Ómar Yamak náði frábærum árangri á Evrópumeistaramótinu í brasilísku jiu-jitsu sem fram fer í Lissabon um þessar mundir. Ómar hafnaði í 3. sæti í sínum flokki eftir erfiðar glímur.
Kristján Helgi Hafliðason, Inga Birna Ársælsdóttir og Ómar Yamak, öll úr Mjölni, kepptu á Evrópumeistaramótinu í ár. Kristján Helgi og Inga Birna kepptu fyrr í vikunni þar sem Kristján komst í 8-manna úrslit en Inga datt út í 1. umferð. Ómar keppti svo í dag í -70 kg flokki brúnbeltinga.
Ómar Yamak vann fyrstu glímuna sína með Bow and Arrow hengingu. Næstu tvær glímur vann hann á stigum og var hann því kominn í undanúrslit. Í undanúrslitum mætti hann Richar Emiliano Nogueira þar sem hann tapaði á stigum í mjög jafnri glímu. Ómar kemur því heim með bronsið frá mótinu en þetta er stærsta glímumót heims með yfir 4000 keppendum. Nogueira tók svo gullið í flokknum hans Ómars.
Glæsilegur árangur hjá Ómari á þessu sterka móti.