spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Lewis vs. Hunt

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Lewis vs. Hunt

Mark Hunt og Derrick Lewis mætast í kvöld á UFC bardagakvöldi á Nýja-Sjálandi. Það er lítið um stór nöfn á kvöldinu en hér eru nokkrar ástæður til að horfa á bardagana.

Þungar sleggjur

Þeir Mark Hunt og Derrick Lewis eru í aðalbardaga kvöldsins og er ólíklegt að þessi bardagi fari allar fimm loturnar. Lewis er með 16 rothögg í 18 sigrum og Hunt er með níu rothögg í 12 sigrum. Þetta ætti að verða mjög skemmtilegur bardagi þó hann verði ekki endilega sá tæknilegasti. Lewis er orðinn að algjöru skrímsli í þungavigtinni en Hunt verður hans erfiðasti andstæðingur til þessa. Lewis er með hrikalegan kraft en Hunt er tæknilega betri og sjálfur með ótrúlegan kraft í höndunum. Goðsagnarkennda hakan hans Hunt er farin að gefa sig og spurning hvort að Lewis nái að klára Hunt eins og hann hefur gert við svo marga andstæðinga sína.

Síðasti bardagi Ross Pearson í UFC?

Ross Pearson er heldur betur með bakið upp að vegg núna. Hann hefur tapað þremur bardögum í röð og verður að vinna ef hann ætlar að halda starfinu í UFC. Öll töpin hafa reyndar verið eftir dómaraákvörðun gegn nokkuð sterkum andstæðingum þannig að það er ekki eins og verið sé að klára Pearson aftur og aftur. Pearson mætir Dan Hooker en þetta verður hans 22. bardagi í UFC og spurning hvort þetta verði hans síðasti.

Fjör í fluguvigt

Tveir af þeim allra skemmtilegustu í fluguvigtinni mætast í kvöld. Tim Elliot tapaði fyrir Demetrious Johnson um titilinn í fyrra en átti ágætis gengi að fagna í bardaganum. Elliot er einn skemmtilegasti glímumaðurinn í UFC í dag og var bardagi hans gegn Louis Smolka afskaplega mikið fyrir augað enda mikið um stöðubreytingar í gólfinu. Þeir voru stöðugt á hreyfingu og aldrei kjurrir og vonandi verður það sama upp á teningnum í kvöld enda Ben Nguyen líka skemmtilegur glímumaður.

Spennandi nýliðar

Minni spámenn fá sviðsljósið í kvöld og eru þar nokkur ný nöfn sem vert er að fylgjast með. Ashkan Mokhtarian er 31 árs Ástralí sem berst sinn fyrsta bardaga í UFC í kvöld. Ashkan er 13-1 í MMA en þar af eru sex sigrar eftir rothögg og sex eftir uppgjafartök. Askhan mætir John Moraga í fluguvigtinni í kvöld en hann er kominn í ansi slæma stöðu eftir þrjú töp í röð.

Alexander Volkanovski kemur einnig frá Ástralíu en hann berst sinn annan bardaga í UFC í kvöld. Volkanovski er 14-1 á MMA ferlinum með níu rothögg en hann sigraði sinn fyrsta bardaga í UFC þegar hann rotaði Yusuke Kasuya í 2. lotu. Það verður gaman að sjá hvað hann getur gert gegn reynsluboltanum Mizuta Hirota í kvöld.

Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl 23 en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 2. Alla bardagana verður hægt að sjá á Fight Pass rás UFC.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular