spot_img
Tuesday, October 8, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Bisping vs. Gastelum

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Bisping vs. Gastelum

Nú er komið að enn einu bardagakvöldinu í þéttri dagskrá UFC sem fyllir nánast hverja helgi út árið. Röðin er komin að bardagakvöldi sem fer fram í Sjanghæ í Kína þar sem aðalbardaginn er á milli Michael Bisping og Kelvin Gastelum. Hér eru helstu ástæðurnar til að kíkja á bardagana.

Fer fram á kristilegum tíma fyrir Íslendinga

Þar sem bardagkvöldið fer fram að kvöldi til í Kína þá fer aðalhluti kvöldsins fram um hádegisbil í Evrópu. Þetta þýðir fyrir okkur Íslendinga að við getum leyft okkur að sofa eilítið út, vakna og kveikja á bardögunum og byrja daginn á því. Og ef aðdáendur vilja byrja daginn snemma byrja upphitunabardagarnir kl 8:45!

Michael Bisping snýr aftur í búrið, 21 degi eftir að hafa tapað beltinu

Eins og flestir vita tapaði Bisping fyrir Georges St. Pierre á UFC 217 sem fór fram þann 4 nóvember. Bisping lýsti yfir áhuga á því að koma inn í stað Anderson Silva, sem féll á lyfjaprófi stuttu fyrir bardagann, og var Dana White kampakátur með ósk Bretans. Bisping hefur sagt að hann hafi átt erfiða daga eftir tapið gegn GSP og besta leiðin til að rífa sig upp eftir tap er að fara strax í búrið aftur. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig hann mun líta út svo skömmu eftir sinn síðasta bardaga.

Kelvin Gastelum fær að halda áfram á goðsagnatúrnum

Kelvin Gastelum lýsti því yfir fyrir ekki svo löngu að hann væri á svokölluðum „goðsagnaslátrunartúr“. Gastelum hefur verið duglegur að berjast gegn stórum nöfnum á borð við Tim Kennedy, Vitor Belfort og Johny Hendriks sem eru allir komnir yfir sitt besta. Í tvígang átti hann að berjast gegn Anderson Silva en í bæði skiptin þurfti Silva að draga sig úr bardaganum. Hér fær Gastelum tækifæri til að bæta enn einni rósinni í hnappagat sitt með sigri gegn andstæðingi sem var millivigtarmeistari fyrir mánuði síðan!
Það kemur svo í ljós hvort að þyngdarvandamálin hans muni halda áfram að stríða honum en hann var í smá brasi í vigtuninni í morgun.

Kínverska sníkjudýrið áfram á sigurbraut?

Li ‘The Leech’ Jingliang hefur komið skemmtilega á óvart í síðustu bardögum. Hann hefur unnið þrjá bardaga í röð, tvo með rothöggi en hans síðasti endaði á að vera besti bardagi kvöldsins. Jingliang er stærsta kínverska nafnið í UFC og er í næstsíðasta bardaga kvöldsins í heimalandinu. Það verður gaman að sjá hvort Jingliang haldi áfram á sömu braut en UFC vonast eflaust eftir að geta gert stóra asíska stjörnu úr Jingliang.

Reyndur sparkboxari

Muslim Salikhov mætir Alex Garcia á morgun en Salikhov er með hvorki meira né minna en 199 bardaga í sparkboxi. Í MMA er hann með 10 rothögg í 12 sigrum og verður áhugavert að sjá hvað hann gerir í frumraun sinni í UFC.

Zabit Magomedsharipov nafn til að fylgjast með?

Zabit Magomedsharipov stal senunni á bardagakvöldinu í Rotterdam í haust þar sem hann sigraði bardaga sinn á glæsilegan hátt og vakti nokkra athygli. Mark Henry, þjálfari hans og Frankie Edgar m.a., segir að hann gæti staðið í mönnum eins og Conor McGregor, Max Holloway og Jose Aldo. Það verður gaman að sjá hvernig Rússinn stendur sig en hann mætir Sheymon Moraes sem átti góðu gengi að fagna í WSOF hér áður fyrr.

Ekki gleyma

Kailin Curran er sennilega með einn versta feril í sögu UFC (1-5) en allir bardagar hennar hafa verið skemmtilegir og er hún með nokkur töp eftir umdeilda dómaraákvörðun. Hún mætir heimakonu á morgun og einfaldlega verður að vinna. Chase Sherman hefur verið nokkuð skemmtilegur að undanförnu en hann mætir Shamil Abdurakhimov í þungavigt.

Fyrsti bardaginn hefst kl 8:45 á íslenskum tíma en aðalhluti bardagakvöldsins byrjar kl 12:00.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular