Tuesday, April 23, 2024
HomeErlentRobbie Lawler vill bara hafa gaman, vinna bardaga og rota fólk

Robbie Lawler vill bara hafa gaman, vinna bardaga og rota fólk

Robbie Lawler hefur ekkert barist síðan hann tapaði veltivigtartitlinum í júlí í fyrra. Lawler er ekki mikið að spá í peningabardögum og hugsar bara um að vinna næsta bardaga.

Robbie Lawler var veltivigtarmeistari UFC í u.þ.b. tvö ár en tapaði beltinu til Tyron Woodley á UFC 201 í júlí í fyrra. Woodley rotaði Lawler og ákvað Lawler að taka sér góða pásu eftir tapið áður en hann snéri aftur í búrið. Lawler mun snúa aftur í sumar á UFC 213 þegar hann mætir Donald Cerrone í draumabardaga aðdáenda.

„Mig langar bara að hafa gaman, vinna bardaga og rota fólk. Það er það sem ég er búinn að vera að gera en mig langaði aðeins að eyða meiri tíma með fjölskyldunni og stráknum mínum og gera þannig hluti um sinn,“ segir Lawler við Five Rounds hlaðvarpið.

Margir meistarar eru að óska eftir stórum peningabardögum í stað þess að mæta áskorendum númer eitt. Lawler hefur tekið eftir þessari tilhneigingu en er ekkert að spá í því núna. „Maður veit ekki hvaða stefnu þeir taka en ég þarf í fyrsta lagi að vinna bardaga og svo sjáum við til eftir það.“

„Maður veit ekki alveg hvar maður stendur með UFC í dag. Þegar ég kom aftur í UFC á sínum tíma þurfti maður bara að vinna og vinna bardaga og þannig fékk maður titilbardaga. Vonandi er það ennþá þannig en við sjáum til.“

Upphaflega reyndi UFC að setja bardaga Lawler og Cerrone á UFC 205 í nóvember. Lawler hætti við bardagann þar sem hann vildi meiri tíma til að jafna sig eftir rothöggið. UFC gerði aðra tilraun til að setja bardagann nú í sumar og tókst það til.

Í janúar ákvað Lawler að yfirgefa American Top Team (ATT) í Flórída þar sem hann hafði æft frá 2012. ATT æfingarnar voru sagðar vera lykilþáttur í farsælli endurkomu Lawler í UFC. Núna æfir hann hins vegar hjá Combat Club í Flórída með Henri Hooft en hann vildi lítið tjá sig um það í hlaðvarpinu.

„Það var kominn tími til að fara annað. Þetta var ekki staðurinn fyrir mig. Ég á marga vini og félaga sem æfa þarna ennþá en þetta var ekki lengur rétti staðurinn fyrir mig og það er það sem ég hef að segja um þetta.“

Talið er að Georges St. Pierre muni snúa aftur í sinn gamla þyngdarflokk, veltivigtina, þegar hann snýr aftur. Lawler finnst ekki líklegt að hann muni mæta gamla meistaranum.

„Ég held að það sé ekki að fara gerast. Ég held að Georges velji andstæðing sem henti honum best til að knýja fram sigur og til að selja Pay Per View. Ég held að hann vilji ekki berjast við mig. Ég þarf líka að vinna nokkra bardaga og berja nokkra menn fyrst.“

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular