Thursday, April 18, 2024
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC on ESPN 1

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC on ESPN 1

UFC er með bardagakvöld á sunnudagskvöldið í Arizona þar sem þeir Cain Velasquez og Francis Ngannou mætast í aðalbardaga kvöldsins. Hér eru nokkrar ástæður til að horfa á bardagakvöldið.

Endurkoma Cain

Það er langt síðan Cain Velasquez barðist og loksins er komið að því. Þessi magnaði bardagamaður hefur ekki barist í tvö og hálft ár og er spurning í hvernig standi hann er í árið 2019. Cain mætir Francis Ngannou á morgun í aðalbardaga kvöldsins og er það hættulegur bardagi ef hann er eitthvað ryðgaður. Það er alltaf gaman að sjá tvo hæfileikaríka þungavigtarmenn slást og er það svo sannarlega raunin hér.

Gæðabardagi í léttvigt

Léttvigtin hefur lengi verið einn vinsælasti þyngdarflokkurinn í UFC enda ríkja mikil gæði þar. Gott dæmi um gæðin er bardagi á milli James Vick og Paul Felder. Vick er í 10. sæti á styrkleikalistanum en Felder ekki á topp 15 en þrátt fyrir gæðin eru þeir ekki nálægt titlinum. Vick átti frábæru gengi að fagna og var 13-1 þar til hann mætti Justin Gaethje í ágúst. Gaethje rotaði Vick snemma í 1. lotu og er Vick staðráðinn í að gera betur í þetta sinn. Paul Felder er aldrei í leiðinlegum bardögum og ætti þessi bardagi að vera hörku skemmtun.

Vicente Luque reynir að komast úr skugganum

Vicente Luque er einn af fjölmörgum hæfileikaríku bardagamönnum sem hefur ekki náð að koma nafninu sínu almennilega á framfæri þrátt fyrir gott gengi. Þessi 27 ára bardagamaður hefur unnið sjö af síðustu átta bardögum sínum og klárað alla sjö sigrana. Þrátt fyrir magnaða takta í búrinu hefur hann ekki enn fengið stóra bardaga og situr ennþá fyrir utan topp 15 styrkleikalistann. Hann mætir Bryan Barbarena á morgun sem hefur hingað til verið nokkurs konar hliðvörður inn á topp 15 í veltivigtinni. Þetta ætti að verða skemmtilegur bardagi!

Frumraun Gracie

Yngsti sonur Rickson Gracie, Kron Gracie, berst sinn fyrsta bardaga í UFC á morgun. Kron mætir Alex Caceres en Kron er 4-0 í MMA. Hann er eins og nafnið gefur til kynna svart belti í brasilísku jiu-jitsu og ansi öflugur í gólfinu. Caceres er mun reynslumeiri en mun eiga undir högg að sækja ef þetta fer í gólfið. Kron er orðinn þrítugur og er spurning hvernig honum muni vegna í UFC.

Ekki gleyma

Það er heill hellingur af góðum bardögum á kvöldinu. Cynthia Calvillo mætir Cortney Casey og ætti það að verða góður bardagi í strávigt kvenna. Andre Fili og Myles Jury mætast í fjaðurvigt, Jimmie Rivera mætir Aljamain Sterling í bantamvigt, fyrrum meistarinn Renan Barao mætir Luke Sanders einnig í bantamvigt og Scott Holtzman mætir Nik Lentz í léttvigt  – allt frábærir bardagar sem ekki má missa af.

Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl. 22:30 en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl. 2:00 en alla bardagana verður hægt að sjá á Fight Pass rás UFC.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular