Tuesday, July 16, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Cerrone vs. Till

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Cerrone vs. Till

Á laugardagskvöldið fer fram bardagakvöld í Póllandi. Það eru nokkrir góðir bardagar á dagskrá og þú getur horft á þá á kvöldmatartíma. Hér eru nokkrar ástæður til að koma sér vel fyrir og horfa á bardagana um helgina.

Þú getur horft á UFC á kristilegum tíma

Þar sem bardagakvöldið fer fram í Evrópu byrjar aðalhluti þess kl. 19. Það er mikill lúxus fyrir okkur Evrópubúana enda vanir að horfa á UFC um miðja nótt. Við getum því horft á UFC á besta tíma á morgun en það gerist alltof sjaldan!

Skemmtikrafturinn Donald Cerrone

Donald Cerrone er nánast undantekningalaust í skemmtilegum bardögum. Hann hefur hins vegar tapað tveimur síðustu, gegn fyrnarsterkum andstæðingum í Jorge Masvidal og Robbie Lawler, og mun mæta til leiks staðráðinn í að komast aftur á sigurbraut. Hann mætir Darren Till og er þetta algjör skyldusigur fyrir kúrekann en kannski sýnd veiði en ekki gefin. Við getum þó alltaf gert ráð fyrir að bardaginn verði skemmtilegur enda Cerrone aldrei í leiðinlegum bardögum.

Er Darren Till framtíðin?

Andstæðingur Cerrone, Darren Till, er eingöngu 24 ára, tiltölulega óþekktur og er ósigraður. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann unnið 15 bardaga og keppt í bardagaíþróttum frá 12 ára aldri. Hann hóf atvinnumannaferilinn í Muay Thai aðeins 15 ára gamall en bardaginn annað kvöld verður hans fyrsti sem aðalbardagi kvöldsins. Till hefur allt að vinna enda getur hann stokkið hátt upp metorðastigann með sigri á stóru nafni. Þetta er tækifæri sem hann vill ekki láta framhjá sér fara.

Áfram gakk Karolina

Karolina Kowalkiewicz byrjaði vel í UFC og vann fyrstu þrjá bardaga sína í UFC. Það skilaði henni titilbardaga og tapaði hún þar fyrir Joanna Jedrzejczyk. Hún tapaði svo síðast fyrir Claudiu Gadelha og fær hér kjörið tækifæri til að komast aftur á lappir eftir erfiða bardaga. Kowalkiewicz mætir nýliða og ætti að sigra á heimavelli.

Verður Marcin Held rekinn?

Það voru margir vongóðir þegar það var tilkynnt að BJJ undrið Marcin Held hefði fengið samning hjá UFC. 24 ára, yngsti svartbeltingur Póllands og hafði unnið sjö af seinustu átta bardögum sínum í Bellator (eina tapið í titilbardaga gegn þáverandi meistara Will Brooks). Nú hefur hann tapað þremur í röð og næsta víst að ósigur á laugardaginn mun verða til þess að heimamaðurinn fái uppsagnarbréf frá UFC. Held er eingöngu 25 ára og á framtíðina fyrir sér en vonandi tekst honum að halda sér í sterkustu bardagasamtökum heims.

Goðsagnarkennd vera lætur sjá sig

Artem Lobov er einn umtalaðasti bardagamaðurinn á samfélagsmiðlum og á Reddit meðal harðkjarna MMA aðdáenda. Hann er helst þekktastur fyrir að vera æfingafélagi Conor McGregor en hefur getið af sér gott orð sem ágætis bardagamaður sem eltir rothöggið frá fyrstu sekúndu. Lobov er að verða hálfgerð „cult“ hetja í MMA heiminum og mun bardagi hans gegn Andre Fili eflaust ekki valda vonbrigðum.

Ekki gleyma

Þó bardagakvöldið sé ekki hlaðið stórstjörnum má oft sjá ansi skemmtileg tilþrif á þessum minni kvöldum. Oskar Piechota er upprennandi pólskur bardagamaður sem klárað hefur alla níu sigra sína. Það gæti verið gaman að fylgjast með honum og þá má ekki gleyma að Warlley Alves mætir nýliða. Alves var eitt sinn vonarstjarna Brasilíu en hefur aðeins gleymst eftir tvö töp í röð. Hann er bara 26 ára og hefur nægan tíma til að rétta úr kútnum.

Fyrsti bardaginn hefst kl 15:45 en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 19 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.

Guttormur Árni Ársælsson
Guttormur Árni Ársælsson
-Pistlahöfundur -Fjólublátt belti í BJJ -Lýsi UFC á Viaplay þegar Pétur hefur eitthvað merkilegra að gera
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular