Það er komið að þessu! Gunnar Nelson berst í kvöld! Líkt og vanalega birta pennar MMA Frétta sína spá fyrir kvöldið og byrjum við á mikilvægasta bardaganum í huga Íslendinga.
Veltivigt: Gunnar Nelson gegn Gilbert Burns
Pétur Marinó Jónsson: Erfitt matchup fyrir Gunna, engin spurning um það. Með fullri virðingu fyrir Thiago Alves þá fannst mér það vera skyldusigur fyrir Gunna og bjóst við að það yrði bara nokkuð þægilegt. Núna er staðan allt önnur þar sem Gunni er að fara á móti töluvert erfiðari andstæðingi og er meira að segja underdog hjá veðbönkum. Ég held að það sé nokkuð ljóst að Gunni er ekki að fara vinna með hefðbundnu leiðinni sinni – taka andstæðinginn niður og klára í gólfinu. Ég held að til að klára Burns í gólfinu þá verði hann að vanka hann fyrst. Hann gæti svo sem gert það í gólfinu með olnbogunum sínum en þá þarf hann að komast í yfirburðarstöðu og það verður ekkert auðvelt gegn Gilbert Burns.
Ég held að Gunni sé hraðari og nákvæmari standandi en Burns sennilega með meira power. Er smá hræddur um að Burns eigi eftir að vilja glíma mikið fyrstu lotuna til að taka aðeins hraðann úr Gunna standandi því ég held að Gunni geti smellhitt standandi með hröðum höggum. Gunni hefur líka aldrei verið þekktur fyrir að vera mikill volume puncher á meðan Burns er aktívari standandi. Ef þetta helst standandi gæti Burns tekið þetta með því að gera einfaldlega aðeins meira.
Þar sem báðir eru svo góðir glímumenn munu smáatriðin skipta máli í gólfinu en báðir hafa sagst vilja taka bardagann þangað. Ég held að þetta verði hrikalega erfiður bardagi. Það væri klikkað ef Gunni myndi bara negla hann niður með höggum og taka eitt gott TKO en ætla að vera aðeins rólegri í spá minni og segja að Gunni sigli þessu heim bara með smá seiglu. Gunni vinnur tvær lotur og vinnur þar af leiðandi eftir dómaraákvörðun í hörku bardaga.
Óskar Örn Árnason: Ég held ég verði að halda mig við fyrri spá, vona svo innilega að hún rætist ekki. Eftir að hafa rifjað upp nokkra Burns bardaga er ég á því að þessi stíll henti Gunnari illa. Í fyrsta lagi er hann betri glímumaður (á pappírunum) og í öðru lagi er hann mjög vinnusamur standandi sem gerir það mjög erfitt að vinna á stigum. Ég held því að Burns vinni á stigum en held í vonina að Gunnar roti hann.
Guttormur Árni Ársælsson: Ég er mjög stressaður fyrir þennan bardaga. Burns er miklu sterkari andstæðingur en Alves og ég held að Burns sé mun verra match-up fyrir hann hvað stílinn varðar. En ég hef sömuleiðis á tilfinningunni að Gunni sé mjög afslappaður fyrir þennan bardaga og komi inn í góðu standi. Gunni klárar þetta óvænt með KO eftir question mark kick í 2. lotu.
Gunnar Nelson: Pétur, Guttormur
Gilbert Burns: Óskar
Millivigt: Jack Hermansson gegn Jared Cannonier
Pétur Marinó Jónsson: Fíla Jack Hermansson og kom sigur hans gegn Jacare verulega á óvart. Held hann sé að festa sig í sessi sem topp bardagamaður í millivigtinni. Ég er aftur á móti ekki alveg seldur á að Cannonier sé topp 10 bardagamaður. Hann hefur unnið David Branch og Anderson Silva en sigurinn á Silva var ekkert svo magnaður þannig að ég á ennþá eftir að sjá að hann sé topp 10 gæji. Cannonier er þó mjög höggþungur sem gerir hann hættulegan standandi. Þó Hermansson sem góður standandi þá held ég að hann vilji ekkert mikið standa með honum fyrst um sinn. Held að Hermansson sé einfaldlega betri bardagamaður. Hermansson tekur þetta með uppgjafartaki í 2. lotu, rear naked choke.
Óskar Örn Árnason: Hermannsson hefur litið mjög vel út upp á síðkastið og þetta er hans stóra stund, næstum á heimavelli. Cannonier er erfiður andstæðingur en ég held að Hermannsson sigli þessu í höfn. Segi að Jack klári þetta með submission í annarri lotu.
Guttormur Árni Ársælsson: Hermannsson er flottur og ég held uppá hann. Þurfti virkilega að grafa djúpt gegn Thales Leites og sigraði hann rifbeinsbrotinn. Ég held að hann mæti ákveðnari og klári Cannonier með TKO í 2. lotu.
Jack Hermansson: Pétur, Óskar, Guttormur
Jared Cannonier: ..
Léttvigt: Mark Madsen gegn Danilo Belluardo
Pétur Marinó Jónsson: Heimamaðurinn Mark Madsen fær bardaga sem hentar honum nokkuð vel. Madsen er frábær glímumaður sem tók silfur á Ólympíuleikunum 2016 og er 8-0 í MMA. Danilo Belluardo tapaði í frumraun sinni í UFC en leit vel út áður en hann var rotaður. Belluardo á það til að brotna undan pressu og það hentar Madsen vel. Held að heimamaðurinn búi til geggjaða stemningu í höllinni með sigri í 2. lotu, TKO í gólfinu.
Óskar Örn Árnason: Ég er pínu pirraður að þessi bardagi sé co-main, sviðsljósinu stolið af okkar manni. Madsen er jú Dani en hann hefur aldrei barist í UFC og Belluardo hefur barist einu sinni og tapað. Ég veit ekkert um þessa menn, segi bara að Madsen roti Belluardo í fyrstu lotu.
Guttormur Árni Ársælsson: Það er alveg grillað að þessi bardagi sé co-main event en ekki Gunni. UFC frumraun gegn gæja með einn bardaga í UFC. En hvað um það. Madsen er spennandi, silfurmedalíuhafi á Ólympíuleikunum í glímu. Hann tekur Belluardo í kennslustund í fellum og sigrar eftir dómaraákvörðun.
Mark Madsen: Pétur, Óskar, Guttormur
Danilo Belluardo: ..
Léttþungavigt: Ion Cutelaba gegn Khalil Rountree Jr.
Pétur Marinó Jónsson: Cutelaba er svo rosalega misjafn en það er alltaf gaman að horfa á hann. Hann er góður glímumaður en á það til að gasa. Khalil er að þróast skemmtilega og gæti orðið virkilega góður bardagamaður. Ég held að Cutelaba komi dýrvitlaus inn og nái einhverjum flottum fellum í 1. lotu. Hann gasar síðan aðeins í 2. lotu og Khalil klárar hann með rothöggi í 3. lotu.
Óskar Örn Árnason: Þetta er bardagi sem ég er mjög spenntur fyrir, fyrst og fremst til að sjá Rountree aftur. Hann var stórkostlegur gegn Eryk Anders og ég er forvitinn að sjá hvað han kemst langt með þessum hyper Muay Thai stíl. Cuțelaba er grjótharður en frekar hrár. Ég held að Rountree sparki Cuțelaba í sundur og roti hann í þriðju lotu.
Guttormur Árni Ársælsson: Rountree er á góðu skriði og betri en Cutelaba. Heggur hann niður og sigrar á stigum.
Ion Cutelaba: ..
Khalil Rountree: Pétur, Óskar, Guttormur
Léttþungavigt: Michal Oleksiejczuk gegn Ovince St. Preux
Pétur Marinó Jónsson: Þetta er annar mjög áhugaverður bardagi í léttþungavigt. Michal er efnilegur, bara 24 ára gamall, á meðan OSP er reynslubolti sem hefur fallið neðar í goggunarröðina. Þetta er smá próf til að kanna hvort Michal sé tilbúinn í topp 15 í léttþungavigtinni. Það er alltaf erfitt að treysta OSP þar sem hann er svo rosalega misjafn. Hann getur verið geggjaður en getur líka verið ömurlegur og ekki gert neitt í 15 mínútur. Er ekki alveg seldur á Michal en held hann nái að gera bara meira en OSP og vinnur eftir dómaraákvörðun.
Óskar Örn Árnason: Ekki svo spenntur fyrir þessum. Það er smá séns að þetta verði geggjað slugfest en sjáum til. Í mínum huga er þetta spurning um hversu mikið OSP á eftir. Hann gæti mögulega tekið þetta á glímunni en ég ætla að skjóta á rothögg frá Oleksiejczuk í annarri lotu.
Guttormur Árni Ársælsson: Örugglega minnst spennandi bardagi kvöldsins. OSP er seigur en hefur aðeins dalað. Ég held þó að reynslan skili honum sigri og hann nær að merja þetta eftir klofna dómaraákvörðun.
Michal Oleksiejczuk: Pétur, Óskar
Ovince St. Preux: Guttormur
Veltivigt: Nicolas Dalby gegn Alex Oliveira
Pétur Marinó Jónsson: Er mjög spenntur fyrir þessum bardaga og held að þetta verði frábær bardagi. Það er svo auðvelt að halda með Dalby og mann langar svo innilega að hann vinni. Það er erfiðara að halda með Oliveira enda á hann það til að brjóta nokkrar reglur og gera þetta allt smá dirty. Ég held að Oliveira muni berja af miklum krafti eins og hann gerir alltaf, meiða og vanka Dalby en Daninn harkar af sér fyrir framan landa sína. Dalby kemur síðan sterkur til baka en það verður ekki alveg nóg og tapar eftir klofna dómaraákvörðun. Held með Dalby en tippa á Oliveira.
Óskar Örn Árnason: Gaman að sjá Dalby aftur í UFC. Líka gaman að sjá Oliveira aftur en gamlir andstæðingar Gunnars eru alltaf hálfpartinn eins og gamlir vinir. Ég býst við villtum og skemmtilegum bardaga. Ætla að skjóta á uppgjafartak frá Oliveira í annarri lotu.
Guttormur Árni Ársælsson: Mikill aðdáandi Dalby og frábært að sjá hann aftur í UFC. Oliveira er sprækur eins og við sáum í fyrstu lotunni gegn Gunna og reynist of mikið fyrir Dalby. Oliveira rotar hann í þriðju.
Nicolas Dalby: ..
Alex Oliveira: Pétur, Óskar, Guttormur
Heildarstig ársins:
Pétur: 31-19
Guttormur: 31-19
Óskar: 30-20
Arnþór: 26-14