Al Iaquinta snéri aftur í búrið um síðustu helgi eftir tveggja ára fjarveru. Iaquinta var lengi vel í útistöðum við UFC en er ekki enn sáttur með sína stöðu í UFC.
‘Raging’ Al Iaquinta kláraði Diego Sanchez með rothöggi í 1. lotu um síðustu helgi og hefur hann nú unnið fimm bardaga í röð. Hann er 8-2 í léttvigt UFC (sem er einn sterkasti þyngdarflokkurinn í UFC) en er gríðarlega ósáttur með stöðu sína í UFC.
Iaquinta skrifaði undir núverandi samning við UFC áður en Reebok samningurinn tók í gildi um mitt árið 2015. Með Reebok samningnum missti hann möguleikann á því að sýna merki styrktaraðilanna sinna og er hann í dag ekki með styrktaraðila. Hann fær 26.000 dollara fyrir að mæta og aðra 26.000 fyrir að vinna frá UFC. Að hans mati er það einfaldlega ekki þess virði líkt og hann hefur áður sagt.
Iaquinta bakkaði út úr bardaga sínum gegn Thiago Alves á UFC 205 þar sem kaupið var einfaldlega ekki nógu gott. Hann virtist hafa náð sáttum við UFC nýlega og snéri því aftur í búrið um helgina. Eftir bardagann gegn Diego Sanchez var öllum ljóst að hann er enn mjög ósáttur með sína stöðu í UFC.
„Ég veit ekki hvort þetta sé þess virði. Ég veit ekki hvort peningurinn sé þess virði eftir allt sem ég legg á mig til að gera þetta. Það gekk eftir í kvöld en þetta verður ekki auðvelt,“ sagði Iaquinta eftir bardagann á laugardaginn.
„Þetta verður að vera þess virði. Ég hef glímt við mikið af meiðslum og hef misst nokkur ár af ferlinum vegna meiðsla. Og núna fæ ég ekkert frá styrktaraðilum. Ég er í UFC leiknum en hef ekki fengið einn dollara fyrir það og þeir hafa ekki einu sinni sent mér eintak af leiknum.“
Iaquinta væri til í að berjast á UFC on Fox 25 bardagakvöldinu í júlí enda fer það fram í nágrenni Iaquinta í New York ríki. „Ég myndi elska að berjast þar. En ég mun ekki gera það fyrir samninginn sem ég hef núna. Pottþétt ekki gegn topp andstæðingi. Þessir gæjar eru hættulegir. Mig langar ekki að fara í búrið miðað við núverandi kaup og verða laminn. Hættan á meiðslum, ef ég er meiddur í tvö ár, hvernig á ég að fá borgað? Ég hef enga styrktaraðila, það er ekkert.“
„Ég elska að berjast en ég ætla ekki að eyðileggja skrokkinn minn. Þetta er enginn leikur, þetta er fúlasta alvara. Þetta er ekki mikill peningur sem ég fæ. Fyrir það sem ég er að gera, fyrir að vera í sjónvarpinu, miðað við bílinn sem ég ek, ég verð að eiga betra líf en þetta. Ég gæti verið að gera hvað sem er í heiminum og fengið jafn vel borgað og ekki sett líkama minn í hættu. Ég þarf ekki að berjast, ég hef fasteignasöluna.“
Iaquinta fékk ekki frammistöðubónus eftir sigurinn á Sanchez og var hann afar ósáttur við það. Hann lét UFC heyra það á Twitter og gerði það sama í The MMA Hour í gær.
Fuck you https://t.co/UoGqPspJAw
— Al Iaquinta (@ALIAQUINTA) April 23, 2017
Hey @ufc go fuck yourself
— Al Iaquinta (@ALIAQUINTA) April 23, 2017
Í gær lét hann svo aðra bardagamenn og Reebok heyra það á Twitter en eyddi sumum af tístunum síðar.
Kevin lee couldn’t throw a punch to save his life
— Al Iaquinta (@ALIAQUINTA) April 25, 2017
— Ben Fowlkes (@benfowlkesMMA) April 25, 2017
Þessi tíst sýndu enn og aftur hve pirraður hann er. Framkoma hans á samfélagsmiðlum er ekki að bæta ástandið.
Iaquinta mætti klárlega koma málum sínum betur fram og hefur gert sín mistök með UFC. Framkoma hans gæti verið kurteisari en Iaquinta hefur reynt að fá að setjast niður og ræða málin við UFC án árangurs. Iaquinta er reiður og á það að vissu leyti rétt á sér. UFC ætlaði til að mynda að refsa honum fyrir þrjú minniháttar brot með því að banna honum að fá frammistöðubónusa í þrjá bardaga í röð.
En þetta er samt líka vandræðalegt fyrir UFC. UFC er alltaf að reyna að vera eins og stóru íþróttirnar en hérna erum við með íþróttamann á topp 15 í einum erfiðasta þyngdarflokkinum í UFC sem vill frekar selja fasteignir. Hann fær betur borgað fyrir að sinna venjulegri vinnu í stað þess að berjast í stærstu bardagasamtökum heims.
Iaquinta er með margt til að trekkja áhorfendur að. Hann er stór karakter, er 8-2 í UFC, með fjögur rothögg í síðustu fimm bardögum og hefur margt sem UFC gæti notað. Iaquinta er aldrei að fara verða einhver risa stjarna eins og Conor McGregor eða Jon Jones en UFC ætti að geta notað hann betur og þar af leiðandi greitt honum meira. Til samanburðar fékk Diego Sanchez 80.000 dollara fyrir að mæta síðast þegar launin hans voru gefin upp (UFC 200 í fyrrasumar) og hefur eflaust fengið svipaða upphæð núna fyrir bardagann gegn Iaquinta.
Hugsanlega hefur Iaquinta barist sinn síðasta bardaga í UFC en það á eftir að koma betur í ljós. Hér að neðan má hlusta á viðtalið við hann í The MMA Hour.