0

Rose Namajunas: Þreytt á öllu hatrinu og reiðinni

Rose Namajunas átti ótrúlega frammistöðu þegar hún sigraði Joanna Jedrzejczyk í gær. Namajunas rotaði Jedrzejczyk í 1. lotu og eru þetta einhver óvæntustu úrslit ársins.

Rose Namajunas var frábær í bardaganum en var það líka í viðtölunum eftir bardagann. Hún var gráti næst í viðtalinu í búrinu við Joe Rogan og fannst þetta allt vera óraunverulegt líkt og í kvikmynd.

Þá sagði hún að allt þetta skipti engu máli, það eina sem skipti máli er að vera góð manneskja. „Þetta belti skiptir engu máli. Bara að vera góð manneskja. Þetta er bara bónus,“ sagði Namajunas eftir bardagann.

Joanna Jedrzejczyk reyndi eins og hún gat að ógna Namajunas í aðdraganda bardagans. Hún kallaði hana hinum ýmsu nöfnum og lagði hnefa sinn í átt að andliti Namajunas er þær stóðu andspænis hvor annarri á blaðamannafundi í vikunni.

Namajunas var ávalt róleg sama hvað Jedrzejczyk reyndi að ógna henni sem var aðdáunarvert. Á blaðamannafundinum eftir bardagann kvaðst Namajunas vilja vera góð fyrirmynd enda er það eitthvað sem fer hratt minnkandi að hennar mati í MMA.

„Það er búið að vera mikið um skítkast (e. trash talk). Fólk er ekki samkvæmt sjálfu sér og heiðarlegt. Kannski halda allir að það sé það sem til þarf til að skemmta fólki en ég er þreytt á því. Ég er þreytt á öllu hatrinu og reiðinni. Við höfum skyldu sem bardagamenn að sýna betra fordæmi að mínu mati.“

„Bardagalistir snúast um heiður og virðingu. Það þarf mikið hugrekki til að stíga í búrið sama hver þú ert. Ég vil setja þannig fordæmi.“

Pétur Marinó Jónsson

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.