Monday, May 27, 2024
HomeForsíða10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í maí 2015

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í maí 2015

MMA aðdáendur eru í sárum eftir hræðileg vonbrigði undanfarinna daga. Fyrst var Jon Jones sviptur titilnum og svo meiddist Khabib Nurmagomedov á hné. Við vonum bara að Cris Weidman og Cain Velasquez verði í bómull næstu vikurnar en erum samt við öllu búin.

Þrátt fyrir ofangreind áföll er maí mánuður mjög góður fyrir MMA aðdáendur. UFC er með fjögur kvöld en UFC 187 ber af sem langbesta bardagakvöld mánaðarins. Bellator er með eitt kvöld þar sem Brandon Halsey ver titil sinn í millivigt gegn Kendall Grove sem vann þriðju seríu af The Ultimate Fighter. ONE FC er með viðburð þar sem Shinya Aoki berst við Koji Ando í aðalbardaga kvöldsins. Invicta og WSOF eru ekki með bardagakvöld í maí. Vindum okkur í þetta.

benavidez moraga10. UFC 187, 23. maí – Joseph Benavidez gegn John Moraga (fluguvigt)

Joseph Benavidez er að upplifa það sama og æfingafélagi hans Urijah Faber. Hann vinnur alla nema meistarann. Hér mætir hann John Moraga sem er frábær bardagamaður en hefur tapað fyrir þeim bestu í þyngdarflokknum, þ.e. Demetrious Johnson og John Dodson.

Spá: Þessi bardagi ætti að fara eftir bókinni. Joseph Benavidez mun sigra með yfirburðum og biðja um þriðja tækifærið gegn „Mighty Mouse“.

mousasi-philippou19. UFC Fight Night 66, 16. maí – Gegard Mousasi gegn Costas Philippou (millivigt)

Getið þið trúað því að Gegard Mousasi sé 29 ára? Það er víst raunin þrátt fyrir 43 MMA bardaga á 12 árum (hann var samt orðinn 18 ára í fyrsta bardaganum). Mousasi virðist sigra alla nema þá allra bestu og ætti að ganga vel á móti Costas Philippou sem er mjög góður en takmarkaður.

Spá: Costas Philippou er seigur, hann mun standa í Gegard Mousasi sem mun taka yfirhöndina þegar líður á bardagann og sigra með hengingartaki í þriðju lotu.

cerrone makdessi8. UFC 187, 23. maí – Donald Cerrone gegn John Makdessi (léttvigt)

Það var skelfilegt að missa Khabib Nurmagomedv úr þessum bardaga en John Makdessi er talsvert betri en enginn. Hann hefur unnið fjóra af síðustu fimm bardögum sínum í UFC og leit hrikalega vel út á móti efnilegum nýliða í hans síðasta bardaga. Möguleikar hans gegn kúrekanum verða þó að teljast litlir en Donald Cerrone er búinn að sigra sjö bardaga í röð á móti erfiðari andstæðingum og hlýtur að fá að berjast um titil sigri hann hinn áttunda.

Spá: Donald Cerrone gerir það sem Donald Cerrone gerir. Kemur inn betri höggum og klárar bardagann á gólfinu með „triangle“ í annarri lotu.

Travis-Brown-Andrei-Arlovski7. UFC 187, 23. maí – Travis Browne gegn Andrei Arlovski (þungavigt)

Travis Browne var á rosalegri siglingu þar til hann lenti í Fabrício Werdum í fyrra. Hann kom sér aftur á sigurbrautina með fyrstu lotu rothöggi gegn Brendan Schaub í árslok en mætir hér fyrrverandi UFC meistara. Andrei Arlovski hefur snúið aftur af hörku eftir að hafa verið afskrifaður eftir fjögur töp í röð árið 2011. Eins og staðan er í dag hefur Andrei Arlovski sigrað fjóra bardaga í röð og getur potað sér mjög framarlega í röðina með sigri á Travis Browne.

Spá: Allt getur gerst í þungavigt en það er erfitt að spá á móti Travis Browne í þessum bardaga. Hann sigrar Andrei Arlovski á stigum, 29-28.

hunt miocic6. UFC Fight Night 65, 10. maí – Stipe Miocic gegn Mark Hunt (þungavigt)

Þessi bardagi fer fram núna á laugardaginn í Ástralíu. Báðir þessir kappar eru þekktir fyrir að vera í skemmtilegum bardögum svo okkur ætti ekki að leiðast. Það verður að teljast ólíklegt að Mark Hunt berjist aftur um titil en Stipe Miocic verður að vinna vilji hann halda í titilvonina eftir tapið gegn Junior dos Santos í desember.

Spá: Stipe Miocic er tæknilegri standandi og sterkari glímumaður. Hann verður fyrst og fremst að forðast bombur Mark Hunt. Tilfinningin er sú að honum muni takast það og sigra á tæknilegu rothöggi í fjórðu lotu í frábærum bardaga.

John-Dodson-Zach-Makovsky5. UFC 187, 23. maí – John Dodson gegn Zach Makovsky (fluguvigt)

John Dodson er nánast örugglega næsti andstæðingur Demetrius „Mighty Mouse“ Johnson….EF hann vinnur Zach Makovsky. Þetta er vafasöm staða, sérstaklega ef hann lítur framhjá hinum hættulega Pittsburgh búa. Zach Makovsky er ekki mjög þekktur en hann er með 24 bardaga á bakinu og hefur unnið þrjá af fjórum bardögum í UFC, nú síðast á móti Tim Elliot.

Spá: Zach Makovsky er sterkur glímumaður og mun þurfa að stjórna John Dodson til að sigra. Það er hins vegar hægara sagt en gert. John Dodson verst fellum eða sprettur fljótt upp og rotar Zach Makovsky með tilþrifum í þriðju lotu.

condit alves4. UFC Fight Night 67, 30 maí – Carlos Condit gegn Thiago Alves (veltivigt)

Loksins snýr Carlos Condit aftur! „The Natural Born Killer“ hefur ekki barist síðan hann meiddist á hné í miðjum bardaga gegn Tyron Woodley í mars í fyrra. Svona löng fjarvera er aldrei góð fyrir bardagamann svo spurningin er, verður hann jafn góður þegar hann snýr aftur? Hér mætir hann hinum skemmtilega Thiago Alves sem þarf varla að kynna. Báðir þessir kappar vilja helst standa í sparkboxbardaga en stílarnir eru mjög ólíkir. Carlos Condit er hættulegri á gólfinu og hefur því möguleikann að taka bardagann þangað ef illa gengur.

Spá: Carlos Condit er aðeins 31 árs þrátt fyrir langan feril. Hann ætti því að koma sterkur til baka. Eftir harða fyrstu lotu standandi nær Carlos Condit fellu og afgreiðir Thiago Alves með „rear naked choke“.

Edgar-Faber3. UFC Fight Night 66, 16. maí – Frankie Edgar gegn Urijah Faber (fjaðurvigt)

Þetta er draumabardagi sem hefur nánast ekki fengið neina umfjöllun. Hér mætast tveir af bestu MMA bardagamönnum allra tíma í léttari þyndgarflokkunum. Báðir hafa verið meistarar og öll töp beggja, með einni undantekningu, hafa verið í titilbardaga. Hér mætist mikil reynsla og hæfileikar og sigurvegarinn er líklegur til að skora á meistara í næsta bardaga. Sennilega færi sá titilbardagi fram í fjaðurvigt í báðum tilvikum þar sem Urijah Faber vill ekki berjast við T.J. Dillashaw. Það eina sem getur stoppað þessi áform er sigur Conor McGregor á José Aldo sem myndi líklega þýða „rematch“.

Spá: Urijah Faber er grjótharður en Frankie Edgar verður skrefi framar allan bardagann. Hann er hraðari á fótum, tæknilegri boxari og mögulega betri glímumaður. Frankie Edgar sigrar á stigum.

dc aj2. UFC 187, 23. maí – Daniel Cormier gegn Anthony Johnson (léttþungavigt)

Það var leiðinlegt að missa Jon Jones en þessi bardagi er mjög góð sárabót. Hér mætist gríðarsterkur glímustíll Daniel Cormier og rosaleg felluvörn Anthony Johnson. Báðir hafa keppt í þungavigt og báðir geta slegið en Anthony Johnson ætti að vera með hraðari og þyngri hendur. Stóra spurningin er, getur Daniel Cormier náð Anthony Johnson niður? Ef honum gengur ekki betur en Phil Davis í fellunum er ekki ólíklegt að Anthony Johnson verði næsti UFC meistarinn í léttþungavigt. Báðir þessir menn eiga langan MMA feril að baki og UFC titill er langþráður draumur beggja sem gerir bardagann þeim mun dramatískari. Ekki síst af því að þeir fá sennilega ekki annað tækifæri.

Spá: Þetta verð mikil átök og mögulega nokkuð jafn bardagi. Það verður hins vegar glímustyrkur Daniel Cormier sem mun tryggja honum sigur á stigum.

Chris-Weidman-vs-Vitor-Belfort1. UFC 187, 23. maí – Chris Weidman gegn Vitor Belfort (millivigt)

Þegar þetta er skrifað er Chris Weidman ennþá heill og Vitor Belfort hefur ekki fallið á lyfjaprófi (knock on wood). Þessi bardagi hefur næstum alveg gleymst í Jon Jones hneykslinu en það er kominn til að hleypa upp spenningnum. Chris Weidman hefur litið frábærlega upp á síðkastið og flestir hefðu gaman af því að sjá hann kenna Vitor Belfort lexíu. Á sama tíma hefur hinn 38 ára Vitor Belfort litið út eins og skrímsli. Í síðustu þremur bardögum hefur hann rotað Michael Bisping, Luke Rockhold og Dan Henderson. Það er ótrúlegt afrek en flesta grunar að annar Vitor Belfot mæti til leiks í maí þar sem búið er að banna TRT lyfjameðferðina, sjá nánar hér. Vitor Belfort getur samt rotað hvern sem er með rétta högginu sem gerir þennan bardaga mjög áhugaverðan.

Spá: Þessi verður spennandi en við spáum því að Chris Weidman fari illa með Vitor Belfort og afgreiði hann með uppgjafartaki í annarri lotu.

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular