spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaRobbie Lawler - 18 rothögg af 22 sigrum!

Robbie Lawler – 18 rothögg af 22 sigrum!

robbie-lawler

Robbie Lawler hafði betur gegn Rory MacDonald um nýliðna helgi. Hann hefur nú sigrað þrjá bardaga í röð, nokkuð sem fáir bjuggust við. Hann á nú möguleika á að fá titilbardaga í veltirvigtinni, 9 árum eftir að hann var látinn fara úr UFC.

Ferill Robbie Lawler er afar athyglisverður. Eftir að hafa sigrað fyrstu fjóra bardaga sína (á aðeins sex mánuðum) fékk hann samning við UFC, þá aðeins 19 ára gamall. Honum gekk vel í upphafi og sigraði fyrstu þrjá bardaga sína. Hann var talið gríðarlega mikið efni og bjuggust margir við að hann myndi verða heimsmeistari einn daginn. Í þá daga barðist hann í millivigt og var næsta víst að þessi tvítugi bardagamaður myndi einn daginn berjast um titilinn. Það sama hefur oft verið sagt um síðasta andstæðing hans, Rory MacDonald. Flest virðist benda til að MacDonald muni einn daginn verða besti veltivigtarmaður heims og það sé í raun bara tímaspursmál hvenær það gerist. Það gekk þó ekki upp hjá Lawler og eftir tvö töp í röð (þá með bardagaskorið 4-3 í UFC) var hann látinn fara frá UFC.

Eftir UFC flakkaði hann um og barðist m.a. í Pride, IFL, EliteXC og endaði svo í Strikeforce. Þar var hann þessi dæmigerði “journey man”, vann einn og tapaði svo næsta en var erfiður og hættulegur andstæðingur fyrir alla. Hann á nokkur mögnuð rothögg og var rothöggið gegn Melvin Manhoef valið rothögg árins 2010.

Eftir að Strikeforce lagði upp laupana var hann færður yfir í UFC (Zuffa, eigendur UFC, keyptu Strikeforce og fóru flestir bardagamenn úr Strikeforce í UFC). Í hans fyrsta bardaga í endurkomunni mætti hann Josh Koscheck í febrúar á þessu ári. Fyrirfram var talið að Lawler ætti ekki mikla möguleika þar sem hann hefur oft verið í vandræðum með góða glímumenn eins og Koscheck. Auk þess að berjast í UFC í fyrsta skipti síðan 2004 hafði hann ekki barist í veltivigt síðan hann var látinn fara frá UFC. Mörgum spurningum var svarað þetta kvöld þegar Lawler sigraði Koscheck með tæknilegu rothöggi í fyrstu lotu. Í næsta bardaga sigraði hann Bobby Voelker með haussparki í 2. lotu og hlaut mikið lof fyrir. Lawler hefur alltaf verið vinsæll meðal bardagaáhugamanna en vinsældir hans eru nú í nýjum hæðum!

Eftir síðasta sigur, gegn MacDonald, er hann búinn að sigra þrjá bardaga í röð og gæti fengið titilbardaga ef hann sigrar næsta bardaga. Dana White sagði nýverið að Lawler hefði getað fengið að vera lengur í UFC á sínum tíma en hann vildi víst fá of mikið borgað. Í dag er hann ekki að hugsa um að fá sem mestan pening heldur vill hann berjast við þá bestu og komast á toppinn!

Robbie er ávallt skemmtilegur á að horfa en af 22 sigrum hans hafa 18 komið eftir rothögg! Það verður gaman að sjá hvort Lawler muni fá titilbardaga einn daginn en um leið er þetta góð áminning á að efnilegir bardagamenn eins og Rory MacDonald gætu tekið lengri tíma að komast á toppinn.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular