Tuesday, July 16, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC 214

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC 214

UFC 214 er í kvöld en þetta er svo sannarlega besta bardagakvöld ársins. Þrír titilbardagar, ótrúlega hæfileikaríkir bardagamenn og skemmtilegir bardagamenn á uppleið bjóða upp á algjöra veislu í kvöld.

Stærsti bardagi ársins

Bardagi Jon Jones og Daniel Cormier er einfaldlega stærsti MMA bardagi ársins. Við höfum beðið eftir því í rúm tvö ár að þeir mæti í búrið andspænis hvor öðrum og það gerist í kvöld. Rígur þeirra er einn sá skemmtilegasti sem við höfum séð í MMA og er ólíklegt að þeir fallist í faðma að bardaga loknum. Það er gríðarlega mikið undir fyrir þá báða. Ef Cormier tapar er erfitt að ímynda sér að hann vinni sig upp í þriðja bardagann gegn Jones eftir tvö töp gegn honum. Það væri örugglega ekki mikil hvatning fyrir hinn 38 ára gamla Cormier að halda áfram eftir tvö töp gegn Jones.

Jon Jones er aftur á móti að berjast fyrir því að verða aftur sá sami og hann var – meistarinn sem var talinn einn besti bardagamaður heims, fjarri öllu bulli. Það væri afar þýðingarmikið fyrir Jones að ná aftur beltinu sínu sem hann var sviptur eftir slæma hegðun hans utan búrsins. Verður einn hæfileikaríkasti bardagamaður allra tíma í toppformi gegn Cormier? Það kemur í ljós í kvöld!

Getur hinn fertugi Maia orðið meistari?

Glímuhetjan Demian Maia fær loksins titilbardaga í kvöld. Maia mætir Tyron Woodley í næstsíðasta bardaga kvöldsins. Þetta ætti að verða afar áhugaverð viðureign í kvöld enda vita allir hvað þeir ætla að gera. Maia mun fara snemma í fellu og reyna að taka Woodley niður eins og hann hefur gert við nánast alla sína andstæðinga. Það verður hægara sagt en gert enda er Woodley með 92% felluvörn í UFC og Strikeforce og er gríðarlega sterkur glímumaður. Maia þarf þó ekkert endilega að ná fellunni til að komast á bakið hjá mönnum og þar getur hann hangið endalaust eins og bakpoki.

Cyborg í sínum þyngdarflokki

Eftir smá bras í hentivigt og erfiðleikana sem fylgdu því fær Cris ‘Cyborg’ Justino loksins að berjast í sínum þyngdarflokki í UFC. Hún mætir Tony Evinger um titilinn í fjaðurvigt kvenna. Þetta er einn skrítnasti þyngdarflokkurinn í UFC en fyrsti meistarinn, Germaine de Randamie, er farin aftur niður í bantamvigt eftir að hafa neitað að berjast við Cyborg. Tonya Evinger var bantamvigtarmeistari Invicta og er því að fara upp um flokk. Þetta gæti orðið erfitt kvöld fyrir hana enda byggist hennar leikur á því að taka andstæðinginn niður en það gæti reynst erfitt gegn stærri og sterkari andstæðingi eins og Cyborg. Sú brasilíska er með 15 sigra eftir rothögg. Fáum við að sjá þann 16. í kvöld?

Sturlað fjör

Donald Cerrone og Robbie Lawler mætast! Það þarf eiginlega ekkert að segja meira en það. Þetta eru tveir allra skemmtilegustu bardagamennirnir í UFC og þeir eru að fara að deila búrinu saman. Það er bara ekki fræðilegur möguleiki á að þetta verði leiðinlegur bardaga. Það er bara ekki hægt þegar þessir tveir koma saman.

Hnefar munu fljúga

Í fyrsta bardaganum á aðalhluta bardagakvöldsins mætast þeir Jimi Manuwa og Volkan Oezdemir. Þetta eru stórir strákar í léttþungavigtinni og morgunljóst að þeir munu sveifla leðri. Manuwa er með 15 rothögg í 17 sigrum og Oezdemir með 10 rothögg í 14 sigrum. Þessir tveir munu skiptast á höggum og líklegt að það verði bara ansi skemmtilegt.

Frábærir upphitunarbardagar

Til að hita upp fyrir þessa fimm mögnuðu bardaga ættu bardagaaðdáendur að kíkja á upphitunarbardaga kvöldsins. Jason Knight hefur farið á kostum að undanförnu og verið í hrikalega skemmtilegum bardögum að undanförnu. Hann mætir Ricardo Lamas sem er í 3. sæti styrkleikalistans. Knight er aldrei í leiðinlegum bardögum og lofum við því að þetta verði góð skemmtun.

Þá má ekki gleyma því að baróninn Renan Barao mætir Aljamain Sterling. Barao hefur fallið ansi langt niður síðan hann tapaði titlinum sínum í bantamvigtinni en Sterling er að vaxa og bæta sig.

Enn einn skemmtilegi bardagamaðurinn, Brian Ortega, mætir Renato Moicano í kvöld. Báðir eru þeir ósigraðir en Ortega er þekktur fyrir gífurlega sókndjarfan stíl og er ófeiminn við að fara í uppgjafartök hvenær sem er. Þetta ætti að verða mikið fjör.

Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl 22:30 á Fight Pass rás UFC en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 2 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular