Í dag verður lítið UFC kvöld sem ekki hefur farið mikið fyrir. Kvöldið verður það fyrsta sem haldið hefur verið í Króatíu en þar í landi er rík hefð fyrir bardagaíþróttum. Kvöldið lendir kannski ekki í flokki með betri UFC kvöldum en það má finna nokkrar góðar ástæður til að horfa.
- UFC á eðlilegum tíma: Þetta bardagakvöld byrjar kl. 18 sem er skemmtileg tilbreyting frá því að vaka fram á nótt með blóðhlaupin augu. Hvað er betra en sunnudagssteik, ískaldur og smá UFC áður en mánudagur mætir á svæðið og sýgur úr manni allan lífsvilja?
- Mikilvægur bardagi í þungavigt: Aðalbardagi kvöldsins á milli Ben Rothwell og Junior dos Santos er bæði áhugaverður og mjög mikilvægur í þyngdarflokknum. Sigri Rothwell á hann góðan möguleika á titilbardaga með fimm sigra í röð. Sigri dos Santos gæti hann þess vegna fengið næsta tækifæri, sérstaklega ef Andrei Arlvoski tekst að sigra Alistair Overeem í maí.
- The Black Beast! Þeldökka villidýrið Derrick Lewis hefur smá saman verið á uppleið en hann vantar enn sigur gegn stóru nafni í þungavigt. Honum mistókst gegn Matt Mitrione og Shawn Jordan en fær hér stórt tækifæri gegn reynsluboltanum Gabriel Gonzaga. Bombum verður varpað og rothögg er ekki ólíkleg niðurstaða.
- Meiri þungavigt: Þetta kvöld er óvenju hlaðið af stórum mönnum. Fimm þungavigtarbardagar fara fram um kvöldið, þar af fjórir á aðalhluta kvöldsins. Bardagakvöldið getur því hæglega orðið frábær skemmtun eða afskaplega hægt og leiðinlegt.
- Erfið frumraun: Damir Hadžović berst sinn fyrsta UFC bardaga á morgun. Hann mætir Mairbek Taisumov sem er afar sterkur andstæðingur. Við spjölluðum við Damir fyrr í mánuðinum og þá var hann gífurlega spenntur fyrir tilhugsuninni um að berjast við svo sterkan andstæðing.
- Fyrrum andstæðingur Gunnars Nelson keppir: Hver man ekki eftir Zak Cummings sem þurfti að játa sig sigraðan gegn Gunnari Nelson árið 2014? Hér mætir hann ósigraða og efnilega Dananum Nicolas Dalby, við hljótum að halda með honum er það ekki?
Aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 18 á Stöð 2 Sport en fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl 14:30 á Fight Pass rás UFC.