spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Werdum vs. Tybura

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Werdum vs. Tybura

UFC er með bardagakvöld í Sydney í Ástralíu í kvöld. Hér kíkjum við á það markverðasta sem er á dagskrá á kvöldinu.

Bardagakvöldið fer fram um miðja nótt hér á landi en hefst á sunnudagsmorgni á staðartíma. Upphaflega átti Mark Hunt að vera í aðalbardaga kvöldsins en UFC fjarlægði hann úr bardaganum vegna vafasamra lýsinga Hunt á heilsufari sínu.

Werdum að nálgast annan titilbardaga?

Í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Marcin Tybura og Fabricio Werdum. Hinn fertugi Werdum barðist í síðasta mánuði þegar hann sigraði Walt Harris á rúmri mínútu á UFC 216. Werdum hefur verið að eltast við titilbardaga síðan hann tapaði beltinu til Stipe Miocic en það hefur gengið erfiðlega. Stórir bardagar hafa fallið niður (gegn Cain Velasquez, Ben Rothwell og Derrick Lewis) og er hann að renna út á tíma. Werdum tapaði fyrir Overeem í sumar eftir klofna dómaraákvörðun og þarf hann helst að klára Tybura sannfærandi til að koma sér almennilega í umræðuna um endurat gegn meistaranum Stipe Miocic. Sigurvegarinn á milli Alistair Overeem og Francis Ngannou verður þó sennilega á undan honum í röðinni.

Tybura fær að sama skapi risa tækifæri til að koma sér í titilbaráttuna. Þessi 32 ára Pólverji hefur unnið þrjá bardaga í röð og nú síðast Andrei Arlovski. Sigur á Werdum væri hans stærsti sigur á ferlinum og er því til mikils að vinna fyrir báða.

Stríð í veltivigt

Bardagi Tim Means og Belal Muhammad er ansi líklegur til að vera valinn bardagi kvöldsins. Báðir bardagamenn eru þekktir fyrir að vera ansi harðir og vilja skiptast á höggum. Means er með 18 sigra að baki eftir rothögg og ætlar sér eflaust að ná í sinn 19. í kvöld.

Will Brooks að rétta úr kútnum?

Fyrrum léttvigtarmeistari Bellator, Will Brooks, hefur einfaldlega valdið vonbrigðum síðan hann kom í UFC. Hann er aðeins með einn sigur í UFC en tvö töp og hefur verið kláraður tvisvar sinnum í röð. Hann mætir Nik Lentz í kvöld en þeir Brooks og Lentz áttu að mætast á UFC 216 í október. Lentz var aftur á móti í erfiðleikum með niðurskurðinn og gat ekki keppt. Bardagnum var því frestað um nokkrar vikur og mætast þeir nú í kvöld. Brooks verður einfaldlega að gera betur gegn Lentz en hann hefur sýnt hingað til í UFC.

Efni í þungavigtinni?

Hinn 24 ára Tai Tuivasa berst sinn fyrsta bardaga í UFC á morgun. Tuivasa er Ástrali og verður því á heimavelli. Hann er bara 5-0 í MMA og er eflaust ansi hrár en er aftur á móti með fimm rothögg í jafn mörgum bardögum – allt í fyrstu lotu. Þess má geta að Tuivasa er með sjö bardaga að baki (5-2) sem atvinnumaður í hnefaleikum. UFC hefur verið að semja snemma við bardagamenn í þungavigt og mun það koma í ljós í kvöld hversu tilbúinn Tuivasa er fyrir UFC. Tuivasa mætir Rashad Coulter og er bara nokkuð líklegt að við fáum rothögg í þessum bardaga.

Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl 23:30 en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 3 aðfaranótt sunnudags.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular