UFC er með ansi gott bardagakvöld á Long Island í New York á morgun. Chris Weidman mætir Kelvin Gastelum í gríðarlega mikilvægum bardaga en hér eru nokkrar ástæður til að horfa á bardagana annað kvöld.
Chris Weidman með bakið upp við vegg
Chris Weidman hefur svo sannarlega átt betri daga. Weidman var millivigtarmeistari UFC en hefur nú tapað þremur bardögum í röð. Hann mætir Kelvin Gastelum í aðalbardaga kvöldsins á morgun og hreinlega verður að vinna. Gastelum hefur verið á góðu skriði undanfarið og ætti þetta að verða jafn og spennandi bardagi. Gastelum er talinn sigurstranglegri hjá veðbönkum en það hefði þótt fráleitt fyrir ári síðan. Tapar Weidman sínum fjórða bardaga í röð?
Tveir grjótharðir
Darren Elkins er svona eins og Rocky MMA heimsins. Hann virðist geta tekið ógrynni högga en getur alltaf komið til baka og snúið taflinu sér í vil. Elkins hefur unnið fjóra bardaga í röð núna en síðasti sigur hans var magnaður. Eftir að hafa tapað fyrstu tveimur lotunum gegn Mirsad Bektic tókst honum að koma til baka og klára Bektic í 3. lotu. Fyrstu tvær loturnar voru mjög einhliða en Elkins íhugaði aldrei að gefast upp.
Elkins mætir Dennis Bermudez og er hann líka gríðarlega harður af sér. Þarna mætast stálin stinn og ætti þetta að verða hrikalega skemmtilegur bardagi.
Thomas Almeida
Thomas Almeida er 5-1 í UFC en allir bardagar hans nema einn hafa endað með rothöggi. Hans eina tap kom gegn Cody Garbrandt sem er núna ríkjandi meistari í bantamvigtinni. Almeida er aðeins 25 ára gamall og gæti komist sjálfur í titilbardaga í framtíðinni. Hann mætir Jimmie Rivera í kvöld sem lætur lítið fyrir sér fara en er samt með glæsilegt bardagaskor, 20-1. Hann hefur unnið alla fjóra bardaga sína í UFC en síðast sáum við hann vinn Urijah Faber og skipar nú 4. sæti á styrkleikalistanum í bantamvigtinni. Þetta ætti að verða hörku bardagi sem enginn má láta framhjá sér fara.
Flottur bardagi í veltivigtinni
Þeir Ryan LaFlare og Alex ‘Cowboy’ Oliveira mætast í einum af upphitunarbardögum kvöldsins. LaFlare er 6-1 í UFC en berst of sjaldan til að vera einhver sem skiptir máli í veltivigtinni. Auk þess hafa allir sigrar hans komið eftir dómaraákvörðun og er hann því ekki sá mest spennandi. Oliveira er að koma til baka eftir góðan sigur á Tim Means og gæti komist á topp 15 með sigri á LaFlare.
Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl 20 á íslenskum tíma en aðalhluti bardagakvöldsins hefst á miðnætti og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.