Annað kvöld fer fram UFC Fight Night 113 þar sem Gunnar Nelson mætir Argentínumanninum Santiago Ponzinibbio. Það er í sjálfu sér næg ástæða til þess að láta þetta ekki fram hjá sér fara en ef þig vantar nokkar í viðbót koma þær hér.
Íslandsvinurinn Joanne Calderwood stígur aftur í búrið
Jojo Calderwood mætir Cynthiu Calvillo í næstsíðasta bardaga kvöldsins. Jojo hefur verið við æfingar í Mjölni ásamt Sunnu Rannveigu undanfarið og mun leitast eftir því að klífa upp styrkleikalistann í strávigtinni með sigri gegn Calvillo. Jojo er sem stendur í 7. sæti listans en Calvillo er númer 14. Það segir þó ekki alla söguna þar sem Calvillo er ósigruð á atvinnumannaferlinum og hörku áskorun fyrir hvern sem er í þyngdarflokknum. Jojo náði ekki tilskildri þyngd fyrr í dag, var tvemur pundum yfir, og Calvillo fær því 20% af launum hennar.
Paul Felder
Fyrir þá sem hafa ekki séð Paul Felder berjast er nauðsynlegt að horfa á bardagana annað kvöld (og reyndar líka fyrir þá sem hafa séð hann berjast). Bardagastíl hans mætti lýsa sem martröð Diaz bræðrana: ekkert nema einhverjir snúningar eða það sem þeir myndu titla „spinning shit“. Hann rotaði Danny Castillo með einum slíkum og er nánast bara í skemmtilegum bardögum. Í síðasta bardaga sínum fékk hann bónus fyrir bestu frammistöðu kvöldsins þegar hann rotaði Alessandro Ricci í fyrstu lotu. Það var í þriðja sinn sem hann fær frammistöðubónus í UFC. Felder mætir Skotanum Stevie Ray og ætti þetta að verða geggjaður bardagi.
Tveir rotarar mætast í þungavigtinni
Það er oftast góð skemmtun að horfa á stóru strákana. James Mulheron er breskur og hefur unnið sjö af 11 bardögum sínum með tæknilegu rothöggi. Hann mætir Bandaríkjamanninum Justin Willis sem er með þrjá af fjórum sigrum eftir tæknilegt rothögg. Samanlagt eru þeir því með 10 tæknileg rothögg á milli sín í aðeins fimmtán bardögum og það verður að teljast ólíklegt að þessi bardagi fari alla leið í dómarákvörðun.
Hardy mælir með
Einn af bardögunum sem Dan Hardy mælti með í viðtalinu við okkur er bardagi Danny Henry og Daniel Teymur. Hardy telur að þetta verði einn af bestu bardögum kvöldsins og segir að þeir hafi möguleika á að verða meðal topp 10 innan 18 mánaða. Af tíu sigrum Henry hefur aðeins einn farið allar loturnar en Teymur (sem er yngri bróðir David Teymur er berst í léttvigt UFC) hefur klárað alla sex bardaga sína.
Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl 16 á íslenskum tíma en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 19 á Stöð 2 Sport.
Við minnum svo á Invicta FC 24 sem fer fram í kvöld en þar keppir okkar kona Sunna Rannveig sinn þriðja bardaga í samtökunum. Kvöldið er sýnt í beinni á Stöð 2 Sport og útsending hefst á miðnætti.