1

Nýtt fyrirkomulag The Ultimate Fighter

att vs blackziliansUFC kynnti um helgina nýtt fyrirkomulag af raunveruleikaþættinum The Ultimate Fighter. 21. sería mun hefjast þann 22. apríl en að þessu sinni verða ekki tveir þjálfarar að keppa gegn hvor öðrum heldur munu Flórída-liðin American Top Team og Blackzilians keppa gegn hvort öðru.

Þetta mun því brjóta upp tíu ára hefðina þar sem tveir þekktir bardagakappar taka að sér hlutverk þjálfara og berjast svo í lok seríunnar. Þess í stað verða forsprakkar félaganna þeir Dan Lambert, American Top Team (ATT), og Glenn Robinson, Blackzillians, í sviðsljósinu. Þessir tveir hafa verið að þræta í mörg ár og má því búast við drama frá þeim. Keppnin mun verða milli átta bestu veltivigtarkappa félaganna.

Þátttakendurnir 16 munu búa saman í húsi í Flórída en ólíkt fyrri seríum munu keppendur ekki deila æfingarhúsnæði og æfa þess í stað í eigin félagi. Bardagarnir fara fram í húsnæði ATT eða Blackzilians þar sem sigurliðið heldur heimavelli.

Það er ekkert leyndarmál að mikill rígur hefur verið á milli þessara félaga í gegnum árin. Blackzillians var stofnað af fjórum fyrrum meðlimum American Top Team sem yfirgáfu félagið til að stofna Blackzilians í aðeins tuttugu mínútna fjarlægð frá ATT.

Bæði félögin eru stútfull af hæfileikaríkum þjálfurum og bardagaköppum.

Liborio_pic

Ricardo Liborio.

Ricardo Liborio er yfirþjálfari og einn af stofnendum American Top Team. Hann hefur unnið til stórra afreka í brasilísku jiu-jitsu og sigraði til að mynda „Mundials“ (eitt af heimsmeistaramótunum í BJJ) árið 1996. Hjá ATT þjálfar hann suma af bestu bardagamönnum heims á borð við veltivigtarmeistarann Robbie Lawler, Hector Lombard, Thiago Alves, Yoel Romero og fleiri. Það má því búast við að sjá þessa kappa veita hjálparhönd í þjálfun keppendanna. Aðrir þjálfarar eru Mike Brown (fyrrum WEC fjaðurvigtarmeistari) og Conan Silveira.

Blackzillians eru ekkert slakari og meðal þekktra bardagamanna sem æfa þar eru Anthony Johnson, Vitor Belfort, Michael Johnson og Rashad Evans. Þjálfararnir þar eru ekki af lakari kantinum en þar á meðal er Henri Hooft (einn besti sparkbox þjálfari heims um þessar mundir), Jorge Santiago (BJJ þjálfari en hann er margreyndur MMA kappi og verið svart belti í yfir 10 ár) og Greg Jones (glímuþjálfari en hann er einn besti glímumaðurinn í sögu háskólaglímunnar).

Undanfarin ár hefur áhorf á TUF farið minnkandi og hefur UFC reynt að krydda upp í formúlunni til að auka áhorf. Þetta verður því kærkomin nýjung í seríuna og verður gaman að sjá hvernig þessi tilraun þeirra tekst.

Pétur Marinó Jónsson

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay

One Comment

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.