Annað kvöld fer fram UFC bardagakvöld í Adelaide í Ástralíu. Bardagakvöldið er í sannleika sagt ekki hlaðið stórum nöfnum en þegar betur er að gáð leynast þarna nokkrir fínar bardagar.
- Heldur upprisa Miocic áfram? Í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Mark Hunt og Stipe Miocic. Miocic tapaði síðast fyrir Junior dos Santos í fimm lotu stríði. Þrátt fyrir tapið má segja að Miocic hafi sýnt að hann eigi heima meðal þeirra bestu í þungavigtinni. Miocic stóð vel í fyrrum meistaranum og gæti upprisa hans haldið áfram með sigri annað kvöld.
- Hefur Mark Hunt verið í leiðinlegum bardaga? Mark Hunt er gríðarlega vinsæll bardagamaður og ekki að ástæðulausu. Þegar ferill hans er skoðaður eru bardagarnir hans annað hvort fimm lotu stríð eða enda með rothöggi. Það er því sjaldgæf sjón að sjá Mark Hunt í leiðinlegum bardaga og eigum við ekki von á öðru en skemmtilegri rimmu milli Hunt og Miocic annað kvöld.
- Hversu góður getur Jake Matthews orðið? Hinn ástralski Jake Matthews er aðeins tvítugur að aldri og berst sinn þriðja bardaga í UFC annað kvöld. Hann hefur sigrað alla átta bardaga sína en aðeins einn af þeim hefur farið í dómaraákvörðun. Annað kvöld mætir hann James Vick en sá er einnig ósigraður. Annar hvor þeirra missir núllið á bardagaskorinu og verður gaman að sjá hvor það verður.
- Youtube stjarna þreytur frumraun sína: Ben Nguyen berst sinn fyrsta UFC bardaga annað kvöld. Nguyen berst í fluguvigt en hann vakti athygli á dögunum er gamalt myndband af honum fór eins og eldur um sinu um netheima. Í myndbandinu reyndi andstæðingur hans að ógna honum í vigtuninni en var svo rotaður af Nguyen snemma í bardaganum. Nguyen mætir Alptekin Özkılıç en bardaginn er fyrsti bardagi kvöldsins.
Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl 23:45 á Fight Pass en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 3 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.