spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentSpá MMA Frétta fyrir UFC London

Spá MMA Frétta fyrir UFC London

Það er komið að því! Gunnar Nelson berst í kvöld í London! Líkt og fyrir öll stóru kvöldin birta pennar MMA Frétta sína spá fyrir kvöldið.

Veltivigt: Darren Till gegn Jorge Masvidal

Pétur Marinó Jónsson: Þetta ætti að verða hörku bardagi. Darren Till gæti verið í millivigt og Jorge Masvidal var í léttvigt en samt finnst mér ekki vera neitt svaka stærðarmunur á þeim eins og ég bjóst við að yrði (Till 183 cm á hæð með 189 cm faðmlengd og Masvidal 180 cm á hæð með 188 cm faðmlengd). Till þarf aðeins að rífa sig í gang eftir slæma frammistöðu gegn Tyron Woodley og fær hér fínt tækifæri til þess. UFC vill ekkert meir en að fá breska stjörnu eftir að Bisping hætti og Till getur orðið þessi stjarna. Til þess þarf hann að fara í gengum Jorge Masvidal og býst ég við að hann geri það. Masvidal er mjög góður bardagamaður. Hann er með gott box, gott wrestling og tókst að koma sér úr slæmum stöðum í gólfinu gegn Demian Maia. Hann er líka svo grjótharður og með ógeðslega harða höku að það er alltaf erfitt að klára Masvidal. Hann á það þó til að taka fótinn af bensíngjöfinni og detta í takt þar sem hann gerir lítið sem ekkert. Ég held að Till fái að stjórna taktinum og taki þetta eftir dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Þvílík pressa á Till fyrir þennan bardaga. Ég held að þetta verði standandi bardagi. Masvidal er eitraður en Till nær að forðast bombur og Masvidal gerir ekki nóg (eins og venjulega) og Till sigrar á stigum.

Guttormur Árni Ársælsson: Það er mikil Pressa á Darren Till enda á heimavelli og tapaði illa síðast. Till nýtir stærðina og tekst að squeeza út sigur eftir dómaraákvörðun

Arnþór Daði Guðmundsson: Djöfull sem ég elska og hata Masvidal á sama tíma. Ég held samt með Till og er nánast jafn svipað spenntur fyrir því að sjá hann labba út og crowdið að öskursyngja Sweet Caroline með honum. Hann hefur margt að sanna eftir tapið gegn Woodley og ég held að Masvidal sé ágætis andstæðingur fyrir hann á þessum tímapunkti. Hann er ekki eins calculated og Wonderboy eða Woodley og er meiri brawler sem Till gæti átt auðvelt með að countera. Ég hugsa að við fáum svipað clinic og á móti Cowboy, nema það gæti tekið örlítið lengri tíma að klára Masvidal.
 Till sigrar á TKO í 3. lotu.

Darren Till: Pétur, Óskar, Guttormur, Arnþór
Jorge Masvidal: ..

Gunnar Nelson Gunni Leon Edwards

Veltivigt: Leon Edwards gegn Gunnar Nelson

Pétur Marinó Jónsson: Svo ofboðslega mikilvægur bardagi á mikilvægum tímapunkti á ferlinum hjá okkar manni. Hann bara verður að ná upp sigurgöngu núna til að komast alla leið! Leon Edwards er ekkert sérstaklega stórt nafn eða vinsæll bardagamaður. Hann er samt frábær bardagamaður sem gerir fá mistök, er mjög stöðugur í sínum leik, með mjög góða felluvörn, góður að vinna lotur og lendir sjaldnast í vandræðum. Það er ástæða fyrir því að Edwards er búinn að vinna sex bardaga í röð og hefur bara tapað í UFC fyrir Kamaru Usman (ríkjandi meistari) og Claudia Silva eftir klofna dómaraákvörðun í sínum fyrsta bardaga í UFC. Edwards er með kraft sem Gunnar þarf að passa sig á en mér finnst samt Gunnar allan daginn líklegri til að klára bardagann. Hann er bara með þannig vopnabúr að Gunnar getur alltaf klárað bardagann með snöggum höggum standandi eða með hengingu í gólfinu. Edwards notar glímuna ágætlega mikið í sínum bardögum en mun sennilega forðast það í þessum bardaga. Ég held að þetta verði algjört GRIND! Gunni mun þurfa að hafa mikið fyrir þessu og þetta verður erfitt. Gunni mun samt sigla þessu heim á endanum. Held að Gunni vinni fyrstu tvær loturnar með því að ná Edwards niður en ekki ná að klára í gólfinu. Edwards kemur svo aðeins til baka í 3. lotu en Gunni vinnur á endanum eftir dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Þetta er 50/50 bardagi í mínum huga. Ég held að þetta verði stöðubarátta fram og til baka, standandi og á gólfinu í bland. Held að þetta fari í stig, Gunnar sigrar eftir klofna dómaraákvörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Ég held að Edwards sé að vanmeta Gunna standandi. Ég held að Gunni nái einhverju crisp combo snemma og þá verði smá panik hjá Edwards. Gunni klára hann með TKO í fyrstu lotu.

Arnþór Daði Guðmundsson: Shit hvað maður verður alltaf stressaður þegar Gunni er að fara að berjast. Maður er alltaf að pæla í mynstrinu hjá Gunna sem hefur verið þannig að þegar hann er einmitt að komast á flug þá einhvern veginn klúðrast allt og hann tekur nokkur skref til baka. Hann er samt í góðu standi, hausinn í lagi og ég held að hann muni ná að sigra Edwards. Hann mun svo í leiðinni líta hrikalega vel út og minna á sig í veltivigtinni. Ég held að bardaginn muni fara svipað og bardaginn gegn Jouban þar sem Gunni var svolítið passívur að mæla út Jouban og svo stekkur hann inn með killer og klárar í gólfinu, það er uppskriftin. Klassískt Gunna-RNC í 2. lotu.

Leon Edwards:
Gunnar Nelson: Pétur, Óskar, Guttormur, Arnþór

Léttþungavigt: Volkan Oezdemir gegn Dominick Reyes

Pétur Marinó Jónsson: Ég er ógeðslega spenntur fyrir Dominick Reyes. Bind miklar vonir við að hann geti orðið smá nafn í léttþungavigtinni. Aftur á móti hef ég aldrei verið neitt rosalega sannfærður um að Volkan Oezdemir sé einhver topp 3 gæji í léttþungavigt. Hann er góður en finnst hann ekki vera meðal þeirra allra bestu. Ég held að Dominick Reyes geti verið þar og held hann taki Volkan í kvöld. Þetta verður kannski ekki besti bardagi allra tíma en held að Reyes geri það sem þarf til að vinna og geri það eftir dómarákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Held að þetta verði fight of the night. Höggin munu fljúga, bombum varpað og allt að. Segi að Reyes roti Volkan í fyrstu lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Tveir rotarar, þessi verður geggjaður. Segi Reyes með KO í 2. lotu.

Arnþór Daði Guðmundsson: Þetta er spennandi bardagi með stóru S-i. Báðir hafa litið bilað vel út í léttþungavigtinni og eru spennandi til framtíðar litið. Oezdemir er með bilaðan höggþunga og gæti rotað hvern sem er á no time. Hins vegar náði DC að núlla hann út og svo tapaði hann aftur gegn Anthony Smith í október. Hann hefur því margt að sanna til þess að koma sér aftur á rétta braut. Reyes hefur á meðan náð að vinna alla bardaga sína í UFC og litið vel út. Ég held að hann hafi sjálfstraustið með sér og hungrið í að sigra og muni því bera sigur úr býtum ef hann nær að koma sér hjá stærstu bombunum frá Oezdemir. Hann mýkir hann með spörkum og nær svo að klára Oezdemir í 3. lotu eftir barsmíðar.

Bantamvigt: Nathaniel Wood gegn José Alberto Quiñónez

Pétur Marinó Jónsson: Ég er mjög spenntur fyrir Wood og hef gaman af hæpinu í kringum hann. Jose Alberto Quinonez er fínasti bardagamaður sem hefur unnið fjóra bardaga í röð. Ég held að Wood klári Quinonez með tæknilegu rothöggi í 2. lotu og áhorfendur tryllast!

Óskar Örn Árnason: Veit ekkert um þessa. Skýt á Quiznos á stigum.

Guttormur Árni Ársælsson: Wood er efnilegur. Hann sigrar á stigum.

Arnþór Daði Guðmundsson: Wood er stimplaður sem næsta vonarstjarna Breta á eftir Darren Till og hann er undir handleiðslu goðsagnarinnar Brad Pickett. Ég sá síðasta bardaga hjá Wood þar sem hann leit ágætlega út. Ég finn það á mér að þetta muni verða breskt kvöld þar sem heimamenn muni sigra sína bardaga, það er svolítið stemningin (nema í bardaganum hans Gunna vonandi.) 
Wood nær að endurtaka síðasta bardaga sinn og læða inn sneaky submission í síðustu lotunni. Tippa á guillotine í 3. lotu.

Nathaniel Wood: Pétur, Óskar, Guttormur, Arnþór
Jose Albert Quinonez: ..

Veltivigt: Danny Roberts gegn Cláudio Silva

Pétur Marinó Jónsson: Þetta er svona ekta striker vs. grappler bardagi. Silva er orðinn 36 ára gamall og lítið barist undanfarin ár vegna meiðsla. En hann er samt 11-1 og hans eina tap var í fyrsta bardaga ferilsins. Silva kom mér verulega á óvart með sínum síðasta sigri gegn Nordine Taleb og ég fíla hann bara nokkuð vel. Ég held að Silva taki þetta með uppgjafartaki í 1. lotu.

Óskar Örn Árnason: Þessi ætti að verða fjörugur. Ég ætla að taka Silva, TKO í annarri lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Silva tekur þetta á stigum í daufum bardaga.

Arnþór Daði Guðmundsson: Silva hefur verið mikið í burtu vegna meiðsla en hefur átt ágætis feril og meðal annars sigrað Nordine Taleb og Leon nokkurn Edwards. Silva er eflaust hættulegri í gólfinu á meðan Roberts er klárlega betri striker. Ég hugsa að Roberts muni hafa heimamenn með sér í liði og fljóta langt á adrenalíninu og ná inn TKO í 2. lotu.

Danny Roberts: Arnþór
Claudio Silva: Pétur, Óskar, Guttormur

Millivigt: Jack Marshman gegn John Phillips

Pétur Marinó Jónsson: Sá sem tapar hér mun líklegast vera látinn fara úr UFC. Jack Marshman getur staðið og skipst á höggum en ég held hann muni ekki vilja gera það gegn John Phillips. Phillips er skemmtilegur karakter með mikinn höggþunga en hefur tapað báðum bardögum sínum í UFC. Maður vonast auðvitað til að þeir standi bara og skiptist á höggum því það verður svo skemmtilegt. En held að Marshman verði bara þokkalega skynsamur og nota glímuna til að sigla kærkomnum sigri heim. Marshman eftir dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Gæti kastað upp á krónu. Tek Phillips á stigum.

Guttormur Árni Ársælsson: Aldrei verið sannfærður um að Marshman sé í UFC kaliber; hann virðist ekki vera sérstakur á neinu sviði. Phillips reynist of mikið fyrir hann. TKO í þriðju.

Arnþór Daði Guðmundsson: 
Marshman hefur átt brösulegu gengi að fagna í UFC og hefur tapað tveimur bardögum í röð en það hefur Phillips gert líka. Marshman náði ekki vigt en ég held samt sem áður að það muni ekki hafa áhrif á bardagann. Báðir þurfa nauðsynlega á sigri að halda til að halda sér í UFC og ég held að Marshman muni ná sér í langþráðan sigur eftir herfilega leiðinlegt decision.

Jack Marshman: Pétur, Arnþór
John Phillips: Óskar, Guttormur

Skortafla ársins

Guttormur: 6-3
Pétur: 5-4
Óskar: 5-4
Arnþór: 3-1

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular