Tuesday, May 21, 2024
HomeErlentSpá MMA Frétta fyrir UFC 244

Spá MMA Frétta fyrir UFC 244

UFC 244 fer fram í kvöld í Madison Square Garden. Þeir Nate Diaz og Jorge Masvidal mætast í aðalbardaga kvöldsins en líkt og fyrir öll stóru kvöldin birta pennar MMA Frétta sína spá fyrir kvöldið.

BMF titill: Jorge Masvidal gegn Nate Diaz

Pétur Marinó Jónsson: Ég held að þetta verði langt stríð og mun hvorugur gefa neitt eftir. Jorge Masvidal er frábær bardagamaður með fáa veikleika. Hann er með gott box, góð spörk, góðar fellur, góða felluvörn og auðvitað grjótharður. Ég held að hann haldi sér í smá fjarlægð og raði inn höggunum í Diaz til að byrja með. Diaz kemst síðan betur inn í bardagann og notar dirty boxing til að blóðga Masvidal í clinchinu. Þetta verður fram og til baka en Masvidal er nógu harður til að standa af sér mikið magn af höggum frá Diaz. Ég held að Masvidal sé ekkert að fara að panikka þó Diaz sé að reyna að drekkja honum og nær því að sigla þessu heim. Masvidal eftir dómaraákvörðun í frábærum bardaga.

Guttormur Árni Ársælsson: Frábær bardagi um BMF beltið. Það er ekki mikið að frétta á toppnum í veltivigtinni þessa dagana og því flott að geta hent þessum bardaga upp – tveir grjótharðir náungar sem kunna að selja bardaga. Diaz leit mjög vel út í sínum síðasta bardaga eftir þriggja ára hlé og tókst einhvern veginn að drekkja Pettis algjörlega. Ég held að Masvidal sé of klár counter striker til að lenda í þeirri gildru og segi að Masvidal klári þetta eftir dómaraákvörðun í frábærum bardaga.

Óskar Örn Árnason: Það lítur út fyrir að við séum að fara að fá þennan geggjaða bardaga þrátt fyrir hindranir. Þessir gæjar eru báðir BMF og þurfa í raun engan sérstakan titil en það er samt gaman. Ég held að bardaginn verði 90% standandi og ég held að Masvidal verði almennt beittari og komi inn betri höggum. Hann mun blóðga Diaz og annað hvort stoppar læknirinn bardagann eða Diaz þraukar og Masvidal tekur þetta á stigum. Segi samt Masvidal með TKO í 4. lotu.

Arnþór Daði Guðmundsson: Loksins er komið að þessu. Þessir tveir hafa í mörg ár verið í harkinu og eiga það skilið að vera loksins komnir á þennan stað sem þeir eru á í dag. Þetta er bardaginn sem bæði við og þeir eiga skilið. Masvidal er loksins kominn út úr þeirri skel að tapa heimskulega eftir dómaraákvörðun og er orðinn stórhættulegur rotari. Diaz hefur minna breyst, en það er ára í kringum hann sem hefur orðið sterkari. Diaz þarf að pressa Masvidal og loka fjarlægðinni en á sama tíma á hann í hættu á því að éta högg til þess að komast inn sem er hættulegt á móti manni eins og Masvidal. Masvidal vill sennilega ekki fá bardagann niður í jörðina sem þýðir að hann þarf að halda Diaz frá sér með stungu og spörkum. Masvidal þarf að gera það sem þarf að rota Diaz sem er eina leiðin til að stoppa hann. Masvidal sigrar með tæknilegu rothöggi í 3. lotu.

Jorge Masvidal: Pétur, Óskar, Guttormur, Arnþór
Nate Diaz: ..

Millivigt: Darren Till gegn Kelvin Gastelum

Pétur Marinó Jónsson: Eins og með flesta bardaga á kvöldinu er ég rosalega 50/50 hver vinnur þetta. Þetta er mjög hættulegur bardagi fyrir Darren Till enda kemur hann af tveimur töpum. Gastelum getur vel komist inn og smellhitt Till. Þriðja tapið í röð væri hrikalegt fyrir Till og sérstaklega ef það væri annað rothögg. Ég held samt að hann komi bara vel agaður til leiks og noti spörkin vel í sinni fjarlægð. Ég held að þetta verði hörku bardagi þar sem báðir munu eiga sín augnablik en held að Till vinni eftir klofna dómaraákvörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Ég er hrifinn af Gastelum og held að hann eigi helling inni. Að sama skapi hefur mér þótt Till vera ýtt fram aðeins of hratt og hef ekki séð neitt frá honum í seinustu bardögum sem bendir til þess að hann sé topp millivigtarmaður. Till er þó stór og sterkur og alltaf hættulegur. Giska á Gastelum eftir dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Ég hef slæma tilfinningu fyrir þesum, þ.e. fyrir hönd Darren Till. Hann má eiga það að hann er hugrakkur, þyngir sig upp í millivigt og ræðst strax á einn af þeim bestu þrátt fyrir slæm töp undanfarið. Það væri gaman að sjá Till næla sér í sigur og koma ferskur inn í millivigt en ég er hræddur um að Gastelum komi inn rothögginu. Segi að Kelvin roti hann í annarri lotu.

Arnþór Daði Guðmundsson: Maður veit ekki hvernig niðurskurðurinn á eftir að hafa áhrif á báða menn – sem er fáránlegt í ljósi þess að báðir kepptu áður í veltivigt. Gastelum þurfti að fara úr nærbuxunum og samkvæmt nýjustu fréttum virtist hann styðja sig við þjálfara sinn til þess að ná tilsettri vigt. Á meðan kom Darren Till rosalega seint til leiks og það er spurning hvaða áhrif það hefur haft á niðurskurðinn hjá honum. Bardaginn sem slíkur er einnig áhugaverður. Till er hærri og frábær boxari á meðan Gastelum hefur sýnt að hann er einn sá besti í þyngdarflokknum og á bardaga gegn erfiðari andstæðingum gegn Till á ferilskránni. Gastelum gæti þurft að nýta sér fellurnar til þess að landa sigri. Gastelum gæti þó átt í hættu með að vera counteraður af Till sem er frábær í að lesa fjarlægðina og tímasetja högginn. Till hefur samt ekki litið vel út í síðustu tveimur bardögum sínum en hann var rotaður í báðum. Gastelum sigrar eftir dómaraákvörðun.

Darren Till: Pétur
Kelvin Gastelum: Óskar, Guttormur, Arnþór

Veltivigt: Vicente Luque gegn Stephen Thompson

Pétur Marinó Jónsson: Þetta verður mjög áhugaverður bardagi. Ég er mjög spenntur fyrir þessu og alls ekki viss um hvernig þetta fer. Stephen Thompson er orðinn 36 ára gamall og var rotaður í fyrsta sinn í febrúar af Anthony Pettis. Hann hefur verið sleginn niður oft undanfarin ár (Till og Woodley bardagarnir) sem bendir til að hraðinn sé orðinn aðeins minni hjá honum og fótavinnan hægari. Hakan verður heldur aldrei betri með aldrinum og get ég vel séð Vicente Luque smellhitta hann. Thompson er bara ekki nógu góður að klára bardaga sína þessa dagana og er því alltaf að skilja möguleikann eftir á að láta rota sig. Ég býst við að Luque sparki mikið í lappirnar á Thompson til að hægja á fótavinnunni hans með von um að rota hann seint í bardaganum. Ég get vel séð það gerast. EN! Thompson var að vinna Pettis áður en hann var rotaður og ég held að hann sé ennþá með þetta. Langt í frá sannfærður en segjum Thompson eftir dómaraákvörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Luque er spennandi prospect sem er búinn að klára næstum alla UFC bardagana sína. Tap gegn Leon Edwards og klofin dómaraákvörðun gegn Mike Perry í síðasta bardaga eru nánast eini mótbyrinn sem hann hefur lent í. Wonderboy er alltaf spennandi en spurning hvort að aldurinn sé farinn að segja til sín. Ég ætla að fylgja hjartanu og segja Wonderboy með headkick KO í 2. lotu.

Óskar Örn Árnason: Skemmtilegt clash of styles sem mætist hér. Luque er á þvílíkri siglingu, hann getur rotað og subbað og gæti náð langt. Wonderboy er klárlega erfiðasta próf Luque til þessa og risastórt tækifæri fyrir hann. Ég held Thompson verði nautabani í þessum bardaga og sigri nokkuð örugglega á stigum.

Arnþór Daði Guðmundsson: Þetta er spennandi bardagi hjá tveimur bardagamönnum sem eru á svipuðu getustigi eins og er. Við sjáum í kvöld hvort hinn 36 ára gamli Thompson sé á niðurleið eða ekki eða hvort Vicente Luque sé bara ennþá að verða betri en hann hefur litið frábærlega út og á nokkra frábæra sigra í UFC. Ég held að Thompson sé ennþá nógu góður til að sigra Luque og sýna fram á að Luque á ennþá smá eftir í að sigra toppbardagamann. Thompson sigrar á stigum.

Vicente Luque: ..
Stephen Thompson: Pétur, Óskar, Guttormur, Arnþór

Þungavigt: Derrick Lewis gegn Blagoy Ivanov

Pétur Marinó Jónsson: Þetta er bardagi sem gæti gefið okkur skemmtilegt rothögg eða orðið leiðinlegur þriggja lotu þungavigtarbardagi. Derrick Lewis er ótæknilegasti bardagamaður UFC og treystir bara á kraftinn í höggunum. Blagoy Ivanov er ekki spennandi bardagamaður en hann er tæknilega betri. Ivanov getur setið til baka og counterað Lewis og haldið sig frá bombunum frá Lewis sem verður ekkert sérstaklega skemmtilegt. Ég segi Ivanov eftir dómaraákvörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Alltaf gaman af Derrick Lewis en stóra spurningarmerkið er hvort að bakið á honum sé í lagi. Það er alltaf eitthvað að angra hann og verður mikilvægur faktor á laugardaginn. Blagoy Ivanov er mesta James Bond vondukalla nafn sem ég hef heyrt en ég ætla að spá því að Lewis klári þetta með rothöggi í fyrstu.

Óskar Örn Árnason: Minnst spennandi bardagi kvöldsins. Lewis virkar þó í góðu formi svo vonandi gasar hann ekki eins fljótt eins og svo oft áður. Ivanov er seigur en ég held að Lewis eigi að ráða við hann og halda honum frá með þungum höggum. Lewis á stigum eða seint rothögg.

Arnþór Daði Guðmundsson: Það er yfirleitt gaman að horfa á Derrick Lewis berjast, þ.e þegar hann nær að rota einhvern. En ef hann gerir það ekki þá er það eins og bardaginn hans gegn Ngannou. Iganov átti erfiða frumraun í UFC gegn Junior Dos Santos en náði svo góðum sigrum gegn Ben Rothwell og Tai Tuivasa. Hans helsti möguleiki gegn Lewis er að gera bardagann ljótan og erfiðan og reyna að þreyta Lewis. Ég held samt að Lewis nái að sigra á enn einu rothögginu ef bakið verður ekki að trufla hann eins og oft áður.

Derrick Lewis: Guttormur, Óskar, Arnþór
Blagoy Ivanov: Pétur

Léttvigt: Kevin Lee gegn Gregor Gillespie

Pétur Marinó Jónsson: Ég hef aldrei verið seldur á að Kevin Lee sé einhver topp 5 gæji. Hann gasaði í léttvigt, fór upp í veltivigt og gasaði þar líka. Hann virðist nota svo mikinn styrk og kraft í fellunum sínum að hann þreytist og vantar kannski vopnabúrið til að ógna með öðrum leiðum. Það má samt ekki gleyma því að Kevin Lee missti yfirþjálfara sinn, Robert Font, þegar hann svipti sig lífi og hefur Lee verið stefnulaus síðan þá. Núna er hann kominn til Tristar og gæti ég alveg séð hann taka miklum framförum þar. Gregor Gillespie er geggjaður glímumaður og mun betri glímumaður á pappírum heldur en Lee. Þetta er samt MMA og þar er glíman öðruvísi. Ég held að þetta verði bardagi þar sem sá sem nær fellunni fyrst í hverri lotu vinnur lotuna. Báðir verða eins og lím við hvorn annan og er ég nokkuð spenntur fyrir að sjá það. Ég er mikill Gillespie maður og tippa á að Gillespie vinni eftir dómaraákvörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Alvöru prófraun fyrir hinn ósigraða Gillespie sem er búinn að valta í gegnum alla sem UFC hafa sett fyrir framan hann hingað til. Kevin Lee hefur sýnt frábær tilþrif inn á milli en er mjög óstöðugur. Ég segi að Gillespie stimpli sig almennilega inn á toppinn í léttvigtinni og klári Lee eftir ground and pound í þriðju.

Óskar Örn Árnason: Ég er hrikalega spenntur fyrir Gregor Gillespie og hlakka til að sjá hann reyna að klífa stigann í léttvigt. Kevin Lee er góður en hefur valdið vondbrigðum svo spurningin er hvort hann sé nógu góður fyrir þá allra bestu. Ég held að Lee eigi ekki svar við glímu Gillespie sem tekur þetta örugglega á stigum.

Arnþór Daði Guðmundsson: Gillespie hefur litið vel út í UFC og sigraði Yancy Medeiros í síðasta bardaga sínum. Lee er einnig kominn aftur í léttivigtina eftir fremur misheppnaða tilraun í veltivigt gegn Rafael dos Anjos. Þetta gæti orðið spennandi bardagi en ég held að Gillespie taki sigurinn í erfiðum bardaga eftir dómaraákvörðun.

Kevin Lee: ..
Gregor Gillespie: Pétur, Óskar, Guttormur, Arnþór

Heildarstig ársins:

Óskar: 36-25
Pétur: 34-27
Guttormur: 34-27 
Arnþór: 29-16

Previous article
Next article
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular