC 210

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC 210

UFC 210 fer fram í kvöld í Buffalo í New York fylki. Daniel Cormier ver léttþungavigtarbelti sitt í endurati gegn Anthony ‘Rumble’ Johnson auk þess sem Chris Weidman mætir Gegard Mousasi. Hér eru nokkrar ástæður til þess að horfa á UFC 210.

  • Endurat DC og Rumble: Fyrri bardagi þeirra á UFC 187 var áhugaverður en Rumble sló DC niður snemma í fyrstu lotunni. DC tókst það sem fáum hefur tekist að gera, að standa upp aftur og sigra Anthony Johnson með uppgjafartaki eftir að Johnson sprengdi sig. Cormier hefur sagt í viðtölum fyrir bardagann að Rumble hafi hvorki hjarta né úthald til þess að halda í við sig á meðan Johnson segist vera nýr maður. Mun Cormier nota glímuna sína til að ná Johnson niður snemma eða mun hann vilja reyna að standa með Rumble, sem er aldrei góð hugmynd?
  • Chris Weidman þarf á sigri að halda: Fyrrum millivigtarmeistarinn Chris Weidman tapaði í fyrsta sinn á ferlinum gegn Luke Rockhold í desember 2015. Hann tapaði svo aftur gegn Yoel Romero í nóvember síðastliðnum og verður að vinna í kvöld. Það verður þó hægara sagt en gert gegn Gegard Mousasi sem hefur unnið fjóra bardaga í röð og aldrei litið betur út. Mousasi mun með sigri gera ansi sterkt tilkall til titilbardaga (rétt eins og ‘Jacare’ Souza og Yoel Romero) í undarlegri millivigtinni þessa dagana.
  • Will Brooks er mættur aftur: Will Brooks, fyrrum léttvigtarmeistari Bellator tapaði síðasta bardaga sínum gegn Alex Oliveira og þarf á sigri að halda til að klífa upp þéttskipaðan styrkleikalistann í léttvigtinni. Á meðan er andstæðingur hans, Charles Oliveira, mættur aftur í léttvigtina eftir ansi margar misheppnaðar tilraunir til þess að skera niður í fjaðurvigtina.
  • Tvær efnilegar í strávigtinni: Cynthia Calvillo verður í kvöld fyrsti bardagamaðurinn til að keppa á tveimur „Pay Per View“ bardagakvöldum í röð síðan Tito Ortiz gerði það sama árið 2005. Frumraun hennar á UFC 209 var frábær og ætlar hún að byggja ofan á það með sigri í kvöld. Andstæðingur hennar hefur fengið nokkra athygli undanfarin sólarhring þar sem íþróttasamband New York ætlaði að banna henni að keppa vegna brjóstapúða hennar. Sem betur fer fær hún að keppa en þetta verður fyrsti bardagi hennar í UFC.
  • Kamaru Usman ætlar að sýna öllum af hverju hann lítur svona stórt á sig: Usman óskaði eftir bardaga gegn Demian Maia í nóvember og segir að hann sé besti glímumaðurinn í veltivigtinni. Stór orð þar á ferð og við sjáum hvað setur í kvöld þegar hann mætir Sean Strickland.
  • Fylgstu með: Josh Emmett er 2-0 í UFC og hefur litið nokkuð vel út. Hann mætir Desmond Green sem berst sinn fyrsta bardaga í UFC í kvöld. Þá er alltaf gaman að horfa á Charles Rosa en hann mætir Shane Burgos í kvöld.

Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl 22:15 en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 2 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular