Friday, April 26, 2024
HomeErlentSpá MMA Frétta fyrir UFC 241

Spá MMA Frétta fyrir UFC 241

UFC 241 fer fram í kvöld og er bardagakvöldið mjög spennandi. Líkt og fyrir öll stóru bardagakvöldin birta pennar MMA Frétta sína spá fyrir kvöldið.

Embed from Getty Images

Titilbardagi í þungavigt: Daniel Cormier gegn Stipe Miocic

Pétur Marinó Jónsson: Þetta er algjör 50/50 bardagi og hlakka ég til að sjá hvað gerist. Síðasti bardagi var ekki langur en sagði okkur þó ýmislegt. Í þeim bardaga var Stipe alltaf að koma sér í clinchið við Cormier sem mér finnst vera slæm leikáætlun. Þar er Cormier sterkastur og Stipe þarf ekkert að vera þar. Stipe ætti bara að halda sér frá Cormier, nota faðmlengdina sína og boxa við Cormier. En það sem veldur mér áhyggjum er að Stipe er að tala um núna að allt hafi gengið vel síðast fram að rothögginu og hann var að vinna þangað til hann var rotaður. Hann var vissulega að vinna síðast en mér fannst hann ekki vera að gera það skynsamlega.

Cormier er sterkastur í clinchinu og er sennilega einn sá besti í heiminum þar. Hann vill nota dirty boxing þar og buffa menn aðeins upp þar. Stipe þarf ekkert að vera að clincha við DC. Á pappírum finnst mér Stipe vera með tólin til að vinna Cormier. Ég er bara ekkert svo viss um að hann fylgi leikáætluninni sem þarf til að vinna. Ég ætla samt að hafa trú á Stipe og tippa á að hann vinni eftir dómaraákvörðun í hörku bardaga.

Óskar Örn Árnason: Mér finnst ekki ólíklegt að þetta verði talsvert ólíkur bardagi þar sem Stipe nær að halda betur fjarlægð og refsa DC með höggum og spörkum. Það er ekki ólíklegt að þetta fari fimm lotur hvernig sem þetta spilast en ég ætla samt að spá öðru rothöggi frá DC. Hann er bara svo öflugur í clinchinu og góður að koma sér í þá stöðu. Ég held að hann nái jafnvel að fella Stipe og klári hann með höggum á gólfinu.

Guttormur Árni Ársælsson: Ég er mikill aðdáandi DC og finnst hann vera flottur karakter. Svo finnst mér hann fá allt of lítið credit fyrir að hafa sigrað alla sem heita ekki Jon Jones. Að því sögðu læðist að mér sá grunur að Stipe hafi sýnt blueprint af því hvernig hann vinnur þennan bardaga í fyrsta bardaga þeirra. Eftirá að hyggja voru það mistök hjá honum að clincha við DC í fyrri bardaganum því áður en að hann byrjaði að clincha var hann að raða inn höggum á DC sem virtist ekki vera með svör. Stipe sigrar með tæknilegu rothöggi í 2. lotu.

Arnþór Daði Guðmundsson: Þetta gæti jafnvel orðið enn skemmtilegri bardagi en sá fyrsti. Þetta er sennilega í síðasta sinn sem við fáum að sjá DC í búrinu og því ættum við að njóta meðan við getum. DC er svo ótrúlega góður í MMA og hefur fallið í skuggann af Jon Jones og svo margir kunna ekki að meta hann nógu vel. Hann er nú þegar orðinn einn af þeim allra bestu í sögunni. Hvað bardagann varðar þá geri ég ráð fyrir því að Miocic reyni að halda fjarlægðinni með stungum og spörkum og komi í veg fyrir að DC komist nálægt sér til að finna clinchið eins og í síðasta bardaga eða gefi færi á fellu. Ég held bara að DC sé of góður og endi ferilinn ósigraður í þungavigt í MMA eftir þræleðlilegan DC sigur. DC tekur Miocic niður á svipaðan hátt og Dan Henderson og Alexander Gustafsson og lemur hann í tusku á gólfinu. DC með TKO í 3. lotu.

Daniel Cormier: Óskar, Arnþór
Stipe Miocic: Pétur, Guttormur

Embed from Getty Images

Veltivigt: Anthony Pettis gegn Nate Diaz

Pétur Marinó Jónsson: Þetta er mjög áhugaverður bardagi fyrir margar sakir þar sem báðir eiga bara ansi góðan séns á sigri. Ég get vel séð fyrir mér að Anthony Pettis komi inn með sterka leikáætlun, haldi sér vel hreyfanlegum, sparki mikið í Diaz og lætur ekki króa sig af. Hann gæti líka alveg bombað sköflungi í hausinn á Diaz og klárað þetta þannig.

Mér finnst samt líklegra (þ.e.a.s. ef Diaz er ekki orðinn allt annar bardagamaður eftir þriggja ára fjarveru) að Diaz þjarmi að Pettis og plati hann í smá stríð. Pettis virðist alltaf vera til í að skiptast á höggum og fara í smá slagsmál en það væri ekki góð ákvörðun gegn Nate Diaz. Ég sé fyrir mér að Pettis byrji vel en svo byrjar Diaz að saxa hann niður hægt og rólega. Þó Pettis sé flottur bardagamaður og vilji oft fara í stríð finnst mér eins og hann gefist stundum upp og vilji þetta í raun og veru ekki. Diaz drekkir honum með höggum og vinnur með tæknilegu rothöggi seint í 2. lotu.

Óskar Örn Árnason: Síðast þegar Nate Diaz barðist var Michael Bisping UFC meistari. Síðan þá hefur Pettis barist sex sinnum og ég held að það skipti máli. í þriggja lotu bardaga held ég að Pettis verði skarpari og útboxi Nate fyrstu tvær loturnar. Ég býst við að Diaz vinni síðustu lotuna en Pettis tekur þetta á stigum.

Guttormur Árni Ársælsson: Geggjaður bardagi á milli tveggja manna sem eru aldrei í leiðinlegum bardögum. Rosa langt síðan við höfum séð Nate í búrinu og þó að hann sé alltaf í góðu formi þá er hann orðinn 34 ára. Pettis er með fleiri vopn og lítur vel út í 170 pundum. Ég held að honum takist ekki að stoppa Diaz en spái því að hann sigri á dómaraákvörðun í flottum showcase bardag fyrir Showtime.

Arnþór Daði Guðmundsson: Eftir næstum 3 ár í burtu frá MMA mætir Nate Diaz aftur þar sem hann nennti ekki að berjast nema fyrir stóra bardaga sem borga vel. Og ég skil hann ósköp vel. En þetta er kannski ekki peningabardaginn sem maður hélt að hann myndi fá en mjög góður bardagi engu að síður. Pettis er á skemmtilegum stað á ferlinum, er ekki að fara að vinna belti aftur en getur haft gaman að og grætt ansi góðan pening á því að gera það sem honum finnst skemmtilegast að gera. Diaz er með langan faðm og gott box en þeir eru svipaðir á jörðinni, sérstaklega af bakinu. Pettis hefur barist meira síðustu ár og er sennilega frískari en Nate mætir góður til baka og sigrar á dómaraákvörðun.

Anthony Pettis: Óskar, Guttormur
Nate Diaz: Pétur, Arnþór

Embed from Getty Images

Millivigt: Paulo Costa gegn Yoel Romero

Pétur Marinó Jónsson: Tveir af þeim allra huggulegustu í bransanum að mætast. Gætu verið að keppa í einhverri vaxtarræktarkeppni en sem betur fer fyrir okkur mega þeir kýla hvorn annan smá. Ég er ekki ennþá alveg sannfærður um ágæti Paulo Costa. Hann byrjar alltaf geyst og hefur klárað alla bardagana sína en ég velti því fyrir mér hvað gerist þegar hann mætir alvöru stáli eins og Romero. Costa hefur aldrei farið í þriðju lotu í alvöru bardaga og mig langar að sjá hvernig hann verður þar. Costa byrjar alltaf af miklum krafti og reynir að rota sem fyrst. Romero mallar einhvern veginn hægt og rólega áfram og svæfir menn þangað til hann tekur allt í einu svakalegt fljúgandi hné. Ég held að Romero bæti við sjöunda 3. lotu rothögginu og roti þreyttan Costa í 3. lotu.

Óskar Örn Árnason: Stórkostlegur bardagi, gamla og unga kynslóðin mætast en það eru 14 ár á milli þessa manna. Costa hefur aldrei tapað og aldrei séð þriðju lotu en ég held að þessi bardagi fari alla leið í stig. Reynsla Romero mun skila honum sigri, sérstaklega ef hann notar einu sinni glímuna til góðra verka. Romero eftir dómaraákvörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Tveir gjörsamlega alnáttúrulegir töffarar mætast í hörkuslag. Romero er monster og ég er alltaf að bíða eftir því að við fáum að sjá meira wrestling frá honum. Í þau skipti þar sem hann hefur nýtt það gjörsamlega hendir hann mönnum um búrið eins og smákrökkum. Costa er með stórhættulegar hendur og ég spái því að Romero taki hann niður og klári þetta með TKO í þriðju.

Arnþór Daði Guðmundsson: USADA er að fylgjast vel með þessum bardaga. Hér er virkilega áhugaverður bardagi sem segir mikið um það á hvaða stað á ferlinum þessir tveir eru. Romero er orðinn 42 ára gamall en er auðvitað þvílíkur íþróttamaður og hjá honum er aldur bara tala. Það má aldrei taka augun af honum – annars rotar hann þig bara. Costa hefur litið vel út í UFC en hér fær hann ansi stórt próf sem ég held að verði því miður of stór biti í þetta sinn. Romero sigrar á rothöggi í 2. lotu.

Yoel Romero: Pétur, Óskar, Guttormur, Arnþór
Paulo Costa: ..

Embed from Getty Images

Fjaðurvigt: Gabriel Benitez gegn Sodiq Yusuff

Pétur Marinó Jónsson: Svona ágætlega spenntur fyrir þessum bardaga þó þetta séu kannski ekki þekktustu nöfnin. Benitez hefur barist bara sjö bardaga á fimm árum í UFC þannig að hann hefur ekki náð að byggju upp neitt momentum. Hann hefur samt klárað 18 af 21 sigri sínum og er nokkuð skemmtilegur. Sodiq Yusuff er svona prospect sem gæti farið eitthvað í fjaðurvigtinni. Það er samt meira undir fyrir Benitez. Núna er augnablikið fyrir hinn 31 árs Benitez að gera atlögu að topp 15 bardagamönnunum í fjaðurvigtinni. Yusuff er yngri og hefur tíma til að byggja upp alvöru sigurgöngu þó hann tapi í kvöld. Ég held að þetta verði nokkuð skemmtilegur bardagi en Yusuff tekur þetta eftir dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Þetta ætti að verða fjörugur bardagi og gott tækifæri fyrir þessa að láta bera á sér og auka vitund. Benítez er grjótharður en Yusuff er skarpari boxari og höggþungur að auki. Ég held að Yusuff sigri á rothöggi í fyrstu lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Vanmetinn bardagi sem ekki hefur farið mikið fyrir vegna þess hve hinir bardagarnir á kvöldinu eru spennandi. Yusuff leit rosalega vel út í DWTNCS gegn Mike Davis. Benitez er síðan mjög harður og með svona intense stíl. Ég held þó að það sé verið að byggja upp Yusuff í þessum bardaga og að hann stimpli sig rækilega inn í þyngdarflokkinn á laugardagskvöld. Yusuff með TKO í 2. lotu.

Arnþór Daði Guðmundsson: Ágætis bardagi til að hafa snemma á main cardinu og verður hægt að horfa á þessa með öðru auganu. Hef ekki fylgst mikið með Dana White Contender seríunni og veit því voða lítið en mér skilst að Yussuf sé sigurstranglegri og meiri spenna fyrir honum og ég gef honum því sigur hér í þetta sinn. Yussuf sigrar eftir dómaraákvörðun.

Gabriel Benitez: ..
Sodiq Yusuff: Pétur, Óskar, Guttormur, Arnþór

Embed from Getty Images

Millivigt: Derek Brunson gegn Ian Heinisch

Pétur Marinó Jónsson: Ég er ekki mikill Derek Brunson maður og hefur hann átt mjög misjafnar frammistöður. Ian Heinisch hefur unnið fyrstu tvo bardaga sína í UFC og það gegn sterkum andstæðingum þannig að hann hefur skotist nokkuð hratt upp stigann í millivigtinni. Hann hefur samt aðallega verið að vinna bardagana þar sem andstæðingarnir ná ekki að halda í við pace-ið sem Heinisch setur. Heinisch hefur verið undir en svo þreytast menn og þá tekur hann yfir. Ég er því ekki ennþá alveg sannfærður um að hann sé einhver topp 10 millivigtarmaður en er grjótharður. Þrátt fyrir það held ég að hann sigli þriðja sigrinum heim með grindi og vinnur eftir dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Þetta er stór stund fyrir Ian Heinsch. Hann er mjög efnilegur en ennþá nýliði í UFC. Heinisch er sterkur glímumaður en Brunson er miklu reyndari og er sömuleiðis með glímu bakgrunn. Heinisch er með mikinn meðbyr á meðan Brunson virðist vera á niðurleið. Ég held að Heinisch verði sterkari glímumaður og sigri á stigum.

Guttormur Árni Ársælsson: Flott tækifæri fyrir Heinisch gegn erfiðum andstæðingi. Ég held samt að stíllinn hans Brunson henti Heinisch ágætlega; hann á það til að sprengja mjög mikið og hvíla þess á milli á meðan Heinisch er með endalaust úthald og dregur menn í svaðið í seinni lotunum. Ég spái því að Heinisch geri það sama hér og sigri á dómaraákvörðun eftir góðan grindbardaga.

Arnþór Daði Guðmundsson: Brunson hefur haft mjög fínan feril en á sama tíma mjög ómerkilegan feril í UFC. Hann hefur verið í topp 10 en á sama tíma veit maður að hann mun aldrei vinna belti. Hér er hann notaður sem eins konar hliðvörður til að gefa Heinisch erfitt próf til að sjá hvar hann stendur. Brunson er góður glímumaður sem reiðir sig mikið á sprengikraftinn og ég sé hann rota Heinisch og setja smá pásu á hæpið á bakvið Heinisch. Brunson sigrar á TKO í 2 lotu.

Derek Brunsons: Arnþór
Ian Heinisch: Pétur, Óskar, Guttormur

Heildarstig ársins:

Guttormur: 25-15
Óskar: 25-15
Pétur: 25-15 
Arnþór: 19-11

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular