Friday, April 19, 2024
HomeErlentSorgarsaga B.J. Penn heldur áfram

Sorgarsaga B.J. Penn heldur áfram

B.J. Penn fær enn einn bardagann í UFC þrátt fyrir að eiga tvö vafasöm met. Penn mætir Nik Lentz síðar á árinu en Dana White og þjálfari Penn verja ákvörðun Penn að berjast áfram.

Á laugardaginn staðfesti Dana White, forseti UFC, að gamla goðsögnin B.J. Penn myndi fá enn eitt tækifærið. Fyrr í sumar sagðist Dana hreinlega ekki geta gefið Penn annan bardaga eftir sjöunda tapið hans í röð. Nú virðist annað hljóð vera komið í Dana og virðist ferill Penn engan endi ætla að taka.

„Hann lét mig ekki í friði og sendi mér SMS þrjá daga í röð. Hann sannfærði mig um að gefa sér annan bardaga. Við náðum samkomulagi og hvort sem hann vinnur, tapar eða gerir jafntefli þá verður þetta síðasti bardagi B.J. Penn,“ sagði Dana White um helgina.

„Ég mun ekki gefa honum annan bardaga. Það er mjög skýrt okkar á milli, sama hvað. Ef allir þeir sem hafa áhyggjur af Penn eru læknar mega þeir hringja í mig. Ef ekki eiga þeir ekki að skipta sér af þessu,“ sagði síðan Dana um þá gagnrýni sem UFC hefur fengið fyrir að gefa honum enn einn bardagann.

Þegar Penn tapaði fyrir Clay Guida í maí var það hans sjöunda tap í röð en það er met í UFC. Enginn hefur tapað fleiri bardögum í röð í UFC og er Penn nú með bardagaskorið 16-14-2. Penn á annað vafasamt met en enginn hefur fengið fleiri höfuðhögg (rúmlega 1.300 högg) í sögu UFC en Penn.

Þrátt fyrir allt þetta er hann að fá annan bardaga og mun þjálfarinn Jason Parillo halda áfram að standa við bakið á honum. Vafasamt líferni og slæm hegðun Penn utan búrsins hefur komist í fréttirnar á þessu ári en Parillo segir Penn vera á mun betri stað ef hann er með bardaga til að einblína á. Penn er sagður glíma við áfengis- og fíkniefnavanda en notar æfingabúðir fyrir bardaga til að ná sér á beinu brautina. Ef hann er ekki með bardaga framundan fer hann út af sporinu.

Bæði Dana og Parillo eru að fara auðveldu leiðina úr þessu með því að gefa eftir og gefa Penn annan bardaga. Maðurinn þarf mikla hjálp en það er reyndar erfitt að hjálpa þeim sem vilja enga hjálp. Einhvern veginn þarf að stoppa Penn en það er hreinlega erfitt. Ef Dana hættir að gefa Penn bardaga verður örugglega alltaf einhver óprúttinn aðili sem er tilbúinn að græða nokkra aura og gefa Penn bardaga sem mun selja eitthvað. Það verður auk þess örugglega alltaf einhver þjálfari sem er tilbúinn að þjálfa Penn – alveg eins og við sáum með Chuck Liddell þegar hann mætti Tito Ortiz í fyrra.

Þessi komandi bardagi gegn Nik Lentz (dagsetning ekki staðfest) verður heldur varla bardaga. Þetta verður sennilega bara sorgleg, einhliða slátrun.

„Hann hefur ekki unnið bardaga síðan við fórum í Íraksstríðið. Það er fáránlegt en ég mun enda ferilinn hans. Ég er að gera honum greiða. Ég þarf að lúskra á honum og ég mun gera það. Ég ætla ekki að taka þessu léttúðlega, ég mun vinna þennan bardaga. Ég er tíu sinnum betri en B.J. Penn,“ sagði Lentz við Ariel Helwani í vikunni.

Bardaginn er persónulegur fyrir báða en Lentz æfði með Penn um tíma. Lentz sá þá að Penn ætti við fíkniefnavanda að etja en Penn vildi ekki hlusta. Upp úr sauð og yfirgaf Lentz æfingabúðirnar fyrr en áætlað var. Síðan þá hefur Penn hótað Lentz á samfélagsmiðlum.

„Á svona tveggja mánaða fresti sendir hann mér skilaboð á Instagram þar sem hann hótar mér og fjölskyldu minni. Honum hefur verið leyft að vera þessi hræðilega manneskja alla sína ævi af því hann var góðu í einhverju. Þannig eru Bandaríkin. Ef þú ert góður að berjast, góður í íþróttum eða góður að kasta bolta geturu verið eins mikill skíthæll og þú vilt.“

Þetta verður því ekkert vinalegur bardagi þar sem virðing verður í hávegum höfð eins og þegar Penn mætti Ryan Hall. Lentz ætlar að láta Penn finna fyrir því og er það áhyggjuefni fyrir hinn fertuga Penn. Goðsögnin er langt frá því að vera sami bardagamaður og réði yfir léttvigtinni hér áður fyrr og á ekki heima í UFC.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular