Ray Borg ætlar ekki að fá sér næringarfræðing fyrir bardagann gegn Demetrious Johnson á UFC 216. Ray Borg átti að mæta Johnson á UFC 215 en gat ekki barist vegna veikinda.
Rúmum sólarhringi fyrir titilbardaga Demetrious Johnson og Ray Borg á UFC 215 neyddist Borg til að draga sig úr bardaganum vegna veikinda. Strax voru uppi efasemdir um niðurskurð Borg enda hefur hann oft átt í erfiðleikum með niðurskurðinn. Tvisvar hefur hann ekki náð fluguvigtartakmarkinu í UFC og einu sinni þurfti hann að draga sig úr bardaga gegn Ian McCall vegna veikinda aðeins þremur dögum fyrir bardagann.
Skömmu eftir að Borg var sagður veikur barst tilkynning frá næringarfræðingi Borg sem sagði veikindin ekki tengjast niðurskurðinum. Borg sendi einnig frá sér tilkynningu skömmu síðar þar sem hann lýsti því yfir að sami næringarfræðingur væri ekki lengur á sínum vegum.
Ray Borg var í The MMA Hour á mánudaginn þar sem hann talaði um veikindin fyrir UFC 215 sem fram fór í Kanada.
„Mér leið illa í flugvélinni á leið til Kanada. Skrokkurinn var mjög, mjög slappur og þetta var mjög, mjög erfitt. Ég hugsaði með mér að svona væri þetta bara og að ég væri bara að jafna mig á smá kvefi. Fjölmiðladagurinn var ekki svo slæmur, leið bara smá óþægilega,“ sagði Borg.
Það var ekki fyrr en á opnu æfingunni á fimmtudeginum sem Borg áttaði sig á því að veikindin voru verri en hann taldi. Æfingin var talsvert erfiðari en hún hefði átt að vera og þá vissi Borg að eitthvað væri að.
„Niðurskurðurinn var ekkert mál. Ég hef átt mun verri niðurskurði. Þetta hefði verið minn auðveldasti niðurskurður, ég var léttari í þetta skiptið heldur en fyrir minn síðasta bardaga þar á undan.“
Borg segir að flensa hafi herjað á æfingabúðirnar nokkrum vikum fyrir bardagann og fékk hann flensuna á versta mögulega tíma.
Bardagi Borg og Johnson var aftur settur á dagskrá og verður það næstsíðasti bardagi kvöldsins á UFC 216 þann 7. okótber. Í þetta sinn ætlar Borg ekki að fá sér neinn næringarfræðing og sjá bara um hlutina sjálfur.
„Mig langaði bara að gera það sem kom mér þar sem ég er núna. Áður en ég komst í UFC þekkti ég minn líkama betur en nokkur næringarfræðingur. Skiptir ekki máli með hversu mörgum næringarfræðingum ég vinn með, ég veit hvernig líkaminn minn bregst við ákveðnum hlutum og veit hvernig best er að skera niður. Ég var að flækja hlutina með því að bæta við of mörgum einstaklingum með skoðun.“
„Eins og er er ég bara að gera það sem kom mér hingað. Ég fæ smá ráðleggingar frá næringafræðingi UFC. Bara með því að fá smá leiðsögn frá honum get ég séð til þess að ég sé að gera allt rétt. Fyrir utan það þarf ég ekki næringarfræðing. Ég ætla bara að gera það sem ég hef áður gert.“