Thursday, April 25, 2024
HomeErlentNýr meistari: Stipe Miocic

Nýr meistari: Stipe Miocic

Stipe-Miocic-belt

Við höldum áfram þeirri hefð að kynna nýja UFC meistara. Fyrir nokkrum dögum á UFC 198 var það þungvigtin sem umturnaðist enn einu sinni er nýlegur meistari féll í valinn fyrir áskoranda. Einhvers konar bölvun virðst ríkja á titlinum í þungavigt en engum meistara hefur tekist að verja beltið oftar en tvisvar.

Stipe Miocic er 33 ára en þykir ungur í samanburði við gömlu kynslóðina í þungavigt UFC. Hann hefur barist sem atvinnumaður í MMA síðan árið 2010 og var kominn í UFC aðeins einu og hálfu ári síðar. Miocic er fæddur og uppalinn í Bandaríkjunum en á ættir að rekja til Króatíu. Á hans yngri árum þótti hann efnilegur hafnaboltaleikmaður en stundaði einnig glímu í háskóla í Ohio fylki auk þess að keppa í áhugamanna hnefaleikum.

Í júní árið 2011 hóf Stipe Miocic ferill sinn í UFC og mætti fyrst Joey Beltran sem var minni maður en talsvert reynslumeiri í búrinu. Miocic sigraði örugglega á stigum og sýndi í þeim bardaga tæknilega yfirburði standandi. Í hans næstu tveimur bardögum kom höggþunginn hins vegar skýrt í ljós þegar hann rotaði bæði Philip De Fries og Shane del Rosario. Miocic var orðinn sjóðheitur og fékk stærri bardaga.

miocic beltran

Stipe Miocic Philip De Fries

UFC bardagakvöldið í Nottingham þann 29. september árið 2012 ætti að vera íslenskum MMA aðdáendum ferskt í minni en það kvöld barðist Gunnar Nelson sinn fyrsta bardaga í UFC. Aðalbardagi kvöldsins var viðureign tveggja nýstirna í þungavigt, Stefan Struve og Stipe Miocic. Bardaginn var æsispennandi og var valinn besti bardagi kvöldsins en þegar upp var staðið var það Struve sem rotaði Miocic í annarri lotu og hægði á upprisu hans í þyngdarflokknum.

stipe struve

Eftir bardagann við Struve sigraði Miocic þrjá andstæðinga í röð á sannfærandi hátt. Hann útboxaði Roy Nelson og Gabriel Gonzaga og gjörsamlega slátraði Fabio Maldonado sem leysti Junior dos Santos af með skömmum fyrirvara. Í árslok 2014 mættust svo Miocic og dos Santos í epískum fimm lotu bardaga sem var jafn og spennandi en dos Santos sigraði að lokum á stigum

Lífið hélt áfram og eftir tvo eftirminnilega sigra gegn Mark Hunt og Andrei Arlovski fékk Miocic tækifæri lífs síns gegn Fabricio Werdum í Brasilíu. Miocic nýtti sér árásargirni Werdum og steinrotaði hann í fyrstu lotu og hirti beltið.

Stipe Miocic gegn Mark Hunt

Ferill Miocic hefur verið eins og lítil rússíbanareið með frábærum sigrum og lærdómsríkum töpum. Spurningin nú er hvort hann geti rofið bölvunina sem virðist hvíla á beltinu í þungavigt. Næsta verkefni virðist ætla að verða Alistair Overeem sem ætti að verða áhugaverður bardagi. Verður Overeem næsti nýji meistari sem við kynnum til sögunnar í þungavigt?

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular