Tuesday, May 21, 2024
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í nóvember 2016

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í nóvember 2016

Meiðsli Gunnars Nelson voru hræðilegt áfall fyrir MMA aðdáendur en engu að síður er nóvember stórkostlegur mánuður. UFC 205 er fyrsta bardagakvöld UFC í New York og það hefur öllu verið til tjaldað til að kvöldið verði hið glæsilegasta. Af tíu bardögum á þessum lista eru sjö á því kvöldi, lítum yfir þetta.

tim-kennedy-vs-rashad-evans-ufc-205

10. UFC 205, 12. nóvember – Rashad Evans gegn Tim Kennedy (millivigt)

Þetta verður ansi áhugaverður bardagi. Tim Kennedy snýr aftur í búrið eftir tvö ár gegn Rashad Evans sem tapaði illa gegn Glover Teixeira í apríl. Hver veit hvað gerist þegar þessir mætast en þeir eru jafn gamlir og báðir sterkir glímumenn.

Spá: Evans ætti að vera slitnari en Kennedy og mun því sennilega tapa illa. Kennedy sigrar á rothöggi í fyrstu lotu.

bellator-165

9. Bellator 165, 19. nóvember – Michael Chandler gegn Benson Henderson (léttvigt)

Það er talsvert afrek hjá Bellator að koma bardaga á þennan lista í nóvember. Það hefur lengi verið vitað að Michael Chandler er einn besti MMA bardagamaður í heimi sem ekki berst í UFC. Besta sönnunin á því er sigur gegn ríkjandi UFC meistara, Eddie Alvarez, árið 2011. Hér fær hann annað risastórt tækifæri til að sanna sig en í þetta sinn er það gegn fyrrverandi UFC meistara, Benson Henderson. Eftir einn sigur og eitt tap í Bellator fær Henderson nú tækifæri á að grípa annan titil.

Spá: Henderson er erfiður ef hann er ekki að berjast við of stóra andstæðinga. Benson sigrar á stigum.

jeremy-stephens-vs-frankie-edgar

8. UFC 205, 12. nóvember – Jeremy Stephens gegn Frankie Edgar (fjaðurvigt)

Hér er lítil kjarnorkusprengja. Jeremy Stephens tapar yfirleitt fyrir þeim allra bestu en hann er alltaf stórhættulegur og gjörsamlega óttalaus. Í hans síðasta bardaga vann hann mikilvægan sigur á Renan Barao en getur hann unnið tæknilegan snilling og fyrrverandi léttivigtarmeistara Frankie Edgar?

Spá: Frankie tapaði gegn Aldo en hann ætti ennþá að vera talsvert betri en Stephens. Edgar finnur svarið og sigrar á sigum.

ferguson-rda

7. UFC Fight Night 98, 5. nóvember – Tony Ferguson gegn Rafael dos Anjos (léttvigt)

Eftir langan þurrk eru aðeins nokkrir dagar í þennan gullmola. Þessir tveir eru hungruð ljón að berjast um blóðugt bein á vígvellinum sem kallast léttvigtin í UFC. Ferguson er búinn að vinna átta bardaga í röð en mætir hér fyrrverandi meistara sem þráir að endurheimta beltið sitt. Eitthvað verður að gefa sig.

Spá: Ferugson er á siglingu en RDA mun stöðva það með valdi. RDA sigrar á tæknilegu rothöggi í fjórðu lotu.

khabib-johnson

6. UFC 205, 12. nóvember – Khabib Nurmagomedov gegn Michael Johnson (léttvigt)

Khabib Nurmagomedov hefði réttilega átt að fá að berjast um beltið í léttvigt en í stað þess að bíða bað hann um þennan erfiða bardaga gegn Michael Johnson. Khabib er almennt viðurkenndur sem sá besti í léttvigt en það má ekki gleyma því að um tvö og hálft ár eru síðan hann sigraði Rafael dos Anjos. Síðan þá hefur hann barist við meiðsli og sigrað Darrell Horcher sem átti ekkert erindi í þann bardaga. Við vitum hverju búast má við frá Johnson en í hvaða standi er Nurmagomedov þessa dagana? Það er spurningin.

Spá: Þetta verður erfiðara en marga grunar en Khabib mun nota glímuna og tryggja sér sigur á stigum.

jj-vs-kk

5. UFC 205, 12. nóvember – Joanna Jędrzejczyk gegn Karolina Kowalkiewicz (strávigt kvenna)

JJ gegn KK. Það eru kannski ekki margir sem gefa Karolina Kowalkiewicz mikla möguleika gegn meistaranum Joanna Jędrzejczyk en eftir endalausa röð óvæntra úrslita er ljóst að það eina sem maður veit er að maður veit ekki neitt. Þessi bardagi er sögulegur á tvennan hátt. Hér mætast í fyrsti skipti tveir Pólverjar í titilbardaga í UFC og í fyrsta skipti tveir Evrópubúar.

Spá: Kowalkiewicz er góð en hún virkar ekki tilbúin í mannlega splípirokkinn. Jędrzejczyk sigrar á tæknilegu rothöggi í þriðju lotu.

Strikeforce World Grand Prix Semifinals

4. UFC Fight Night 101, 27. nóvember – Luke Rockhold gegn Ronaldo Souza (millivigt)

Þeir fjórir sem almennt eru taldir bestir í millivigt berjast í einskonar útsláttarmóti í nóvember. Luke Rockhold og Jacare Souza mætast í Ástralíu en þeir börðust áður í Strikeforce árið 2011 þar sem Rockhold sigraði á stigum í nokkuð jöfnum bardaga. Báðir eru sennilega betri en þeir voru þá en spurningin verður því, hvor hefur bætt sig meira?

Spá: Þetta verður aftur hnífjafnt en niðurstaðan verður sú sama, Rockhold sigrar á stigum.

weidman-romero

3. UFC 205, 12. nóvember – Chris Weidman gegn Yoel Romero (millivigt)

Áður en Rockhold og Souza útkljá málin sín á milli mætast Chris Weidman og Yoel Romero í New York. Þetta er mjög áhugaverður bardagi þar sem báðir eru frábærir glímumenn sem hafa þróast út í elítu MMA bardagamenn. Weidman er þekktur fyrir ómannlega hörku en Romero er eins og mannleg górilla.

Spá: Hjartað segir Weidman en ég óttast að þungu hendur Romero munu finna höku hans frekar snemma. Romero sigrar á rothöggi í 2. lotu.

thompson-woodley

2. UFC 205, 12. nóvember – Stephen Thompson gegn Tyron Woodley (veltivigt)

Er Tyron Woodley bara önnur útgáfa af Johnny Hendricks? Ef svo er þá verður þetta auðvelt fyrir Thompson. Woodley er skarpur náungi og hann veit að glíman er hann besta vopn í þessum bardaga. Hann mun skjóta og gera það snemma. Spurningin verður því, getur Thompson haldið þessum bardaga standandi?

Spá: Þetta mun taka smá tíma en Thomspon sigrar að lokum á tæknilegu rothöggi, segjum í þriðju lotu.

eddie-alvarez-conor-mcgregor

1. UFC 205, 12. nóvember – Eddie Alvarez gegn Conor McGregor (léttvigt)

Það er orðinn stór viðburður í hvert sinn sem Conor McGregar berst. Að þessu sinni er hann að skora á meistarann í léttvigt þrátt fyrir að hafa aldrei keppt í þeim þyngdarflokki í UFC. Á sama tíma er hann ríkjandi meistari í fjaðurvigt og nái hann að sigra þennan bardaga verður það sögulegur áfangi. Eddie Alvarez er ekkert grín. Hann er með mikla reynsla, getur slegið og glímt og er með gott úthald. Veikleikinn hans hefur stundum verið sá að hann getur verið villtur en berjist hann agað er mjög erfitt að eiga við hann.

Spá: Þetta gæti orðið mjög langt kvöld fyrir Írann en segjum að ævintýrið haldi áfram og að Conor roti Eddie Alvarez í annarri lotu.

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular