0

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í ágúst 2019

Sólin heldur áfram að skína og ballið heldur áfram í ágúst með þremur titilbardögum og endurkomu Nate Diaz svo eitthvað sé nefnt. Let´s go!

10. UFC on ESPN 5, 3. ágúst – Jim Miller gegn Clay Guida (léttvigt)

Af einhverjum ástæðum hafa þessir tveir aldrei mæst í búrinu þrátt fyrir að hafa bókstaflega barist við alla aðra í sögu UFC. Báðir eru komnir vel yfir sitt besta en eru samt ekki alveg búnir á því. Þetta gæti alveg orðið ágætt.

Spá: Miller hengir Guida í annarri lotu.

9. ONE Championship 98, 2. ágúst – Eddie Alvarez gegn Eduard Folayang (léttvigt)

Fyrsti bardagi Eddie Alvarez í ONE endaði hræðilega en okkar maður var rotaður í fyrstu lotu. Nú mætir hann Eduard Folayang sem er með bardagaskorið 21-7 en í hans síðasta bardaga tapaði hann fyrir Shinya Aoki. Nú þarf Alvarez að rífa upp um sig brækurnar og vinna.

Spá: Alvarez kemur sér á sigurbrautina með rothöggi í fyrstu lotu.

8. ONE Championship 98, 2. ágúst – Demetrious Johnson gegn Tatsumitsu Wada (fluguvigt)

Næsta fórnarlamb DJ í ONE er Tatsumitsu Wada frá Filippseyjum. Wada er með ferilinn 21-10-2 svo hann er með heilmikla reynslu. Hann tapað fyrstu fimm bardögunum á ferlinum svo það er ekki alveg að marka þessar tölur.

Spá: DJ sigrar með uppgjafartaki í annarri lotu.

7. UFC Fight Night 156, 10. ágúst – Vicente Luque gegn Mike Perry (veltivigt)

Þessi bardagi getur ekki orðið annað en skemmtilegur. Mike Perry er ekki endilega efni í besta bardagamann í heimi en það er gaman að horfa á hann. Vicente Luque er alltaf að verða betri og betri og er aldrei í leiðinlegum bardögum. Höggin munu flæða og blóðið mun leka, ekki missa af þessum.

Spá: Luque er einfaldlega betri, hann vinnur með uppgjafartaki í fyrstu lotu.

6. UFC Fight Night 157, 31. ágúst – Jéssica Andrade gegn Weili Zhang (strávigt kvenna)

Jéssica Andrade slammaði Rose Namajunas beint á hausinn og nú er hún meistarinn í strávigt kvenna. Stundum tekur þessi íþrótt óvæntar stefnur. Weili Zhang er ekki mjög þekkt en hún er ósigruð í UFC og hefur ekki tapað síðan í hennar fyrsta bardaga árið 2013. Hún er kínversk og þetta bardagakvöld er í Kína svo þetta er frekar lógískt þó svo að Zhang sé bara skráð nr. 6 á styrkleikalista UFC.

Spá: Zhang er hörð en Andrade er harðari. Andrada sigrar, rothögg í þriðju lotu.

5. UFC Fight Night 156, 10. ágúst – Valentina Shevchenko gegn Liz Carmouche (fluguvigt kvenna)

Þessar tvær mættust áður árið 2010 en sá bardagi var fyrsta tap Valentinu Shevchenko í MMA. Tapið var þó ekki svo slæmt en læknirinn stoppaði bardagann vegna skurðar við augað. Engu að síður var þetta tap og nú fær Valentina tækifæri til að hefna. Carmouche er hörku bardagakona en Valentina Shevchenko er meira og minna Captain Marvel.

Spá: Shevchenko fer mjög létt í gegnum Carmouche, TKO í annarri lotu.

4. UFC 241, 17. ágúst – Anthony Pettis gegn Nate Diaz (veltivigt)

Þá er það endurkoma Nate Diaz. Við sáum hann síðast í búrinu gegn Conor McGregor fyrir þremur árum. Diaz er eflaust í góðu líkamlegu formi en ætli hann verði ryðgaður? Á sama tíma erum við með Anthony Pettis sem hefur barist sex sinnum síðan þá. Diaz mun pressa, Pettis verður hreyfanlegur og ef þetta fer í gólfið getur allt gerst.

Spá: Ég er líklega í minnihluta en ég held að Pettis taki þetta, sennilega á stigum.

3. UFC 241, 17. ágúst – Yoel Romero gegn Paulo Costa (millivigt)

Þetta er algjör draumabardagi. Tveir flottustu skrokkarnir í MMA mætast, æskan á móti reynslunni, báðir stútfullir af sprengikrafti (og kannski einhverjum sérstökum vítamínum líka). Það er erfitt að sjá fyrir sér hvernig þetta mun fara sem er alltaf merki um spennandi viðureign. Costa hefur aldrei séð þriðju lotu í MMA bardaga en á móti er Romero hokinn af reynslu. Hver vinnur?

Spá: Costa er efnilegur en ég held að Romero finni leið til sigurs og taki þetta á stigum.

2. UFC on ESPN 5, 3. ágúst – Colby Covington gegn Robbie Lawler (veltivigt)

Goðsögnin Robbie Lawler er orðinn 37 ára en hann sýndi gegn Ben Askren að hann er enn hrikalega hættulegur. Colby Covington er fremstur í röðinni að titlinum í veltivigt en er að taka mikla áhættu með þessum bardaga. Colby mun reyna að glíma Lawler í drasl og það gæti virkað en er erfitt í fimm lotur. Þetta gæti orðið síðasta tækifæri Lawler til að koma sér í titilbaráttuna svo hann mun mæta tilbúinn til leiks.

Spá: Þetta verður barátta en Colby ætti að taka þetta nokkuð örugglega á stigum.

1. UFC 241, 17. ágúst – Daniel Cormier gegn Stipe Miocic (þungavigt)

Það er rúmt ár síðan Daniel Cormier rotaði Stipe Miocic og hirti beltið í þungavigt. Planið hjá DC var að berjast við Brock Lesnar og kveðja sportið fyrir fullt og allt en það gekk ekki alveg eftir. Nú er Stipe búinn að bíða og bíða og fær að launum bardagann sem hann vildi og tækifæri til að endurheimta titilinn. Nú er spurningin, verður þetta bara endurtekning eða var fyrsta rothöggið undantekningin?

Spá: DC tekur þetta aftur, að þessu sinni TKO í annarri lotu.

Óskar Örn Árnason

Comments

comments

Óskar Örn Árnason

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.