spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentPage Daley og Michael 'Venom' Page mætast loksins í kvöld

Page Daley og Michael ‘Venom’ Page mætast loksins í kvöld

Bellator 216 fer fram í kvöld þar sem þeir Paul Daley og Michael ‘Venom’ Page mætast loksins. Lengi hefur verið beðið eftir bardaganum en rígur þeirra nær aftur um nokkur ár.

Michael ‘Venom’ Page er þekktur fyrir skemmtilegan stíl og hefur hann margoft sýnd mögnuð tilþrif í búrinu. Þessi tilþrif hafa þó bara komið gegn minni spámönnum og eigum við ennþá eftir að sjá hann á móti alvöru andstæðingi.

Það gerist loksins í kvöld þegar hann mætir Paul Daley. Page er 13-0 sem atvinnumaður og hefur keppt sem slíkur í 7 ár. Það er því löngu kominn tími á að hann fái alvöru próf.

Paul Daley er bara fjórum árum eldri en Page en er samt með 58 bardaga í MMA og 24 í kickboxi. Það er ansi mikill reynslumunur en Page hefur sýnt það góð tilþrif í búrinu að hann er talinn sigurstranglegri hjá veðbönkum.

Lengi hefur verið beðið eftir því að þeir mætist í búrinu en rígur þeirra hefur nú verið í gangi í nokkur ár. Það er engin merkileg ástæða á bakvið þennan ríg – bara báðir að urða yfir hvorn annan í viðtölum. Eftir tap Daley gegn Rory MacDonald á Bellator 179 skoraði hann á Page og áttu þeir í smá orðaskiptum fyrir utan búrið.

Þessi bardagi hefur verið óskaplega lengi í smíðum. Daley vildi berjast við Page en Page ekki. Svo þegar Page vildi berjast við Daley þá var sá síðarnefndi ekki til og svona hefur þetta verið fram og til baka þangað til þeir voru loksins bókaðir í veltivigtarmót Bellator. Sigurvegarinn mun svo mæta Douglas Lima í undanúrslitum.

Þrátt fyrir að þetta séu tveir Bretar, þar sem mikill áhugi er fyrir bardaganum þar í landi, fer bardaginn fram langt frá heimahögum. Bardagakvöldið fer fram í Uncasville í Connecticut sem er ansi kjánalegt. Scott Coker, forseti Bellator, sagði að það hefði einfaldlega ekki verið hægt að hafa bardagann á Englandi þrátt fyrir að Bellator hafi verið með bardagakvöld í Newcastle um síðustu helgi.

Bardaginn fer kannski fram í einhverju krummaskuði en bardagakvöldið verður það fyrsta sem sýnt verður á Sky Sports. Það er stór áfangi fyrir Bellator og má búast við veglegri skemmtun í kvöld en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl. 3 í nótt á íslenskum tíma.

Þeir Page og Daley mætast í aðalbardaga kvöldsins en auk þess býður Bellator upp á nokkra ágætis bardaga en þar má nefna viðureign Mirko ‘Cro Cop’ gegn Roy Nelson.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular