spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentÓtrúleg þrautseigja Frankie Edgar

Ótrúleg þrautseigja Frankie Edgar

UFC 240 fer fram á laugardaginn þar sem reynsluboltinn Frankie Edgar mætir Max Holloway. Edgar er orðinn 37 ára gamall og er hann enn með sama drauminn um að verða aftur UFC meistari.

Rúm 12 ár eru síðan Frankie Edgar barðist fyrst í UFC. Þá mætti hann Tyson Griffin á UFC 67. Sama kvöld börðust þeir Mirko ‘CroCop’ og Lyoto Machida sína fyrstu bardaga í UFC og Anderson Silva var í aðalbardaga kvöldsins. Edgar sigraði Griffin en bardaginn var valinn besti bardagi kvöldsins.

Síðan þá hefur hann eytt sex klukkustundum og 35 mínútum í búrinu (lengur en nokkur annar í UFC), orðið léttvigtarmeistari, farið niður í fjaðurvigt, fengið nokkra titilbardaga þar og fær níunda titilbardaga sinn í UFC á morgun.

Upprisa hans var nokkuð óvænt í UFC og voru ekki margir sem gáfu honum mikla möguleika fyrir titilbardaga hans gegn B.J. Penn á UFC 112. Edgar náði mjög óvænt að sigra Penn en ekki voru allir sammála dómaraákvörðuninni. Edgar útilokaði síðan allan vafa í seinni bardaganum og náði öruggum sigri gegn Penn nokkrum mánuðum seinna.

Embed from Getty Images

Ótrúlegt hjarta Frankie Edgar hefur aldrei sést betur en í Gray Maynard bardögunum tveimur. Gray Maynard var á þessum tíma eini maðurinn sem hafði sigraði Edgar og mættust þeir aftur þann 1. janúar 2011 um léttvigtarbeltið.

Maynard hamraði Edgar niður í 1. lotu en þegar tvær mínútur voru eftir af lotunni hafði hann vankað Edgar illa, slegið hann þrívegis niður og brotið nef hans. Á þeim tíma virtist einungis vera tímaspursmál hvenær dómarinn myndi stöðva bardagann. Edgar tókst nokkuð óvænt að lifa lotuna af en flestir bjuggust við að Maynard myndi bara klára þetta fljótlega.

Mark Henry, þjálfari Edgar, íhugaði að kasta inn handklæðinu en Edgar var ekkert á því að gefast upp. Hann hélt áfram og gerði sér lítið fyrir og vann 2. lotu. Skyndilega var Edgar kominn aftur inn í bardagann þrátt fyrir ótrúlega barsmíð í 1. lotu. Bardaginn var jafn það sem eftir var og endaði með jafntefli. Frankie Edgar komst síðar að því að Henry hafi ætlað að kasta inn handklæðinu og var vægast sagt brjálaður.

Það þurfti því að endurtaka leikinn níu mánuðum síðar og byrjaði bardaginn nánast nákvæmlega eins og sá á undan. Maynard bombaði Edgar niður, vankaði hann illa og var aðeins hársbreidd frá því að ná draumi sínum og verða léttvigtarmeistari UFC. En, enn of aftur bjargaði ótrúlegt hjarta og þrauseigja honum Frankie Edgar.

Í þetta sinn gerði hann hins vegar betur en í fyrri titilbardaga þeirra. Edgar vann næstu tvær lotur og í fjórðu lotu átti hann alvöru Rocky augnablik. Edgar rotaði Gray Maynard og lauk þar með einni mögnuðustu trílogíu í sögu UFC.

Edgar tapaði síðan léttvigtartitlinum til Benson Henderson og hefur ekki tekist að verða meistari síðan. Tækifærin hafa verið mörg en titilbardaginn um helgina verður hans fjórði síðan hann tapaði titlinum. Tvær misheppnaðar tilraunir til að ná fjaðurvigtarbeltinu hafa verið stöðvaðar af Jose Aldo og nú fær hann enn einn titilbardagann.

Embed from Getty Images

Það hefur ekki vantað upp á tækifærin fyrir Frankie Edgar enda alltaf verið hliðhollur UFC og gert það sem UFC hefur óskað eftir. Hann missti þó af góðum aur þegar honum var lofað að berjast við Conor McGregor eftir sigur Edgar á Chad Mendes. Þess í stað vildi Conor eltast við léttvigtarbeltið og fékk bardaga gegn Rafael dos Anjos sem aldrei varð að veruleika. Conor hefur ekki enn snúið aftur í fjaðurvigtina.

Það var einmitt þessi tryggð Frankie Edgar sem skilaði honum titilbardaganum um helgina. Edgar átti að mæta Holloway í mars í fyrra en nokkrum vikum fyrir bardagann meiddist Holloway. Inn kom Brian Ortega sem rotaði Edgar (og varð þar með sá fyrsti til að klára Edgar) og stal titilbardaganum af Edgar. Edgar þurfti ekki að taka bardagann en gerði UFC greiða með því að taka bardagann og fær það nú endurgreitt. Edgar vann síðan Cub Swanson í apríl 2018 en hefur ekki barist síðan.

Nú er hinn 37 ára gamli Frankie Edgar að fá enn einn titilbardagann. Það hefði vel verið hægt að færa rök fyrir því að Alexander Volkanovski eigi meira skilið að fá titilbardaga en Frankie Edgar. Líkt og fyrir hans fyrsta titilbardaga eru ekki margir sem gefa Edgar mikla möguleika í bardaganum. Það má samt aldrei afskrifa ótrúlegt hjarta og þrautseigju Frankie Edgar þrátt fyrir að hann sé á síðustu metrunum. Max Holloway er sigurstranglegri hjá veðbönkum en eitt er ljóst, Frankie Edgar mun aldrei gefast upp þrátt fyrir að á móti blási.

Embed from Getty Images
spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular