Við höldum áfram þeirri hefð að kynna nýja UFC meistara. Fyrir nokkrum dögum á UFC 198 var það þungvigtin sem umturnaðist enn einu sinni er nýlegur meistari féll í valinn fyrir áskoranda. Einhvers konar bölvun virðst ríkja á titlinum í þungavigt en engum meistara hefur tekist að verja beltið oftar en tvisvar.
Stipe Miocic er 33 ára en þykir ungur í samanburði við gömlu kynslóðina í þungavigt UFC. Hann hefur barist sem atvinnumaður í MMA síðan árið 2010 og var kominn í UFC aðeins einu og hálfu ári síðar. Miocic er fæddur og uppalinn í Bandaríkjunum en á ættir að rekja til Króatíu. Á hans yngri árum þótti hann efnilegur hafnaboltaleikmaður en stundaði einnig glímu í háskóla í Ohio fylki auk þess að keppa í áhugamanna hnefaleikum.
Í júní árið 2011 hóf Stipe Miocic ferill sinn í UFC og mætti fyrst Joey Beltran sem var minni maður en talsvert reynslumeiri í búrinu. Miocic sigraði örugglega á stigum og sýndi í þeim bardaga tæknilega yfirburði standandi. Í hans næstu tveimur bardögum kom höggþunginn hins vegar skýrt í ljós þegar hann rotaði bæði Philip De Fries og Shane del Rosario. Miocic var orðinn sjóðheitur og fékk stærri bardaga.
UFC bardagakvöldið í Nottingham þann 29. september árið 2012 ætti að vera íslenskum MMA aðdáendum ferskt í minni en það kvöld barðist Gunnar Nelson sinn fyrsta bardaga í UFC. Aðalbardagi kvöldsins var viðureign tveggja nýstirna í þungavigt, Stefan Struve og Stipe Miocic. Bardaginn var æsispennandi og var valinn besti bardagi kvöldsins en þegar upp var staðið var það Struve sem rotaði Miocic í annarri lotu og hægði á upprisu hans í þyngdarflokknum.
Eftir bardagann við Struve sigraði Miocic þrjá andstæðinga í röð á sannfærandi hátt. Hann útboxaði Roy Nelson og Gabriel Gonzaga og gjörsamlega slátraði Fabio Maldonado sem leysti Junior dos Santos af með skömmum fyrirvara. Í árslok 2014 mættust svo Miocic og dos Santos í epískum fimm lotu bardaga sem var jafn og spennandi en dos Santos sigraði að lokum á stigum
Lífið hélt áfram og eftir tvo eftirminnilega sigra gegn Mark Hunt og Andrei Arlovski fékk Miocic tækifæri lífs síns gegn Fabricio Werdum í Brasilíu. Miocic nýtti sér árásargirni Werdum og steinrotaði hann í fyrstu lotu og hirti beltið.
Ferill Miocic hefur verið eins og lítil rússíbanareið með frábærum sigrum og lærdómsríkum töpum. Spurningin nú er hvort hann geti rofið bölvunina sem virðist hvíla á beltinu í þungavigt. Næsta verkefni virðist ætla að verða Alistair Overeem sem ætti að verða áhugaverður bardagi. Verður Overeem næsti nýji meistari sem við kynnum til sögunnar í þungavigt?