Ronda Rousey mætir Amöndu Nunes á UFC 207 í desember. Í nýlegu viðtali við Ellen segist hún ekki eiga marga bardaga eftir.
Bardaginn í desember verður fyrsti bardaginn hennar síðan hún var rotuð gegn Holly Holm í nóvember í fyrra. Nú er hún tilbúin til að snúa aftur en bardaginn gegn Nunes gæti verið einn sá síðasti á ferlinum.
„Það er ekki mikið eftir, þetta fer að klárast. Þetta er klárlega einn af mínum síðustu bardögum,“ sagði hin 29 ára Ronda Rousey í þættinum The Ellen Degeneres Show. „Það er eins gott að þið fylgist með því þessi sýning varir ekki að eilífu.“
Ronda Rousey hefur undanfarið ár einbeitt sér að Hollywood ferlinum og áður sagt að hún vilji hætta 31-32 árs. Að sögn Rousey er það biðin og spennan fyrir bardagann sem er svo lýjandi.
„Ef ég þyrfti að berjast akkúrat núna væri það ekkert mál og það væri ekki eins þreytandi. Það eru frekar vikurnar í aðdraganda bardagans. Þú ert að fara að mæta þessari einu manneskju og það er þetta lokauppgjör og það mikilvægasta í öllu þínu lífi og milljónir manna munu horfa. Það er þessi margra vikna aðdragandi [sem er svo þreytandi] og öll biðin. Ef ég væri bara að berjast núna væri ég ekkert stressuð.“
UFC 207 fer fram þann 30. desember í Las Vegas og mun Rousey mæta ríkjandi meistara, Amöndu Nunes. Sama kvöld mætir Dominick Cruz Cody Garbrandt um bantamvigtartitil karla.