UFC 214 er stærsta og besta bardagakvöld ársins og fer fram í nótt. Af því tilefni fengum við Mikael Leó sem spámann helgarinnar.
Mikael Leó Aclipen er 13 ára bardagamaður í Mjölni. Hans helsti draumur er að fá að keppa í UFC en hann hefur æft bardagaíþróttir í sex ár. Mikael er mjög spenntur fyrir bardagakvöldinu en hann fylgist vel með öllu sem er að gera í MMA heiminum. Gefum honum orðið.
Léttþungavigt: Jimi Manuwa gegn Volkan Oezdemir
Veit ekkert um þennan Volkan en held að hann geti ekki tekið við þungum höggum Manuwa. Manuwa rotar hann í 2. lotu.
Veltivigt: Robbie Lawler gegn Donald Cerrone
Ég held mikið upp á Cerrone og vona að hann vinni en held að Lawler fari með sigur af hólmi í besta bardaga kvöldsins. Lawler tekur þetta eftir klofna dómaraákvörðun.
Titilbardagi í fjaðurvigt kvenna: Cris ‘Cyborg’ Justino gegn Tonya Evinger.
Mér finnst Tonya skemmtilegur karakter og langar frekar að sjá hana vinna. En ég held að Cyborg verði allt of mikið fyrir hana. Cyborg klárar þetta með rothöggi í 1. lotu.
Titilbardagi í veltivigt: Tyron Woodley gegn Demian Maia
Ég vona svo innilega að Maia vinni þennan bardaga en ég held að hann fari ekki þannig. Ég held að Woodley spretti að honum og roti hann snemma eins og hann gerði á móti Robbie Lalwer þegar hann tók beltið. Woodley sigrar eftir KO í 1. lotu.
Titilbardagi í léttþungavigt: Daniel Cormier gegn Jon Jones
Þá er það aðalbardaginn! Ég held ekki með neinum í þessum bardaga en loksins er þessi bardagi að verða að veruleika, er búinn að bíða lengi eftir honum. Hvað bardagann varðar þá held ég að hann verði svipaður fyrri bardaganum. Ég hef það á tilfinningunni að Jones muni submitta hann í 4. lotu eða vinna eftir einróma dómaraákvörðun. Segjum Jones eftir dómaraákvörðun.