Saturday, April 20, 2024
HomeErlentBen Askren kláraði Shinya Aoki á 57 sekúndum í kveðjubardaga sínum

Ben Askren kláraði Shinya Aoki á 57 sekúndum í kveðjubardaga sínum

Ben Askren var ekki lengi að klára kveðjubardaga sinn í gær. Það tók Askren aðeins 57 sekúndur að klára Shinya Aoki með höggum.

Bardaginn var aðalbardaginn í ONE Championship bardagakvöldinu í Singapúr. Kveðjubardagi Ben Askren hefði varla getað farið betur fyrir hann en það sama er ekki hægt að segja um Shinya Aoki. Aoki dró Askren með sér niður með „guard pull“ en Aoki hefur alltaf verið þekktur fyrir að vera einstaklega góður í uppgjafartökum. Hann átti þó ekki séns gegn frábæra glímumanninum Askren en nokkur stærðarmunur er á þeim.

Þegar í gólfið var komið valdi Askren höggin vel og lét þau svo dynja á Aoki. Aoki snéri sér undan og stöðvaði dómarinn bardagann eftir 57 sekúndur í 1. lotu.

Hinn 33 ára Askren tilkynnti fyrir bardagann að þetta yrði hans síðasti bardagi á ferlinum. Hann mun nú taka sér stjórnunarstöðu hjá ONE Championship og einbeita sér að þjálfun glímumanna. Askren var frábær glímumaður á sínum tíma og keppti á Ólympíuleikunum 2008 í frjálsri glímu.

Askren klárar ferilinn ósigraður með 18 sigra og einn bardaga dæmdan ógildan. Askren barðist lengst af í Bellator en þegar hann kláraði samninginn sinn þar ákvað hann að söðla um. Askren fékk samningsboð frá UFC sem þótti afar lágt og fór hann frekar til ONE Championship í Asíu þar sem hann hefur verið síðan.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular