0

Spá MMA Frétta fyrir UFC 238

UFC 238 fer fram í kvöld og er bardagakvöldið gjörsamlega geggjað. Líkt og fyrir öll stóru kvöldin birta pennar MMA Frétta sína spá fyrir kvöldið.

Titilbardagi í bantamvigt: Henry Cejudo gegn Marlon Moraes

Pétur Marinó Jónsson: Mjög áhugaverður bardagi og er ég ánægður með að Moraes fái þetta tækifæri. Cejudo fær hérna tækifæri til að vera double champ en hann heldur því reyndar fram að hann verði champ-champ-champ með sigri enda tekur hann Ólympíugullið með í þeirri upptalningu (sjokker).

Eins óþolandi og Cejudo er þá er hann mjög góður og hefur verið að bæta sig hratt eftir tapið gegn DJ árið 2016. Moraes er með geggjuð spörk en það gefur Cejudo tækifæri á að grípa spörkin og taka Moraes niður. Mér finnst Cejudo samt oft vera tæpur með vörnina gegn háspörkum og gæti ég alveg séð Moraes smellhitta og rota Cejudo. Heilinn segir samt að Cejudo noti bara wrestlingið og noti fellurnar til að vinna lotur. Moraes er með fína felluvörn og góður að skrambla upp en veit ekki hvort það sé nóg gegn Cejudo. Cejudo er auk þess 5-0 í bantamvigt og barðist þar síðast 2014 þannig að hann er ekkert óvanur því að berjast í þessum flokki. Ég segi að Cejudo taki þetta bara eftir dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Þetta er rosalegur bardagi sem gæti dottið hvoru megin sem er. Báðir hafa litið svo fáranlega vel út undanfarið að það er erfitt að velja. Ég held samt að glímumeistarinn (Cejudo vann víst gull á Ólympíuleikum) taki þetta á glímunni. Það verður samt erfitt að klára Moraes. Cejudo á stigum.

Guttormur Árni Ársælsson: Frábær bardagi. Langar rosalega til þess að sjá Moraes vinna þetta og finnst Henry vera svo mikill cringe kóngur að ég myndi elska að sjá hann tapa. Frammistaðan gegn D.J. og síðan gegn T.J. var samt svo sannfærandi að það er erfitt að spá öðru en sigri fyrir gullverðlaunahafann.

Arnþór Daði Guðmundsson: Moraes er gríðarlega sterkur bardagamaður og hefur átt frábæru gengi að fagna í UFC og tímanlegt að hann sé kominn með titilbardaga í bantamvigtinni. Hérna berst hann gegn manni sem allir elska að hata, Henry Cejudo. Cejudo hefur átt frábærar frammistöður í sínum síðustu tveimur bardögum og leit virkilega vel út gegn Mighty Mouse og rotaði svo TJ Dillashaw (þrátt fyrir að sumum hefði fundist bardaginn hafa mátt ganga lengur). Þetta er samt skemmtilegur bardagi og á Cejudo möguleika á því að verða Champ-champ. Ég held að það sé að fara að gerast og hann noti glímuna vel og nái að halda Moraes í skefjum og vinni sigur á stigum.

Henry Cejudo: Pétur, Óskar, Guttormur, Arnþór
Marlon Moraes: ..

Titilbardagi í bantamvigt kvenna: Valentina Shevchenko gegn Jessica Eye

Pétur Marinó Jónsson: Mjög einhliða bardagi hjá veðbönkum og ekki að ástæðulausu. Jessica Eye segist ætla að nota wrestlingið og boxið til að vinna Shevchenko en mér finnst Valentina bara vera betri á þeim sviðum en Eye. Veit því ekki hvernig Eye ætlar að vinna þetta. Eye var 1-5 (1 NC) í bantamvigtinni og segist hafa verið of lítil í flokknum til að ná árangri. Það passar þar sem hún er 3-0 núna í fluguvigtinni og að eigin sögn nýtur hún þess að vera stærri andstæðingurinn. Ég veit ekki hvernig það á að virka hjá henni gegn Valentinu sem var líka í bantamvigtinni en þar var Valentina 3-2 í UFC og tapaði bara fyrir Amanda Nunes. Valentina er bara miklu betri en Eye er grjóthörð og stendur þetta allt af sér. Valentina vinnur eftir dómaraákvörðun eða TKO í 5. lotu.

Óskar Örn Árnason: Ég elska Valentinu og hálfpartinn þoli ekki Eye, þ.e. sem bardagakonu. Vonandi verður þetta spennandi en ég held að þetta verði mjög einhliða beatdown frá Valentinu. Shevchenko rústar Eye og nær TKO í annarri lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Valentina Shevchenko er frábær en mér finnst hún stundum ekki fá það credit sem hún á skilið – einfaldlega vegna þess að hún er svo taktísk og er ekki mikið að klára bardagana sína. Joanna sá ekki til sólar gegn Shevchenko og ég sé ekki hvernig Eye ætlar að vinna þennan bardaga. Shevchenko með TKO í þriðju.

Arnþór Daði Guðmundsson: Veit ekki, finnst þetta ekkert spennandi bardagi í ljósi þess að Bullet Valentina er að fara að pakka Jessicu Eye saman. Sé ekki að Eye sé að fara að eiga möguleika nema eitthvað stórfenglegt sé að fara að ske. Shevchenko sigrar á stigum.

Valentina Shevchenko: Pétur, Óskar, Guttormur, Arnþór
Jessica Eye: ..

Léttvigt: Tony Ferguson gegn Donald Cerrone

Pétur Marinó Jónsson: Já komiði sæl og velkomin í þennan sturlaða bardaga. Geggjaður bardagi og hálfgerð synd að þetta séu bara þrjár lotur. Það eru auðvitað margar spurningar varðandi andlega heilsu Ferguson eftir áhyggjuvaldandi frásagnir eiginkonu hans. Hann hefur samt verið að glíma við andleg veikindi síðan árið 2012 en farið leynt með það svo kannski er þetta ekkert nýtt hjá honum. Það er auðvitað stutt síðan Cerrone barðist og verður áhugavert að sjá hvernig hann kemur til leiks. Cerrone á það til að byrja hægt og hatar pressu. Ferguson byrjar alltaf af miklum krafti og pressar stíft strax. Ferguson er hins vegar oft opinn fyrir höggum og verið kýldur niður tvisvar í síðustu fjórum bardögum. Cerrone gæti svo sannarlega meitt hann ef Ferguson fer ekki varlega. Ferguson er duglegur að fara í skrokkinn og Cerrone fílar það ekkert sérstaklega vel. Það er allt opið í þessu og erfitt að segja hvað gerist! Held að Tony sé samt bara næstbesti léttvigtarmaður heims og það sé bara Khabib sem geti unnið hann. Ég held að þetta verði ógeðslega skemmtilegur bardagi en Ferguson endar á að klára Cerrone með TKO seint í 2. lotu.

Óskar Örn Árnason: Þetta verður veisla. Gaman að fá Tony aftur í búrið en vonandi er hann heill í hausnum. Ef Tony er í lagi ætti hann einfaldlega að vera betri, en hver veit, Cowboy er búinn að vera í stuði undanfarið og er helvíti skarpur í sparkboxinu. Tony gæti gengið inn í bombu og rotast en ég held að Ferguson muni koma sterkur til leiks og ganga frá kúrekanum í þriðju lotu. TKO 3. lota, Ferguson.

Guttormur Árni Ársælsson: Langt síðan ég hef verið jafn spenntur fyrir bardaga – alveg yndislegt matchup. Hef alltaf gaman af því að horfa á Tony og vona eiginlega að hann klári Cowboy sannfærandi og fái loks Khabib bardagann. Cowboy er einn af þessum gaurum sem mér finnst stundum líta út eins og heimsmeistari og svo í önnur skipti alveg flatur. Ég giska á Tony eftir einróma dómaraákvörðun í besta bardaga kvöldsins.

Arnþór Daði Guðmundsson: People’s main event. Sh*t hvað þetta verður næs. Held mikið upp á Cowboy og óska honum alls hins besta. Hins vegar held ég að ef Ferguson er orðinn heill heilsu þá sé hann of sterkur fyrir Cowboy. Cowboy virðist ætla að enda á því að vera alltaf rétt svo búinn að ná sínum markmiðum, en mistakast á örlagastundu, eins leiðinlegt og það er. Ferguson sigrar á TKO í 3. lotu.

Tony Ferguson: Pétur, Óskar, Guttormur, Arnþór
Donald Cerrone: ..

Bantamvigt: Jimmie Rivera gegn Petr Yan

Pétur Marinó Jónsson: Mikill Petr Yan aðdáandi enda elska ég að vera MMA hipster. Fíla Rivera þegar hann berst, kubbur sem er með þunga króka en rotar samt aldrei neinn og er ófeiminn við að vera í vasanum að skiptast á höggum. Yan er með geggjaða pressu og sýnir enga miskunn eins og gælunafnið hans. Rivera má ekki vera eins flatur eins og hann hefur verið í síðustu bardögum því þá mun Yan bara valta yfir hann. Yan mun stjórna pressunni og vinna eftir dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Trylltur bardagi í bantamvigt. Yan er hrikalega spennandi efni, geðveikar hendur, mikil pressa og drápseðli. Rivera er hins vegar grótharður og þarf á sigri að halda. Ég held að Yan taki þetta á betri tækni og hraða. Yan á stigum.

Guttormur Árni Ársælsson: Annar frábær bardagi. Á hvaða tímapunkti hættir það að vera hipstera-legt að spá Yan sem framtíðar meistara? Hann gerir allt svo vel og er bara svo solid á öllum sviðum. Svo berst hann alltaf eins og menn skuldi honum pening, sem er ekki verra. Minn maður Yan sigrar örugglega eftir TKO í 2. lotu og heldur áfram að þramma í átt að titli.

Arnþór Daði Guðmundsson: Geggjaður bardagi í bantamvigtinni. Rivera er að ganga í gegnum erfiða tíma eftir töp gegn Moraes og Aljamain Sterling sem báðir berjast á kvöldinu einnig. Hann á samt erfiðan ansdtæðing í Petr Yan sem hefur litið vægast sagt fáránlega vel út og er á hraðri leið á toppinn ef fram fer sem horfir. Ég hef trú á Yan og segi að hann sigri eftir dómaraákvörðun.

Jimmie Rivera:
Petr Yan: Pétur, Óskar, Guttormur, Arnþór

Þungavigt: Tai Tuivasa gegn Blagoy Ivanov

Pétur Marinó Jónsson: Tveir þungir sem eru misskemmtilegir. Tuivasa einn sá allra skemmtilegasti utan sem innan búrsins. Verður kannski aldrei einhver meistari en er skemmtilegur karakter. Ivanov er 1-1 í UFC og báðir bardagarnir voru fremur leiðinlegir. Ég veit ekki hvernig Ivanov fór að því að vinna Rothwell en það var ekkert sannfærandi við það. Þegar ég horfi á Ivanov finnst mér eiginlega magnað að hann hafi unnið 17 bardaga og bara tapað tvisvar. Finnst hann bara vera það ómerkilegur bardagamaður. Kannski á hann eftir að finna taktinn betur en ég held Tuivasa taki þetta og það verði eftir dómaraákvörðun þar sem Ivanov mun bara ekki fara niður þrátt fyrir góðar tilraunir frá Tuivasa.

Óskar Örn Árnason: Þetta verður rockem-sockem robot bardagi. Báðir vilja standa og slá og báðir eru með harða höku. Ég held að þetta fari allar þrjár loturnar og Tui taki þetta og drekki bjór úr skó í kjölfarið.

Guttormur Árni Ársælsson: Just bang bardagi kvöldsins. Tui rotar Ivanov í þriðju eftir sloppy slugfest sem allir elska. Token bjór úr stígvéli eftir bardaga.

Arnþór Daði Guðmundsson: Tuivasa er spennandi og upprenandi þungavigtargæi sem á ágætis séns á að verða stór í þyngdarflokknum. Hér berst hann á móti Blagoy Ivanov sem á tvo bardaga að baki í UFC en miklu lengri og farsælari feril heldur en bara það og erfiða sögu. Ivanov hefur reynsluna en mér líður eins og hérna muni Tuivasa gera meiri rósir. Tuivasa sigrar á TKO í 2. lotu.

Tai Tuivasa: Pétur, Óskar, Guttormur, Arnþór
Blagoy Ivanov: ..

Heildarstig ársins:

Guttormur: 14-11
Pétur: 13-12
Óskar: 13-12
Arnþór: 8-7

Pétur Marinó Jónsson

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.