Það verður enginn blaðamannafundur og engin opin æfing hjá Rondu Rousey fyrir UFC 207 en Ronda Rousey hefur engan áhuga á að tala við MMA fjölmiðlana.
Það er skrítið að aðalnúmerið þurfi ekki að mæta á blaðamannafund nokkrum dögum fyrir bardagakvöldið. UFC heldur blaðamannafund á miðvikudaginn í næstu viku en þar munu hvorki Ronda Rousey né Amanda Nunes vera viðstaddar.
Stærstu MMA miðlarnir eins og MMA Fighting, MMA Junkie og fleiri fá því ekki tækifæri til að spyrja Rondu Rousey spurninga. Ronda mun einungis veita örfá einkaviðtöl nokkrum aðilum sem hún velur.
Aldrei áður hefur aðalstjarnan fengið að sleppa við blaðamannafund. Bardagaaaðdáendur ættu að muna eftir því þegar Conor McGregor var tekinn af UFC 200 þar sem hann vildi ekki mæta á blaðamannafund rúmum tveimur mánuðum fyrir UFC 200 bardagakvöldið.
Ronda Rousey var ósátt við þá umfjöllun sem hún fékk frá MMA miðlunum eftir tapið gegn Holly Holm og segir að þeir hafi snúið við sér baki. Hún ætlar því ekki að tala við þá fyrir bardagann og óvíst hvort hún muni gera það eftir bardagann.