Ronda Rousey hefur rofið þögnina og sendi frá sér yfirlýsingu á Instagram í gær. Hún lofar því að hún muni snúa aftur í búrið.
Ronda Rousey tapaði beltinu sínu til Holly Holm á laugardaginn. Holm rotaði Rousey í 2. lotu og varð þar með sú fyrsta til að vinna Rousey í MMA.
Rousey var ekki viðstödd blaðamannafundinn eftir bardagann enda var hún send beint upp á sjúkrahús til aðhlynningar. Talið var að Rousey hefði kjálkabrotnað en þær sögusagnir reyndust ekki sannar.
Rousey gaf það út fyrir bardagann að hún myndi taka sér hlé frá MMA til að einbeita sér að Hollywood-ferlinum. Hún mun að öllum líkindum berjast næst á UFC 200 í júlí. Holly Holm mun sennilega þurfa að bíða eftir Rousey en það á þó allt eftir að koma í ljós.
Í yfirlýsingunni segir að Rousey sé í lagi, hún muni taka sér pásu en snúa aftur. Hér að neðan má sjá yfirlýsingu Rousey í heild sinni.