Santiago Ponzinibbio var rotaður í gær á fyrsta UFC kvöldi ársins. Ponzinibbio var svekktur enda hafði hann beðið lengi eftir bardaga.
Santiago Ponzinibbio hafði ekki barist í rúm tvö ár eftir að hafa fengið alvarlega sýkingu. Ponzinibbio var gríðarlega spenntur fyrir endurkomu sinni en var rotaður af Li Jingliang í 1. lotu.
Ponzinibbio var eðlilega svekktur eftir tapið. „Ég á erfitt með að lýsa sorginni. Ég vildi gefa aðdáendum sigur eftir allan stuðninginn sem ég hef fengið. Ég lagði mikið á mig fyrir þennan bardaga, heilt ár í undirbúningi en eitt högg klárar allt,“ sagði Ponzinibbio í yfirlýsingu á Instagram og lofar að koma sterkur til baka.
Fram að bardaganum hafði Ponzinibbio unnið sjö bardaga í röð og var kominn á topp 5 í veltivigtinni. Þar sem hann var svo lengi frá vegna sýkingarinnar var hann tekinn af styrkleikalistanum og verður ekki kominn aftur þangað þegar nýr listi kemur út eftir tapið.