Um helgina reynir UFC að fylgja eftir hinu ótrúlegu bardagakvöldi UFC 217. Í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Max Holloway og Jose Aldo en hér eru nokkrar ástæður til að horfa á bardagakvöldið.
Getur sigursælasti fjaðurvigtarmeistarinn endurheimt titilinn?
Í aðalbardaga kvöldsins mun Max Holloway takast á við Jose Aldo öðru sinni. Holloway hefur verið að jarða alla í fjaðurvigtinni, unnið 11 bardaga í röð en hans seinasta tap var gegn Conor McGregor fyrir fjórum árum. Holloway hefur unnið Aldo áður og margt bendir til þess að hann sé næsta stjarna fjaðurvigtarinnar. Margir telja að Aldo sé á síðustu metrunum sem topp bardagamaður en hann var rotaður af Conor McGregor og tapaði titlinum svo aftur fyrr á árinu. Hann barðist þó gegn Frankie Edgar áður og leit þar mjög vel út gegn mjög góðum andstæðingi. Er Max Holloway að fara að halda áfram sigurgöngu sinni eða er Aldo kominn aftur með neistann sem einkenndi hann fyrr á ferlinum?
Skrímslið í þungavigtinni
Ef þú hittir Francis Ngannou í dimmu húsasundi þá er ekkert skrýtið að þú yrðir mjög hræddur. Maðurinn er byggður eins og skriðdreki. Hann á einhvers konar heimsmet í höggþyngd (samkvæmt UFC og tökum við því með góðum fyrirvara) og hefur unnið tíu bardaga án þess að fara í þriðju lotu. Hann hittir þó tæknilega besta sparkboxara í sögu þungavigtarinnar í Alistair Overeem. Hollendingurinn er gríðarlega tæknilegur og hefur breytt alveg um bardagastíl þar sem hann hefur misst alla burði til þess að taka þungum höggum. Auk þess er hann líka mjög vanmetinn í jörðinni. Francis Ngannou minnir mikið á Shane Carwin þegar hann kom í UFC. Hann getur snert á þér hökuna og þú ferð að sofa en oft með bardagamenn sem treysta of mikið á óheflaðan kraft þá er auðveldara að notfæra sér veikleika þeirra. Við höfum ekki séð veikleika Ngannou ennþá. Nær Overeem að sýna okkur veikleika Ngannou?
Bardagi ársins?
Eddie Alvarez þekkir alveg að vera í bestu bardögum ársins en einn besti bardagi allra tíma er fyrsti bardagi hans og Michael Chandler í Bellator. Hann er tilbúinn að sveifla leðri út um allar trissur og taka við höggum þó hann sé með ekki sá besti að éta högginn. Fyrir þá sem ekki vita þá er Justin Gaethje ósigraður í 18 bardögum og hefur verið reiður síðan í leikskóla. Hann er gríðarlega árásargjarn en 15 af þessum 18 sigrum hafa sigrast með rothöggi. Þekktur fyrrverandi meistari gegn líklegum meistara, það þarf ekki að segja neitt meira.
Ertu viss um að þú viljir Demetrious Johnson?
Annað hvort eru of fáir góðir bardagamenn í fluguvigtinni eða Demetrious Johnson er bara svona miklu betri en þeir allir. Cejudo leit vel út í seinasta bardaga og hefur bætt sig síðan hann tapaði gegn DJ. Hann tapaði gegn Joseph Benavidez á dómaraúrskurði en stóð sig þó mjög vel. Sergio Pettis er búinn að vinna fjóra bardaga í röð og hefur ekki áður tekist á við DJ. Með góðum sigri gæti hann verið næsti andstæðingur DJ.
Ekki gleyma
Það eru nokkrir bardagar sem eru mjög athyglisverðir á UFC 218. Michelle Waterson og Tecia Torres eru báðar topp 10 í strávigt og munu þær með sigri færast upp stigann til þess að hefna fyrir tap sitt gegn meistaranum Rose Namajunas. Einnig verður gaman að fylgjast með Charles Olivera gegn Paul Felder, Alex Olivera og Yancy Medeiros og David Teymur gegn Drakkar Klose. Hörku kvöld í vændum!
Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl 23:15 á Fight Pass rás UFC en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 3 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.