Tuesday, September 17, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentOg hvað er þá næst eftir UFC 256?

Og hvað er þá næst eftir UFC 256?

Nú þegar flestir hafa fengið tækifæri á að melta niðurstöður UFC 256 er ekki hægt að staldra lengi við heldur þarf að fara að huga að því hvað sé næst á dagskrá í UFC.

Nú verður sett sig í spor þeirra sem setja saman bardaga fyrir UFC. Frammistöður nokkra bardagamanna á UFC 256 verða skoðaðar og í framhaldinu reynt að fá góða hugmynd um hvað eðlilegt þykir að næsti bardagi þeirra yrði. Í lokin verður einnig varpað fram nokkrum pörunum fyrir bardagamenn sem börðust á kvöldinu en enginn sérstakur rökstuðningur gefin fyrir valinu.

Deiveson Figueiredo og Brandon Moreno

Það þarf nú ekki að eyða mörgum orðum í það hvað er næst fyrir Figueiredo og Moreno eftir þetta fimm lotu stríð sem endaði með jafntefli. Viðureign þeirra kappa gerir sterklega tilkall til þess að vera kosinn bardagi ársins. Mjög auðvelt er að fullyrða að það sem alla vantar í líf sitt er að sjá endurat þeirra tveggja einhvern tímann á næsta ári. Það væri gaman að sjá þá mætast í bardaga þar sem þeir hafa báðir fengið meira en þrjár vikur til þess að undirbúa sig. Það má til gamans geta að einhverjir veðbankar hafa nú þegar gefið út stuðla á enduratið og telja veðbankar Figueiredo mun sigurstranglegri.

Charles Oliveira

Eftir frammistöðu sína gegn Tony Ferguson sannaði Oliveira heldur betur tilverurétt sinn sem einn af aðal keppinautunum í léttvigtinni. Oliveira, sem hefur verið í UFC í um það bil áratug, er nú á átta bardaga sigurgöngu og núna loksins er hann á milli tannanna á fólki þegar rætt er um hverjir skulu etja kappi um léttvigtarbeltið. Það sem Oliveira vantaði hve helst voru sigrar á þekktum nöfnum í bransanum en nú hefur kappinn hakað í það box með tveimur sigrum í röð á Kevin Lee og Ferguson.

Þó að Oliveira sé sjóðandi heitur akkúrat eins og staðan er núna þykir samt líklegt að hann verði að sýna þolinmæði. Léttvigtin er í skringilegri pattstöðu með meistara í Khabib Nurmagamedov sem er opinberlega hættur í sportinu en rígheldur samt sem áður í beltið. Þar af leiðandi þarf Oliveira að sjá hvernig næstu bardagar í léttvigtinni þróast svo hægt sé að benda á hans næsta andstæðing. Sigurvegarar úr tveimur viðureignum koma til greina en það er sigurvegarinn úr bardaga Conor McGregor og Dustin Poirier annars vegar og sigurvegarinn úr viðureign Justin Gaethje og Michael Chandler. En þar sem ekkert er staðfest í síðarnefnda bardaganum og hann ennþá bara grufl og vangaveltur liggur í augum uppi að Charles Oliveira mæti sigurvegara úr viðureign þeirra Conor McGregor og Dustin Poirier.

Tony Ferguson

Fyrir bardagann gegn Charles Oliveira var öll pressa heimsins á herðum Tony. Hvort sem það var pressan eða útreiðin sem hann fékk gegn Justin Gaethje eða hvað sem það var þá komst Tony aldrei almennilega á skrið og fann hann sig oft á tíðum í nauðvörn í bardaganum. Er þá ekkert tekið frá frammistöðu Oliveira sem var nánast óaðfinnanleg. Dana White sagði eftir bardagann að hugsanlega væri Tony ekki sami bardagamaður og hann eitt sinn var og að hans bestu dagar væru að baki. Það væri samt glapræði að ætla að fara afskrifa ‘El Cucuy’ núna. Hann er ennþá topp fimm bardagamaður í sínum þyngdarflokki og ekki annað hægt en að veita honum heimild fyrir einni loka atrennu að titlinum. Hægt væri að réttlæta að Tony myndi mæta þeim sem verður undir í viðureign Conor og Dustin. En til að Tony komist aftur á skrið þarf hann andstæðing sem er til í að bjóða honum upp í dans og því væri áhugavert að sjá hann mæta Dan Hooker. Þar væru tveir áhugaverðir bardagastílar settir saman inn í búr og hurðinni lokað. Útkoman yrði alltaf flugeldasýning.

Kevin Holland

Rothöggið sem Kevin Holland veitti Jacare Souza var eitthvað sem maður sér ekki á hverjum degi. Það var eins og Holland skeytti ósköp lítið um þá staðreynd að hann lægi á gólfinu með jiu-jitsu heimsmeistara svartbelting ofan á sér heldur tók hann bara málin í sínar hendur – bókstaflega. Holland er búinn að vera sjóðandi heitur undanfarið en fyrsta bardaga sinn á árinu vann hann með tæknilegu rothöggi gegn Anthony Hernandez þann 16. maí og síðan þá hefur hann unnið fjóra bardaga til viðbótar. Eftir bardagann gegn Souza sagði kappinn í viðtali við Joe Rogan að hann væri klár í að slást næstu helgi gegn Khamzat Chimaev og þó að tilhugsunin sé skemmtileg þá er það ekki að fara að gerast. Holland hefur komið inn sem ferskur blær í millivigtina og hefur úr nógu að velja. Það væri gaman að sjá Holland mæta Derek Brunson sem er sjálfur á þriggja bardaga sigurgöngu eftir að hafa lækkað rostann í Edmen Shahbazyan fyrr á þessu ári.

Ciryl Gane

Gane fékk sinn stærsta bardaga á ferlinum gegn Junior dos Santos eftir að hafa þurft að sitja á hliðarlínunni í næstum því heilt ár og stóðst kappinn prófið án engra vandkvæða. Fyrir bardagann var dos Santos í 7. sæti styrkleikalistans í þungavigtinni og líklegt þykir að Gane taki af honum sætið næst þegar listinn verður uppfærður. Nú hefur kappinn unnið sjö bardaga og engum tapað sem atvinnumaður og er Gane orðið nafn sem aðrir þungavigtarmenn þurfa að fara að leggja á minnið.

Gane tætti dos Santos í sundur með lágspörkum og kláraði svo dæmið með olnbogum og höggum. Að dos Santos undanskildum vantar Gane enn stór nöfn á ferilskránna og því væri áhugavert að sjá hann mæta Jairzinho Rozenstruik sem einnig stoppaði dos Santos í sínum síðasta bardaga. Hugsanlega er Rozenstruik of stórt stökk en þegar menn hafa unnið fjóra bardaga í röð í þungavigt er kominn tími á stóru strákana. Rozenstruik er einn af fáum á topp 10 í þungavigtinni sem ekki á bókaðan andstæðing og því væri gaman að sjá þá leiða saman hesta sína.

Mackenzie Dern

Dern sigraði Virna Jandiroba eftir einróma dómarákvörðun og stöðvaði þar með tveggja bardaga sigurgöngu Jandiroba. Nú er Dern sjálf á þriggja bardaga sigurgöngu síðan hún tapaði gegn Amanda Ribas í október í fyrra. Árið 2020 hefur verið frábært fyrir Dern og eru henni allir vegir færir á næsta ári haldi hún uppi viðteknum hætti. Fyrir bardagann gegn Jandiroba sat Dern í 11. sæti styrkleikalistans í flugvigtinni og þokast hún að öllum líkindum eitthvað ofar eftir sigurinn. Næst væri gaman að sjá hana mæta Claudia Gadelha sem situr nú í 6. sætinu.

Junior dos Santos

Junior dos Santos hefur ekki átt sjö dagana sæla að undanförnu í UFC. Honum til varnar hefur hann verið að mæta hraustum, hungruðum og höggþungum mönnum í þungavigtinni og þarf kannski á tilbreytingu að halda. Því væri gaman að sjá dos Santos mæta Anton Korobov sem lenti í 38. sæti á Evrópumeistaramóti áhugamanna í skák árið 2018. Því dos Santos á að vera að gera eitthvað ALLT ANNAÐ en að slást í UFC, til dæmis tefla við fyrr nefndan Korobov. Þetta er löngu komið gott og hreint út sagt átakanlegt að horfa upp á þetta. Tími til kominn að goðsögnin leggi hanskana á hilluna.

Aðrar áhugaverðar viðureignir í framhaldi af UFC 256.

Chase Hooper gegn Darrick Minner
Virna Jandiroba gegn Livia Renata Souza
Ronaldo Jacaré Souza gegn Eryk Anders eða Anton Korobov
Daniel Pineda gegn Darren Elkins
Rafael Fiziev gegn Paul Felder

spot_img
spot_img
Sjonni
Sjonnihttps://www.mmafrettir.is
-Bardagaáhugamaður -Fjólublátt belti í BJJ -Stjórnamaður í Mjölni -Tölvunarfræðingur
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular